Á Drakúlaslóðum í Rúmeníu

20. ágúst – 3. september 2019 (15 dagar)

Blómlegar sveitir, ótrúlega vel varðveitt miðaldaþorp, konungshallir, forn klaustur og kastalar eru meðal þess sem við kynnumst í þessari ferð um Rúmeníu.

Við förum um Transilvaníu, upp í Karpatafjöllin og njótum daga í Búkarest. Förum þaðan niður til Svartahafsins í siglingu um óshólma Dónár og kynnumst gestrisni íbúanna sem og langri og fjölbreyttri sögu þeirra. Við skoðum einn tilkomumesta kastala Evrópu, Hunyadi kastalann, siglum um náttúruverndarsvæði óshólma Dónár og förum að rótum Karpatafjalla. Miðaldabærinn Sighișoara, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er skammt undan sem og kirkjuvirkið Biertan þar sem okkur verður boðið í vínsmökkun. Við heimsækjum kastala Drakúla í Bran og Peleş konungshöllina, eina fegurstu sumarhöll Evrópu. Eftir viðdvöl í háskólaborginni Cluj-Napoca verður á ný haldið til Búdapest þar sem við dveljum og kynnumst höfuðborg Ungverjalands og nágrenni hennar. Við förum í ferð út fyrir borgina til konungshallarinnar Grassalkovich og í Lazar kynnumst við reiðmennsku landsmanna og snæðum kvöldverð við dans og söng sígauna. Búdapest á bökkum Dónár er rómuð fyrir fegurð og eftir forvitnilegar skoðunarferðir í Pest og Buda gefst tækifæri til að uppgötva borgina á eigin máta.

Verð á mann í tvíbýli 364.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 68.800 kr.

 
Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Wizz Air og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Móttaka og kvöldverður hjá vínbónda í Sibiel.
 • Kvöldverður ásamt þjóðlegri skemmtun á veitingastað í Búkarest.
 • Hestasýning hjá Puszta hirðingjum ásamt máltíð.
 • Aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Sigling á Dóná ásamt hádegisverði.
 • Vínsmökkun í Biertan.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðrar máltíðir en þær sem nefndar eru undir innifalið.
 • Þjórfé til bílstjóra og til staðarleiðsögumanns.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. ágúst | Flug til Búdapest

Brottför frá Keflavík kl. 10:30. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Búdapest kl. 16:55 að staðartíma. Haldið verður beint á hótel miðsvæðis í Búdapest þar sem gist verður eina nótt. 

21. ágúst | Nădlac & Timișoara

Eftir góðan morgunverð keyrum við til Rúmeníu og við landamærin, í bænum Nadlach, tekur rúmenskur leiðsögumaður á móti hópnum og förinni verður haldið áfram til Timișoara. Þessi borg í Vestur-Rúmeníu telur rúmlega 300 þúsund íbúa og er bæði fjármála- og menningarmiðstöð vesturhluta landsins. Miðbærinn samanstendur að miklu leyti af byggingum frá austurríska keisaradæminu og er oft nefnd litla Vín. Á fallega sigurtorginu, Piața Victoriei er að finna hús þjóðleikhússins og þjóðaróperunnar. Þar er einnig að finna eftirmynd Rómúlusar og Remusar við spena úlfynjunnar. Í borginni eru líka margar glæsilegar og áhugaverðar byggingar eins og dómhúsið og landsbankinn. Borgin hefur verið valin til að vera ein af menningarhöfuðborgum Evrópu árið 2021. Við gistum 1 nótt í Timișoara.

22. ágúst | Sibiu, Hunyadi kastalinn og kvöldverður hjá bændum í Sibiel

Þennan dag er ferðinni heitið til borgarinnar Sibiu, menningarhöfuðborgar Evrópu árið 2007. Á leiðinni þangað skoðum við miðaldakastalann Hunyadi, einn stærsta kastala í Evrópu og einn af sjö undrum Rúmeníu. Þessi tæplega 150.000 manna borg, Sibiu, er staðsett í um 300 kílómetra fjarlægð norðvestur af Búkarest. Hér gefur að líta miklar gersemar í gömlum, þýskum byggingarstíl og má þar nefna hús, kirkjur og virki sem og byggingar í barokk-, nýgotneskum og júgendstíl. Við sjáum m.a. Brukenthal þjóðarsafnið, gamla ráðhúsið og evangelísku kirkjuna. Staðarleiðsögumaður mun fræða okkur um sögu Hermannsborgar en það var nafn borgarinnar hér áður fyrr. Ekki er ólíklegt að við sjáum bændur úr nærliggjandi þorpum með vörur sínar á uxakerrum á leið á markaðinn. Við ljúkum skemmtilegum degi með góðum kvöldverði hjá bændum, fáum að smakka á mat og góðum vínum svæðisins áður en haldið er á hótel í Sibiu. 

Opna allt

23. ágúst | Cozia klaustrið & Búkarest

Á leið okkar til Búkarest leggjum við lykkju á leið okkar og skoðum Cozia klaustrið, einn af þekktustu minnisvörðum um byggingarlist miðalda í Rúmeníu. Klaustrið var stofnað árið 1388 og er í dag á heimsminjaskrá UNESCO. Á ferð okkar um borgina komumst við að því af hverju hún hún fékk viðurnefnið París austursins í kringum 1930. Kaffihúsin og veitingastaðirnir í Leipzig hverfinu og gamla bæjarhlutanum raða sér þétt hvert að öðru og er þar nú fallegra en nokkru sinni. Sigurboginn, Alþingishúsið og Palatual Cotroceni, bústaður rúmenska forsetans, eru meðal þeirra glæstu bygginga sem verða á vegi okkar yfir daginn. Eftir kynni okkar á þessari fallegu borg verður ekið að hóteli í miðborg Búkarest þar sem gist verður í 2 nætur. 

24. ágúst | Frjáls dagur í Búkarest

Í dag gefst tækifæri til að kynnast Búkarest betur á eigin vegum. Upplagt er að heimsækja gamla bæjarhlutann eða Centru Vechi og kanna dásamlegt umhverfi hans, fá sér góðan kaffibolla og fylgjast með mannlífinu. Borgin hefur upp á ótal margt að bjóða, söfn, kirkjur og glæstar byggingar.

25. ágúst | Constanta & Tulcea

Skoðunarferð um eina mikilvægustu hafnarborg Evrópu frá tímum Rómverja, Constanta. Borgin er sú fjórða stærsta í Rúmeníu með rétt tæplega 300.000 íbúa og er höfnin í dag sú stærsta við Svartahaf. Farið verður á Fornleifa- og Sögusafnið og Mósaíksafnið þar sem er að finna mósaíkgólf frá 400 e.Kr.

Eftir hádegisverð verður svo haldið áfram til Tulcea og gistum við þar í 2 nætur. 

26. ágúst | Tulcea & sigling um ósa Dónár

Í dag bregðum við okkur í siglingu. Ósar Dónár eru næststærstu árósar Evrópu og hér lifa yfir 4000 dýrategundir og 1000 plöntutegundir. Um 300 fuglategundir er að finna á svæðinu og 45 tegundir ferskvatnsfiska í ám og vötnum. Svæðið er rómað fyrir einstaklega fjölbreytt fuglalíf og ekki er ólíklegt að hegrar, pelíkanar og hafernir verði á meðal þeirra fugla sem verða á vegi okkar. Síðan 1991 eru Dónárósar á heimsminjaskrá UNESCO og eru tveir þriðju hlutar þeirra stranglega verndað svæði. Á meðan við siglum um ósana og njótum þessarar mikilfenglegu náttúruparadísar verður boðið upp á hádegisverð um borð í skipinu. 

27. ágúst | Drakúla kastalinn og Poiana Brașov

Í dag höldum við til Poiana Brașov. Svæði þetta þykir afar gott skíðasvæði og er vinsælt á meðal skíðaáhugamanna vítt og breitt frá Evrópu. Á leið okkar þangað heimsækjum við hinn fræga Bran kastala. Kastalinn var reistur á 14. öld og þótti einkar vel hannaður til að standast áhlaup óvina. Á seinni tímum er þessi kastali þó hvað þekktastur sem kastali Drakúla. Þó aldrei hafi verið sannað að Drakúla greifi hafi nokkurn tíma búið í kastalanum þá aftrar það ekki þúsundum aðdáenda sagnanna að heimsækja þennan fræga kastala. Gisting í Poiana Brașov í 2 nætur.

28. ágúst | Fjallabærinn Sinaia, Peleș kastalinn og Brașov

Það er fjölbreyttur dagur fram undan. Einn af hápunktum dagsins er borgin Sinaia. Þessi tæplega 12.000 manna fjallabær er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna og oft nefnd perla Karpatafjallanna. Þar skoðum við glæsikastalann Peleș. Hann stendur í stórkostlegu fjalllendi um 50 kílómetra suður af Poiana Brașov og var sumardvalarstaður konungsins Karls fyrsta sem ríkti yfir Rúmeníu 1881 til 1914. Byggingarstíll kastalans er hinn glæsilegasti og er hann algjört meistaraverk þýskrar rómantíkur. Við höldum því næst til Brașov sem liggur í hjarta Rúmeníu. Þar skoðum við m.a. gamla ráðhúsið sem reist var á 14. öld, Svörtu kirkjuna sem er helsta kennileiti borgarinnar ásamt fleiri áhugaverðum stöðum undir leiðsögn heimamanns. 

29. ágúst | Sighișoara, Drakúla greifi og vínsmökkun

Við fáum skemmtilega leiðsögn um borgina Sighișoara með heimamanni en gamli hluti borgarinnar er á heimsminjaskrá UNESCO vegna varnarmúrsins umhverfis hana. Hér gnæfir 64 m hár varðturn yfir þessum miklu gersemum en honum hefur í dag verið breytt í safn. Við sjáum ennfremur Drakúlahúsið, sem reyndar er búið að breyta í ölkrá í dag, en þar á hin fræga sögupersóna, Drakúla, að hafa fæðst. Á leið okkar til Cluj-Napoca verður komið við í virkiskirkjunni í Biertan sem einnig er skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Við fáum leiðsögn um svæðið hjá einum af prestunum og því næst smá vínsmökkun í presthúsinu sjálfu. Dagurinn endar í fjórðu stærstu borg Rúmeníu, Cluj-Napoca þar sem gist verður í 1 nótt.

30. ágúst | Skoðunarferð um Cluj-Napoca & Búdapest

Eftir góðan morgunverð verður boðið upp á áhugaverða skoðunarferð um borgina Cluj-Napoca. Borgin gegnir mikilvægu hlutverki í landinu sem miðstöð menningar, iðnaðar og viðskipta og er þar einnig að finna stærsta háskóla landsins, Babes-Bolyai háskólann. Áhugamenn um skrúðgarða ættu ekki að láta garðinn sem umlykur háskólann fram hjá sér fara. Við höldum för okkar svo aftur til Búdapest þar sem við ætlum að dvelja í 4 daga. Nú gefum við okkur betri tíma til að kynnast þessari dásamlegu borg.

31. ágúst | Skoðunarferð um borgarhlutann Pest

Við hefjum þennan dag á skoðunarferð um austurhluta borgarinnar, Pest. Allt til ársins 1873 var Búdapest mynduð úr þremur borgarhlutum, Buda, Pest og Óbuda. Við förum á Hetjutorgið, Hősök tere, og að byggingu listasafnsins í Búdapest sem hefur að geyma mikilvægasta og stærsta listasafn borgarinnar. Komið verður í St. Stephans basilíkuna, eina áhrifamestu byggingu höfuðborgarinnar, með hinu mikla inngönguhliði, skreytt postulunum 12 og 96 m hárri hvelfingu. Þær verða fjölmargar glæsilegar byggingarnar, torgin og söfnin sem verða á vegi okkar um borgina. Við heimsækjum markaðshöllina Vásárcsarnok þar sem er hægt að kaupa ýmislegt góðgæti heimamanna eins og ávexti, grænmeti, pylsur, bakkelsi, vín og ungverska ávaxtasnafsa en einnig borðdúka og vörur úr basti.

Síðdegis gefst tækifæri til að rölta niður hina vinsælu og heimsþekktu verslunargötu, Vaci utca, á milli fjölmargra antíkbúða, lítilla verslana og veitingastaða. Eins gefst tækifæri á að njóta mannlífsins á torginu Vörösmarty tér á hinu margrómaða kaffihúsi Café Gerbeaud. 

1. september | Skoðunarferð um Buda & frjáls eftirmiðdagur

Maður verður þess vel áskynja að svæðið við kastala borgarinnar er helsta aðdráttaraflið enda merkar minjar sem heimamenn hafa reynt að varðveita eins vel og hægt er. Svæðið sem reist er uppi á kastalahæðinni býður upp á ógleymanlegt útsýni yfir borgina með Dóná og borgarhlutann Pest í bakgrunninn. Við skoðum Matthíasardómkirkjuna þar sem Karl Robert frá Anjou var krýndur konungur Ungverjalands og síðar hjónin Franz Joseph I og Elisabeth konungshjón landsins. Síðdegis gefst kostur á að kanna borgina enn frekar á eigin vegum eða rölta um, heimsækja kaupmenn eða fá sér hressingu á einu af fjölmörgu kaffi- eða veitingahúsum borgarinnar.

2. september | Grassalkovich höllin & kvöldverður á Lazar hestabúgarðinum

Þennan dag hefjum við á heimsókn í kastala í barrokkstíl í Gödöllő um 30 km norðaustur af Búdapest. Þarna var sumardvalarstaður keisarahjónanna austurrísku og konungshjóna Ungverjalands, Franz Josefs og Elísabetar eða Sisi eins hún var altíð nefnd. För okkar verður nú haldið áfram til pílagrímabæjarins Máriabesnyő og hlýðum við þar á orgeltónleika í Náðarkirkjunni. Á nærliggjandi hestabúgarði, Lazar, fylgjumst við með glæsilegri sýningu hestahirða og þeirra hestum en þessar sýningar eru vinsælar bæði hjá heimamönnum jafnt sem ferðamönnum. Við skoðum okkur um á þessum glæsilega búgarði og endum svo daginn á dæmigerðum ungverskum kvöldverði á veitingastað búgarðsins og tónlistaratriðum að hætti heimamanna. 

3. september | Heimferðardagur

Þá er skemmtileg ferð á enda og komið að heimför. Brottför með Wizz Air frá Búdapest snemma morguns kl. 07:05 og lending í Keflavík kl. 09:44 að íslenskum tíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steingrímur Gunnarsson

Steingrímur Gunnarsson er einn af okkar reynsluboltum í fararstjórn, enda hefur hann ferðast og dvalið langdvölum í ólíkum löndum, eins og t.d. Austurríki, Kína, Bólivíu, Giunea-Bissasu, Noregi og Spáni. Löndin sem hann hefur heimsótt erum komin yfir 80 talsins, og því má segja að hér sé maður með mikla reynslu í farteskinu þegar að ferðalögum kemur. Tungumál, saga og mismundandi landshættir hafa alltaf heillað hann og hafði töluverð áhrif á námsval hans, en Steingrímur er með cand.mag í tungumálum og bókmenntum frá Háskólanum í Osló ásamt mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum frá University of Salford og Celta nám frá University of Cambridge. Einnig má nefna kennsluréttindi frá Háskóla Íslands ásamt réttindum sem leiðsögumaður á Íslandi. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir