20. - 30. september 2023 (11 dagar)
Náttúran í kringum Bled vatn er með sanni hrífandi fögur og lætur engan ósnortinn. Í ferðinni siglum við á Bled vatni út í eyjuna Blejski Otok, njótum útsýnisins og heimsækjum þar einstaklega fallega Maríukirkju sem á sér aldagamla sögu. Á leið okkar til Rósahafnarinnar eða Portorož, sem verður aðaláfangastaður ferðarinnar, skoðum við okkur um í hinum víðfrægu Postojna dropasteinshellum. Frá Portorož höldum við í siglingu til Izola og Piran, sem eru tvær af perlum Slóveníu, stöldrum við í bænum Rovinj í Króatíu og heimsækjum vínbónda í Pazin. Hafnarborgin Koper í Slóveníu verður heimsótt ásamt borginni Hrastovlje en hún er þekkt fyrir heilaga þrenningarkirkju, sem skartar mjög merkilegum freskum, þ.á m. þeirri frægustu er kallast Dauðadans. Eftir góða daga í Portorož verður ekið inn í Austurríki til töfrandi bæjarins St. Johann í Pongau þar sem við gistum þrjár síðustu næturnar. Þaðan förum við í dagsferð til tónlistarborgarinnar Salzburg í Austurríki, fæðingarborgar Mozarts, sem er þekkt fyrir fallegar byggingar í barokkstíl. Einnig verður komið til Hallstatt við Hallstättersee sem er með fallegustu stöðum Salzkammergut en bærinn og einstakt landslagið umhverfis hann eru varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.