Bled vatn & Portorož

Náttúran í kringum Bled vatn er með sanni hrífandi fögur og lætur engan ósnortinn. Í ferðinni siglum við á Bled vatni út í eyjuna Blejski Otok, njótum útsýnisins og heimsækjum þar einstaklega fallega Maríukirkju sem á sér aldagamla sögu. Á leið okkar til Rósahafnarinnar eða Portorož, sem verður aðaláfangastaður ferðarinnar, skoðum við okkur um í hinum víðfrægu Postojna dropasteinshellum. Frá Portorož höldum við í siglingu til Izola og Piran, sem eru tvær af perlum Slóveníu, stöldrum við í bænum Rovinj í Króatíu og heimsækjum vínbónda í Pazin. Hafnarborgin Koper í Slóveníu verður heimsótt ásamt borginni Hrastovlje en hún er þekkt fyrir heilaga þrenningarkirkju, sem skartar mjög merkilegum freskum, þ.á m. þeirri frægustu er kallast Dauðadans. Eftir góða daga í Portorož verður ekið inn í Austurríki til töfrandi bæjarins St. Johann í Pongau þar sem við gistum þrjár síðustu næturnar. Þaðan förum við í dagsferð til tónlistarborgarinnar Salzburg í Austurríki, fæðingarborgar Mozarts, sem er þekkt fyrir fallegar byggingar í barokkstíl. Einnig verður komið til Hallstatt við Hallstättersee sem er með fallegustu stöðum Salzkammergut en bærinn og einstakt landslagið umhverfis hann eru varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.

Verð á mann í tvíbýli 337.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 55.500 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling út í Blejski Otok eyju u.þ.b. € 13.
  • Aðgangseyrir í Maríukirkjuna u.þ.b. € 7.
  • Bled kastali u.þ.b. € 12.
  • Postojna dropasteinshellar u.þ.b. € 23.
  • Sigling til Piran og Izola u.þ.b. € 25.
  • Léttur hádegisverður í Pazin u.þ.b. € 18.
  • Kláfur í Hallstatt u.þ.b. € 20.
  • Kláfur upp í Salzburgkastala u.þ.b. € 14.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. september | Flug til München & ekið að Bled vatni

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið að Bled vatni í Slóveníu sem er með fegurstu perlum Alpanna og gist þar í tvær nætur.

21. september | Eyjan Blejski Otok & Bled kastalinn

Eftir morgunverð höldum við í siglingu á Bled vatninu út í eyjuna Blejski Otok en þar er hugguleg Maríukirkja með frægri óskabjöllu. Eftir bátsferðina verður ekið upp að Bled kastalanum, miðaldakastala sem stendur í 139 m hæð á hamri við norðurbakka vatnsins. Kastalinn er talinn vera elsti kastali Slóveníu og er eitt mesta aðdráttarafl landsins. Þaðan gefur að líta stórkostlegt útsýni yfir svæðið. Síðdegis gefst einnig frjáls tími til að taka það rólega og njóta borgarinnar Bled og umhverfi hennar.

22. september | Rósahöfnin & Postojna dropasteinshellarnir

Þá verður ekið til Portorož í Slóveníu eða Rósahafnarinnar svokölluðu, þar sem gist verður í fimm nætur. Á leiðinni þangað verður komið til Postojna en þar eru hinir víðfrægu dropasteinshellar. Umhverfi hellanna er mjög fallegt og hægt að skoða sig um í minjagripaverslunum eða kíkja á veitingastaði og kaffihús. Við tökum okkur góðan tíma til að kanna svæðið og njóta.

Opna allt

23. september | Sigling til Piran & Izola

Haldið verður í siglingu til sjávarþorpanna Izola og Piran, sem eru sannkallaðar perlur Istríastrandarinnar. Í Izola stígum við örstutt í land en höldum svo ferðinni áfram til Piran, yndislegs bæjar sem áhugavert er að skoða. Þar fæddist fiðluleikarinn og tónskáldið Tartini en minnisvarði um hann stendur á hinu glæsilega Tartini torgi. Eins er gaman að skoða Georgskirkjuna, sem stendur tignarleg á fallegum stað á ströndinni.

24. september | Frjáls dagur í Portorož

Þennan dag ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað. Tilvalið er að nýta sér aðstöðu hótelsins til afslöppunar og einnig er dásamlegt er að ganga eftir strandlengjunni yfir til Piran en þar er margt sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

25. september | Dagsferð til Króatíu & Rovinj

Á dagskránni í dag er heimsókn til Króatíu sem tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Við ökum til Rovinj, yndislegs listamannabæjar við Istríaströndina en þar úti fyrir eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Við höldum í göngu upp að kirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir þessa litríku gömlu borg. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Tími gefst til að kanna umhverfið og fá sér jafnvel svaladrykk. Á heimleiðinni verður komið við í Pazin þar sem við snæðum léttan málsverð hjá vínbónda.

26. september | Hrastovlje & Koper

Ekinn verður spotti inn í land til þorpsins Hrastovlje. Þar stendur þekkt kirkja heilagrar þrenningar, sem byggð var í rómönskum stíl á 12. og 13. öld. Kirkjan er heimsfræg fyrir freskur sínar sem þekja innveggi hennar en þekktust þeirra er eflaust Dauðadansinn frá 15. öld. Að skoðuninni lokinni verður ekið til Koper, fallegs bæjar og einu hafnarborgar Slóveníu. Koper er ein af borgunum sem byggðar voru upp af Feneyjarveldinu og er torgið með hertogahöllinni og borgarturninum á Titov torginu skýrt dæmi um stórveldið. Eftir stutta skoðunarferð verður gefinn frjáls tími til að fá sér hressingu og líta inn í stóra verslunarhúsið sem er aðeins fyrir utan elsta hluta bæjarins.

27. september | St. Johann í Pongau

Nú kveðjum við Portorož og höldum til Austurríkis. Þaðan verður síðan ekin falleg leið norður með Slóveníu inn í Austurríki til St. Johann í Pongau, þar sem gist verður í þrjár nætur í hjarta bæjarins.

28. september | Hallstatt

Að morgunverði loknum heimsækjum við Hallstatt við vatnið Hallstättersee og njótum þess að skoða og kynnast þessum draumfagra bæ en landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um. Við lítum inn í kaþólsku kirkjuna og kapelluna sem eru upp á hæðinni en kirkjan geymir mjög merkileg, útskorin altari frá 16. öld. Einnig er hægt að fara með kláfi upp á bæjarfjallið en þaðan er dýrðarinnar útsýni og veitingastaður. Það verður gefinn tími til að njóta þessa dásamlega staðar og þegar við höfum skoðað nægju okkar verður ekið til baka á hótelið.

29. september | Dagur í Salzburg

Yndislegur dagur í fæðingarborg Mozarts, Salzburg. Borgin er þekkt fyrir byggingar í barokkstíl og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1996 en Salzburg er í hugum margra hin eina sanna perla Austurríkis. Við hefjum daginn á skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar en þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Einnig verður haldið upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music tekinn upp. Stórkostlegt útsýni er þaðan yfir Salzburgerland og borgina.

30. september | Heimferð

Það er komið að heimferð og er stefnan tekin á München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir