New Orleans - Nashville - Graceland

Rokk, Elvis, djass, fljótabátar, plantekrur og kántrí. Hér er spennandi ferð um mið- og suðurríki Bandaríkjanna.

Flogið verður til Chicago og þaðan ekið suður til St. Louis. Borg sú stendur á bökkum Mississippi árinnar og á sér langa sögu. Memphis er ekki langt undan og þar er margt að skoða. Hún var mikið aðdráttarafl ungra tónlistarmanna og lagahöfunda um miðbik 20. aldar því um þær mundir var í fæðingu nýr taktur dægurtónlistar, rokkið. Ein merkilegasta gata borgarinnar er Beale stræti þar sem söfn, plötuverslanir, klúbbar og auðvitað tónlistin minna á liðna tíð. Við förum í heimsókn í Sun Studio þar sem Elvis hljóðritaði sína fyrstu plötu og þaðan er viðeigandi að heimsækja Graceland, heimili kóngsins. Í New Orleans sveipa Cajun, Creole og Mardi Gras svæðið frönskum, töfrandi blæ sem er kallaður The Big Easy. Við siglum á dæmigerðum fljótabát á Mississippi, heimsækjum 200 ára plantekru og könnum gamla franska hverfið í stórborginni. New Orleans er fæðingarstaður djasstónlistarinnar og lifir hún þar góðu lífi enn í dag. Frá ströndum Mexíkóflóa keyrum við í norður í gegnum bómullarakra Alabama til Montgomery sem svo mikið kom við sögu í borgarastyrjöld Bandaríkjanna á sínum tíma. Þaðan er farið til tónlistarborgarinnar Nashville sem er hinn eini sanni Kántríbær. Hver þekkir ekki Hank Williams, Willie Nelson, Patsy Cline, Dolly Parton eða Kenny Rogers? Við gistum í Indianapolis eina nótt áður en við snúum aftur til Chicago.

Verð á mann 559.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 152.500 kr.


Innifalið

 • Flug með Icelandair, Keflavík – Chicago – Keflavík.
 • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði. 
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar.
  (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður).
 • Allar skoðunarferðir með loftkældri rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu (Sun Studio, Graceland, OAK Plantation, New Orleans Gardens, USS Alabama Battelship Memorial Park and Museum, Jack Daniels Distillery, Country Music Hall of Fame and Museum).
 • Fenjasigling í Louisiana.
 • Heimsókn og viskísmökkun hjá Jack Daniels í Tennessee.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
 • Þjórfé fyrir erlenda staðarleiðsögumenn og rútubílstjóra.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

19. október | Keflavík – Chicago

Brottför frá Keflavík kl. 16:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Chicago kl. 18:15 að staðartíma. Eftir útlendingaeftirlit og tollskoðun er haldið á hótel nærri flugvelli. Gist í eina nótt.

20. október | Chicago – St. Louis

Að loknum morgunverði ökum við sem leið liggur út úr borginni, njótum þess sem fyrir augu ber og höfum í huga að í lok ferðar verður farin skoðunarferð um þessa merku borg. Á leiðinni skiptast á landbúnaðarhéruð, ár og stöðuvötn. Förum um minni borgir og þorp og á einum stað verður snæddur hádegisverður. Við nálgumst St. Louis og í útjaðri borgarinnar er sögufrægur staður, Cahokia Mounds, grafreitur frumbyggja. Þar skoðum við okkur um en ökum því næst sem leið liggur yfir Mississippi ána og inn í borg. Þar förum við í skoðunarferð og byrjum á Aloe Plaza, glæsilegu torgi. Þar er margt að sjá en áfram er ekið og næst komið að ráðhúsi borgarinnar, þaðan í höggmyndagarðinn, áfram að hinu magnaða mannvirki The Gateway Arch á bökkum Mississippi og þaðan á náttstað.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

21. október | St. Louis – Memphis

Að loknum morgunverði kveðjum við St. Louis og ökum af stað til Memphis. Við erum í Missouri ríki og ökum dagleiðina vestan megin stórfljótsins Mississippi sem af og til kemur í augsýn. Áð verður á nokkrum stöðum á leiðinni og á einum stað verður snæddur hádegismatur. Við förum yfir ána og með því ökum við inn í Tennessee þar sem Memphis bíður okkar. Þetta er stórborg, íbúar eru 650 þúsund og hér er sagan mögnuð. Þetta er sennilega mesta menningarborg suðurríkja Bandaríkjanna, hér er tala blökkumanna hæst í Tennessee en þegar Þrælastríðinu lauk óx borgin hraðar en nokkur önnur í Bandaríkjunum og varð miðstöð bómullariðnaðarins. Hér kemur heimamaður í vagninn og sýnir okkur hið markverðasta, t.a.m. Victorian Village, einstakt hverfi sögufrægra bygginga frá 19. öld. Við ökum hjá BB King‘s Blues Club, mannréttindasafni landsins, og einu sögufrægasta og glæsilegasta hóteli landsins, Peabody Memphis. Endum skoðunarferðina á Beale stræti en á þessari götu urðu merk tíðindi í tónlistarsögunni. Hér var dægurtónlist að þróast um miðja 20. öld, hingað streymdu tónlistarmenn og lagahöfundar að víðsvegar úr Bandaríkjunum og komu sér og sinni tónlist á framfæri. Beale stræti ómar enn í dag, hér eru ótal klúbbar, krár og almenningsgarðar þar sem tónlistarmenn syngja og spila. Við njótum þessa og snæðum þar saman kvöldverð áður en farið verður á náttstað.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður
Opna allt

22. október | Memphis –Graceland – Jackson

Við byrjum daginn á að heimsækja heimsfrægt hljóðver, Sun Studio, þar sem fjölmargir tónlistarmenn eins og Elvis Presley, Roy Orbison, Johnny Cash og Jerry Lee Lewis hljóðrituðu mörg sinna frægustu laga. Þaðan verður ekin stutt leið til Graceland, heimili rokkkóngsins Elvis Presley. Þetta er sannarlega eins og eyland í miðri mörkinni, einstaklega glæsilegar byggingar og öll umgerð utanhúss sem innan sannkallað listaverk. Hér gefst góður tími til að skoða enda er hér svo margt að sjá. Bílafloti kóngsins er þarna, furðulegustu búningarnir sem hann klæddist sín síðustu ár á hljómleikum í Las Vegas og margt fleira. Það nálgast hádegi svo við meltum upplifun morgunsins með hádegisverði á svæðinu áður en áfram verður ekið. Á leiðinni til Jackson verður áð en þegar komið verður til borgarinnar er farið á náttstað þar sem gist verður eina nótt.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

23. október | Jackson – La Vacherie – New Orleans

Að loknum morgunverði er ekið í suður, nú erum við komin til Suðurríkjanna og smám saman taka við plantekrur og búgarðar. Við snæðum hádegisverð og ökum síðan til höfuðborgar Louisiana, Baton Rouge. Borgin er mikil iðnaðar-, mennta- og
vísindaborg og frá henni er heilmikill útflutningur en Mississippi rennur hér um og er skipgeng miklum flutningaskipum. Baton Rouge ku vera 10 stærsta útflutningshöfn Bandaríkjanna. Hér í Louisiana má segja að menning og saga Suðurríkjanna sé sérstaklega heillandi og því er áhugavert að heimsækja plantekru áður en ekið verður á hótel í New Orleans. Gist í 2 nætur.

 • Morgunverður

24. október | Skoðunarferð um New Orleans

Hér erum við stödd í einni merkilegustu borg Bandaríkjanna og hér er margt að sjá. Við byrjum daginn á þriggja stunda skoðunarferð um borgina í fylgd með heimamanni. Við förum örugglega um franska hverfið því hótelið er þar rétt hjá og enginn fer í skoðunarferð um New Orleans án þess að fara á strætið sem aldrei sefur, Bourbon Street. Við skoðum lystigarð og snæðum hádegisverð. Að þessu loknu verður farið í bátsferð um fenjasvæði. Hér fer saman afar sérstakt gróðurfar og dýralíf sem við kynnumst í þessari eins og hálfs klukkustundar löngu siglingu. Frjáls tími síðdegis gefst í bænum en um kvöldið fer hópurinn um borð í hjólaskip á Mississippi ánni, hlustar á jazz og borðar kvöldverð.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

25. október | New Orleans – Montgomery

Landið og loftslagið í þessu ríki henta einstaklega vel fyrir akuryrkju. Vísbendingar hafa fundist um að frumbyggjar hafi hoggið og brennt skóga til að geta sáð í akra. Á landnámstíð unnu innflytjendur landið næst ánum til að eiga greiða leið á markað. Bómull varð snemma vinsælust og var Alabama stundum kallað „The Cotton State“ eða Bómullarríkið. Við ökum í austur meðfram strönd Mexíkóflóa, merkilegt að hugsa til þess að brot úr þessum sjó skuli ná til Íslandsstrandar og valda því að hjá okkur er byggilegra en á Grænlandi. Við komum í borgina Mobile og skoðum þar merkan stríðsminjagarð, The USS Alabama Battleship Memorial Park. Við snæðum hádegisverð í borginni en þaðan verður svo stefnan sett á sögufrægan stað, borgina Montgomery. Við förum í stutta skoðunarferð um borgina og sjáum merkar byggingar eins og þinghúsið og umdeildan minnisvarða, Confederate Memorial Monument. Heimsækjum borgararéttindasafn, Civil Rights Memorial Center og endum hjá styttu Hank Williams, tónlistarmanns. Gistum eina nótt í borginni. 

 • Morgunverður

26. október | Montgomery – Lynchburg – Nashville

Eftir morgunverð liggur leið okkar til Nashville, höfuðborgar Tennessee ríkis og miðstöðvar tónlistar. Við ökum um norðurhéruð Alabama og sjáum hvernig landið breytist. Við kveðjum Alabama og komum til Lynchburg og snæðum hádegismat í húsi Miss Mary Bobo og þar komumst við áreiðanlega að því hver hún var þessi dularfulla kona. Þaðan verður farið í merkilegustu whiskey verksmiðju Bandaríkjanna, Jack Daniels Distillery. Þaðan ekið á náttstað í miðborg Nashville þar sem gist verður tvær nætur.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

27. október | Skoðunarferð um Nashville

Í dag förum við í skoðunarferð um Nashville með heimamanni. Saga Nashville nær aftur til ársins 1779 þegar fremur lítill hópur manna nýtti sér landshætti og nam land við Cumberland ána. Ein hetja sjálfstæðis-byltingarinnar var Francis Nash og er staðurinn nefndur eftir honum. Landnámið stækkaði hratt og árið 1806 varð til bær og árið 1843 varð Nashville höfuðborg Tennessee. En Nashville er fyrst og fremst þekkt fyrir að vera mekka sveitatónlistar í Bandaríkjunum. Við förum í Music Row, tónlistarhverfi borgarinnar þar sem margt er að sjá. Hér eru ótal hljóðver, söfn, tónleikastaðir, verslanir, útvarpsstöðvar ‒ nánast allt sem tengist þessum mikla iðnaði. Endum daginn á veitingastaðnum, Wildhorse Saloon þar sem verður sameiginlegur kvöldverður.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

28. október | Nashville – Indianapolis

Nafnið Indianapolis merkir einfaldlega borg indjána en við komum til hennar eftir þjóðvegi #65 og byrjum á að kíkja á Fountain torg sem er í skemmtilegu hverfi þar sem saman fara verslanir, listasöfn, veitingastaðir og iðandi mannlíf. Þaðan ökum við í gegnum mikil verslunarhverfi á fallegan stað, White River State Park. Þessi garður er vestarlega í miðborginni nánast á bökkum „Hvítár“ sem rennur um borgina. Skoðum því næst merkilegan stað, eins konar minningarreit um síðari heimstyrjöldina. Röltum þar um svæðið en minningarreiturinn er næststærstur sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Þaðan ökum við á náttstað þar sem gist er eina nótt.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

29. október | Indianapolis – Chicago

Að loknum morgunverði setjum við stefnuna á Chicago og verðum þar um hádegisbil. Við byrjum því á að snæða hádegismat annað hvort í Well´s Market eða Chicago French Market. Heimamaður mun að máltíð lokinni fara með hópinn á ýmsa merka staði í borginni áður en við komum okkur fyrir á frábæru veitingahúsi nærri Michiganvatni. Þetta verður lokahófið okkar í ferðinni svo hér munum við slaka á og njóta.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

30. október | Heimferðardagur

Dagur heimferðar rennur upp, við gefum okkur góðan tíma yfir morgunverði og slökum á. Þeir sem vilja, geta komið töskum sínum fyrir í læstri geymslu hótels og notað hluta dags til að versla eða skoða sig betur um. Hópurinn verður fluttur á flugvöll en flug heim er kl. 19:30.

 • Morgunverður

31. október | Heimkoma

Flugvél Icelandair lendir í Keflavík að morgni 31. október kl. 06:40.

Myndir úr ferðinni

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Oak Alley plantation

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Oak Alley plantation

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - St Louis

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - St Louis

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Wiskey smökkun í Jack Daniels bruggsverksmiðjunni

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Wiskey smökkun í Jack Daniels bruggsverksmiðjunni

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brúin Dolly Parton í Memphis

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brúin Dolly Parton í Memphis

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - New Orleans

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - New Orleans

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Oak Alley plantation
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - St Louis
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Wiskey smökkun í Jack Daniels bruggsverksmiðjunni
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brúin Dolly Parton í Memphis
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - New Orleans

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir