Konungsríkið Jórdanía

Jórdanía, stundum kölluð diplómatinn í Miðausturlöndum, hefur skapað sér sérstöðu sem ferðamannaland og það ekki að ástæðulausu. Ferðin okkar er fjölbreytt því við kynnumst menningu og listum Miðausturlanda, upplifum stórbrotna og margbreytilega náttúru og fáum að sjá og upplifa hvað tíminn er afstæður þegar heimsótt verða sögusvið heimsfrægra fornminja.

Flogið verður til Amman og þar hefst ævintýri okkar. Við heimsækjum Wadi Rum í undurfagri rauðsteins eyðimörkinni sem margir kannast við úr kvikmyndinni um Arabíu Lawrence. Eins höldum við til Aqaba þar sem við eigum góðan dag við Rauðahafið og getum jafnvel snorklað eða synt við kóralrifin. Við förum að sjálfsögðu til hinnar fornu klettaborgar Petru sem er ein helsta þjóðargersemi Jórdaníu og ein af sjö nýju undrum veraldar. Petra er arfleið Nabateans þjóðflokksins sem kom sér fyrir í Jórdaníu fyrir meira en 2000 árum síðan og var á sínum tíma dáður fyrir fágaða menningu og glæsilegan arkitektúr. Í ferðinni förum við fram hjá Dana, stærsta friðlandi Jórdaníu, þar sem meðal annars má finna plöntur og dýrategundir frá þremur heimsálfum. Sumir segja að ekkert jafnist á við störnubjartan næturhimininn á þessu svæði. Við förum niður undurfagra hlykkjótta vegi að lægsta punkti jarðar og heimsækjum Dauðahafið, dveljum þar um stund og leyfum okkur að fljóta í söltu vatninu. Miðausturlönd eru þekkt fyrir mósaíklist og í borginni Madaba verður hægt að sjá best varðveitta mósaíklistaverk sem fundist hefur. Rétt fyrir utan borgina er Nebo fjall, staðurinn þar sem Móses stóð og horfði yfir landið helga. Þar má einnig finna úrval fallegra mósaíklistaverka. Við förum ekki frá Jórdaníu án þess að skoða Jerash sem er með stærstu og best varðveittu rómönsku borgum í heimi. Þetta verður menningar-, ævintýra- og landkönnunarferð, þar sem við gefum okkur tíma til að staldra við, næra skynfæri og njóta ilms, birtu og gestrisni þeirra sem landið búa. 

Verð og nánari upplýsingar væntanlegt

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Björk Håkansson

Björk Håkansson er fædd á Íslandi um hásumar árið 1967 og hefur alla sína ævi verið á faraldsfæti, fyrst með foreldrum sínum og síðar á eigin vegum, svo ekki sér fyrir endann á.

Fyrir rúmum þrjátíu árum fór Björk fyrst til Mið-Austurlanda og settist á skólabekk í Amman í Jórdaníu. Þar með voru línurnar lagðar hvað varðar reglulega búsetu, samskipti og samstarf við arabaheiminn.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir