Vesen á Tenerife

Við ætlum að lengja sumarið með dásamlegri ferð til Tenerife. Við blöndum saman fjölbreyttum gönguferðum og afslöppun í sólinni fjarri helstu ferðamannastöðum eyjunnar. Við gistum fyrri helming dvalarinnar í La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan förum við í ferðir um nyrsta og gróðursælasta hluta eyjunnar, göngum á milli lítilla þorpa og sjáum hvernig daglegt líf eyjaskeggja gengur fyrir sig. Seinni helming dvalarinnar færum við okkur á vestari hluta eyjunnar og dveljum í Los Silos. Þaðan förum við í dagsferðir í Teide þjóðgarðinn og Masca gljúfrin og kynnumst jafnframt strandlífinu í þessum fallega bæ. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju. Gist verður á 4* hótelum og búa bæði hótelin yfir heilsulind sem má nýta til að láta líða úr sér eftir skemmtilega göngudaga. 

Ferðin er skipulögð í samvinnu við gönguklúbbinn Vesen og vergang og er opin öllum áhugasömum.

Verð á mann 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.400 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Rútuferðir til og frá flugvelli og samkvæmt dagskrá.
 • Gisting í 7 nætur á góðum 4* hótelum í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Kvöldverðir öll kvöldin.
 • Aðgangur að skúlptúrgarði.
 • Ferð með kláfi niður Pico del Teide.
 • Göngudagskrá.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kostnaður, annar en sá sem talinn er upp undir innifalið.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Þjórfé.

Hótelin í ferðinni

Fyrstu 3 næturnar er gist á 4* hótelinu Laguna Nivaria í La Laguna. Hótelið er afar vel staðsett eða í hjarta gamla bæjarhlutans. Herbergin eru öll búin gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, öryggishólfi, þráðlausu interneti, loftkælingu og litlum ísskáp. Á hótelinu er veitingastaður og kaffibar og auk þess góð heilsulind.

Seinni hluta ferðarinnar gistum við á góðu 4* heilsulindarhóteli í Los Silos. Herbergin eru annað hvort með verönd eða svölum og búin loftkælingu, síma, gervihnattasjónvarpi, þráðlausu neti, öryggishólfi, hárblásara og eldhúsaðstöðu með ísskáp. Góð heilsulind er á þessu hóteli; 2 gufuböð, líkamsrækt, spa og 30 metra löng sundlaug svo eitthvað sé nefnt. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. september │ Flug til Tenerife

Brottför frá Keflavík kl. 14:15. Mæting í Leifstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending á Tenerife kl. 20:25. Ekið til borgarinnar La Laguna á norðurhluta eyjunnar og má reikna með að aksturinn taki u.þ.b. klukkustund. La Laguna er þriðja fjölmennasta borgin í eyjaklasanum, með rúmlega 150.000 íbúa.

Við gistum 3 nætur á góðu 4* hóteli í hjarta gamla bæjarins.

22. september │ La Laguna

Við hefjum daginn á rólegu nótunum og skoðum okkur fyrst um í borginni La Laguna. Borgin er skráð á heimsminjaskrá UNESCO enda má þar finna glæstar kirkjur, klaustur, háskóla og biskupssetur Tenerife. Leiðsögn með heimamanni um borgina mun sýna okkur fjölbreyttar hliðar hennar en borgin er mikil háskólaborg og á sér langa og áhugaverða sögu. Síðar verður svo gengið upp á hásléttu Anaga fjallgarðsins og njótum við þar dásamlegs útsýnis yfir Santa Cruz strandlengjuna. Á göngu okkar um fjallið gætu fjárhirðar orðið á vegi okkar en hæðótt landslagið í efstu hlíðunum þykir einkar góður bithagi fyrir fé.

 • Göngutími: ca 2 klst.
 • Hækkun: +/- 220 m

23. september │ Gönguleið á Anaga fjallinu

Í dag ætlum við í göngu um einstaklega fallegt skóglendi við Anaga fjöllin. Gengið verður um stíga gljávíðisskógarins og við upplifum þægilega kyrrðina og drekkum í okkur einstaka náttúrufegurð svæðisins. Inn á milli fáum við óviðjafnanlegt útsýni til allra átta og á vegi okkar verða lítil þorp. Það er ekki að ástæðulausu að þessi sælureitur er á náttúruminjaskrá UNESCO.

 • Göngutími: ca 3,5 klst.
 • Hækkun/lækkun: ca +300 m / ca 500 m
Opna allt

24. september │ Frjáls dagur / gengið að gistiskálanum á Teide

Í dag fer allur hópurinn saman akandi í átt að Los Silos. Þeir sem ætla að ganga upp á eldfjallið Teide verða skildir eftir við rót fjallsins og ganga upp að skálanum þar sem gist verður í nótt. Þeir sem ekki ætla upp á topp Teide fara áfram á hótelið í Los Silos þar sem er tilvalið að nýta aðstöðuna á hótelinu eða kanna nærumhverfið á eigin vegum. Fyrir þá sem vilja smá hreyfingu væri upplagt að rölta með fram strandlengjunni og kíkja yfir í nágrannabæinn Garachico. Þessi gönguleið er rúmir 6 kílómetrar.

25. september │ Pico del Teide – hæsti tindur Spánar

Þeir sem að ætla upp á Teide vakna fyrir sólarupprás og ganga af stað upp á hæsta eldfjall eyjunnar (1380 m hækkun) sem stundum er kallað „þak Spánar“. Hinir geta tekið kláfinn upp snemma um morguninn og gengið lokaspölinn á toppinn (1,5 km og 150 m hækkun). Upp á fjallinu njótum við ógleymanlegs útsýnis og hóparnir verða svo samferða aftur á hótelið. Ef veðurguðirnir koma í veg fyrir ferð upp á þetta skemmtilega fjall verður boðið upp á aðra gönguleið þar sem útsýnið yfir þetta stórskorna eldfjallalandslag er ekki síðra.

 • Göngutími: ca 5 klst.

26. september │ Candelaria & skúlptúrgarður

Nú verður gengið frá basilíku heilagrar jómfrúr í bænum Candelaria með fram fjölbreyttum strandgróðrinum að Playa de Chimisay eða heilögu ströndinni við Chimisay. Við förum síðan yfir í afar fagran skúlptúrgarð Gernot-Huber stofnunarinnar og sjáum þar ýmis verk úr gossteinum, kaktusum, trjám og fleiru og kynnumst hvernig þessum þýska listamanni tókst á einstakan hátt að búa til bein tengsl á milli skúlptúrs og náttúru. Stórkostlegt útsýnið með fram suðurströnd eyjunnar er ógleymanlegt. Síðdegis höldum við svo á hótel í Los Silos þar sem við gistum síðustu 3 næturnar.

 • Göngutími: ca 1,5 klst.

27. september │ Masca gljúfrin

Við hefjum daginn á siglingu með fram stórfenglegri klettaströndinni, Los Gigantes. Farið verður í ævintýralega göngu um Masca gljúfrin, sem margir telja eina fallegustu gönguleið Tenerife. Á leið okkar um svæðið er fróðlegt að sjá hvernig náttúran er hægt og rólega að jafna sig eftir mikla skógarelda árið 2007.

 • Göngutími: ca 3,5 klst.
 • Hækkun: ca + 600 m

28. september │ Heimferð

Síðasta daginn er upplagt að nýta í rólegheit, rölta um bæinn og njóta sólarinnar. Brottför með Icelandair frá Tenerife kl. 21:25 og er mæting 2 klst. fyrir brottför. Lent er í Keflavík kl. 01:45 aðfaranótt 29. septembers. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir