Mont Blanc hringurinn

Gönguleiðin hringinn í kringum Mont Blanc eða hin svokallaða Tour du Mont-Blanc (TMB) er ein frægasta gönguleið Alpanna og oft sögð ein af flottustu göngum heims. Þar spilar líklega inn í stórkostlegt útsýnið á Mont Blanc fjallaklasann og nágrannatinda þess. Í þessari ferð er gengið í 1.500-2.600 m hæð, um ítalska, svissneska og franska hluta fјallsins, yfir sléttur, upp fјallshlíðar og um fјölmörg skörð. Flogið er til Genfar og þaðan ekið til fјallabæjarins Chamonix, einstakrar paradísar útivistarfólks, þar sem hið tilkomumikla Mont Blanc gnæfir yfir. Farið verður upp með Bellevue kláfnum og þar blasir við mikilfenglegt útsýni yfir Mont-Blanc fjallgarðinn. Sérhver dagleið er nýtt ævintýri, ný ögrun. Farið yfir klettasyllur, eftir göngustígum, um fræg skíðasvæði og eftir þægilegum vegum. Gangan um Mont Blanc svæðið, hæsta fјall Vestur-Evrópu, er sannarlega gönguperla sem enginn gönguglaður ætti að láta fram hjá sér fara. 

Hámarksfjöldi í ferðina er 14 manns.

Verð á mann í tvíbýli 358.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 25.800 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð
 • Flug með Icelandair til Genf og flugvallarskattar.
 • Rútuferð frá Genf til Chamonix og til baka út á flugvöll.
 • Gisting í 7 nætur á sex hótelum og einum fjallaskála.
 • 7 morgunverðir.
 • 6 nestispakkar í hádeginu.
 • 6 kvöldverðir.
 • Lyftukort í Bellevue kláfinn.
 • Flutningur í minibus eða leigubílum samkvæmt ferðalýsingu.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Kvöldverður síðasta kvöldið í Chamonix.
 • Drykkir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Þessi ferð er svolítið erfiðari en aðrar gönguferðir Bændaferða 2019 og því mikilvægt að undirbúa sig fyrir ferðina. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og þátttakendur njóta þá sjálfrar ferðarinnar mun betur. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er alltaf góður undirbúningur að fara upp að Steini í Esjunni. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Gott er að hafa farið í 2-3 daga gönguferð til undirbúnings. 

Erfiðleikaflokkur: Miðlungs-erfið gönguferð.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

27. júlí | Flug til Genf & Chamonix

Brottför frá Keflavík kl. 07:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Frá flugvellinum í Genf eru um 100 km til Chamonix svo gera má ráð fyrir að rútuferðin þangað taki um 1,5 klst. Við hittum leiðsögumenn okkar um kvöldið og borðum kvöldverð með þeim. 

28. júlí | Val Montjoie

Að loknum morgunverði hefst gangan frá Chamonix og er gengið til L‘Essert og þaðan er hópurinn fluttur með svonefndum Bellevue kláfi í 1.790 m hæð. Áður en gangan hefst þaðan komum við okkur fyrir á þaki kláfsins til að njóta glæsilegs útsýnis yfir Mont Blanc og fjallatindana Fiz, Aravis og Aiguilles Rouges eða rauðu nálarnar. Við byrjum gönguna á því að fara yfir hengibrú yfir Bionnassay vatnsfallið. Það er magnað að standa á þessari brú og horfa upp eftir ánni og svo ekki síður að horfa á eftir henni niður í dalinn. Áfram göngum við og nú upp í fjallaskarðið Col du Tricot en hæsti tindurinn þar um slóðir er 2120 m á hæð. Þaðan er útsýnið niður í Miage dalinn einstakt þar sem dæmigerð alpasmáþorp koma fyrir sjónir. Nú lækkar smám saman leið okkar til Les Contamines í Montjoie dal þar sem göngunni lýkur. Gist eina nótt.

 • Hækkun: 570 m
 • Lækkun: 1200 m

29. júlí | Beaufortain

Við byrjum göngu dagsins á því að ganga að Notre Dame de la Gorge en þar stendur einstaklega falleg kirkja í barrokkstíl. Leiðin þaðan liggur með fram ánni Le Bon Nant uns komið er í Col du Bonhomme fjallskarðið, þar kveðjum við Montjoie dal, höldum til Beaufortain og nálgumst syðsta enda Mont-Blanc fjallgarðsins uns komið er til Les Chapieux. Þaðan er hópnum ekið á náttstað í Saint Maurice.

 • Hækkun: 1270 m
 • Lækkun: 930 m
Opna allt

30. júlí | Val Veny

Hópnum er ekið til Les Chapieux og þaðan er svo gengið til Col de la Seigne. Héðan er dásamlegt útsýni yfir hrífandi hamraveggina og ísilagða hátindana á suðurhlið Mont-Blanc fjallgarðsins. Á göngunni er hægt að dást að tignarlegum, snæviþöktum tindum í suðurhlíðum Mont Blanc, klettabeltin þar fyrir neðan eru ógnvænleg en um leið hrífandi. Við endum göngu dagsins í La Visaille og þaðan eru göngumenn fluttir á náttstað í bænum Courmayeur.

 • Hækkun: 720 m
 • Lækkun: 840 m

31. júlí | Swiss Val Ferret

Dagurinn hefst á því að hópurinn er fluttur til Arnouva og þaðan er gengin leið sem liggur að svissnesku landamærunum. Þegar yfir þau er komið breytist umhverfið nokkuð því við tekur fallegur alpagróður en í fjarska gnæfa snæviþaktir tindar Dolent og l‘A Neuve fjallanna. Gangan endar í Ferret dal en þaðan er hópurinn fluttur á náttstað í snotrum fjallaskála í einstaklega fallegu umhverfi nærri þorpinu Champex.

 • Hækkun: 770 m
 • Lækkun: 850 m

1. ágúst | Col de la Forclaz

Í dag er ferðinni haldið frá Champex dalnum yfir til Trient dalsins. Við förum um grösuga bithaga kvikfénaðar í Bovine, göngum útsýnisstíg yfir Rhone dalnum þar sem vínviður teygir sig upp eftir hlíðunum og njótum um leið ótrúlegrar náttúrufegurðar Bernese Oberland. Leiðin liggur niður á við og við komum til Col de la Forclaz þar sem leiðin liggur á milli Rhonedals og Trientdalsins. Endum góða dagleið á hóteli í Trient.

 • Hækkun: 700 m
 • Lækkun: 670 m

2. ágúst | Chamonix dalurinn

Lokagangan okkar er að landamærunum við Sviss og Frakkland. Þaðan er útsýni yfir norðurhluta Mont-Blanc sem er hulinn af jökli. Þetta dásamlega útsýni fylgir okkur í göngunni niður að smáþorpinu Le Tour. Hópurinn verður fluttur þaðan til Chamonix þar sem gist verður á sama hóteli og í upphafi ferðar. Kvöldverður á eigin vegum.

 • Hækkun 910 m
 • Lækkun 800 m

3. ágúst | Heimferð

Komið er að heimferð eftir dásamlegar göngur og hressandi útivist. Eftir morgunverð verður lagt af stað út á flugvöll og flogið heim frá Genf kl. 14:00. Lending í Keflavík er kl. 15:50 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc. íþróttafræðingur að mennt. Hún kenndi íþróttir í skólum í nokkur ár en síðan var áherslan lögð á almenningsíþróttir, m.a. á líkamsræktarstöðvum og hjá öldruðum. Steinunn sá einnig um hlaupaþjálfun hjá Trimmklúbbi Seltjarnarness í 14 ár. Hún hefur starfað við heilsuþjálfun fólks í endurhæfingu á Reykjalundi síðan 2010. Steinunn hefur verið fararstjóri í gönguskíðaferðum Bændaferða síðan 2006 og í útivistarferðum síðan 2012.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir