Hjólað við Wolfgangsee

Wolfgangsee er stærsta og þekktasta stöðuvatnið á þessu stórbrotna svæði í Salzkammergut í Austurríki. Við kynnumst nánasta umhverfi stöðuvatnsins vel, auk þorpanna við bakka þess. Þau eru St. Wolfgang, St. Gilgen og Strobl, þaðan sem fjallasýnin lætur engan ósnortinn. Við hjólum yfir fjallskarðið Scharflinger Höhe að vatninu Mondsee en frægð þess hefur borist víða og hefur það meðal annars verið kvikmyndað. Við heimsækjum Bad Ischl sem hefur lengi verið frægur fyrir heilsulindir sínar en einnig er hann þekktur sem sumardvalarstaður Franz Josephs I. og Sisi prinsessu. Höldum til Obertraun þar sem er að finna hinn aldagamla Dachstein íshelli ásamt elstu saltnámu heims í bænum Hallstatt og kynnumst svo sögu Mozarts í heimsókn til Salzburg. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber.

Gist verður á 4* hóteli í bænum Strobl við Wolfgangsee sem er með fyrirmyndaraðstöðu til afslöppunar og endurnæringar eftir dásamlegar hjólaferðir í stórbrotinni náttúru.

Verð á mann í tvíbýli 219.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 32.500 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Wolfgangsee.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin á hótelinu hefur upp á að bjóða.
 • Rútuferð milli Scharfling og Krottensee.
 • Rútuferðir frá Hallstatt og Salzburg að hóteli.
 • Hjólaprógramm í 5 daga.
 • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 12.300 kr.
 • Leiga á rafhjóli 22.500 kr.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og ferjur.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 35 - 60 km. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa  kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flogið til München 15. september

Flogið verður með Icelandair til München þann 15. september. Brottför frá Keflavík kl. 10:50 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 16:35 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 200 km að Wolfgangsee svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 3 klst. Á heimleið 22. september leggjum við af stað út á flugvöll eftir morgunverð en flogið verður heim kl. 14:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma.

Tillaga að dagleiðum

Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga auk eins hvíldardags sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykir áhugavert að heimsækja. 

Dagleið 1 | Hjólað í kringum Wolfgangsee

Í dag munum við hjóla kringum Wolfgangsee og kynnast nánasta umhverfi þess og bæjunum St. Wolfgang, Strobl og St. Gilgen. Leiðin er afar rómantísk og liggur meðfram strandlengjunni þar sem við njótum stórbrotins útsýnis yfir fjallgarðana umhverfis vatnið. Hjólað verður á hjólastígum, malbikuðum vegum eða troðnum malarvegum. Einnig er hægt að fara til baka frá St. Gilgen með báti.

 • Vegalengd: 36 km (18 km, fram og til baka)
 • Hækkun: jafnslétta
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

Dagleið 2 | Mondsee & Krottensee

Við höldum til St. Gilgen, þaðan sem við hjólum til Mondsee, yfir fjallskarðið Scharflinger Höhe sem er 604 m yfir sjávarmáli. Áfram hjólum við meðfram vatninu þar til við náum til bæjarins Mondsee en brúðkaupsatriðið fræga í kvikmyndinni Sound of Music var tekið upp þar í bæ. Hjólum í áttina að vatninu Irrsee og til baka um Keuschen og til bæjarins Scharfling. Þangað sækir okkur skutla sem ferjar okkur upp að hinu fagra Krottensee vatni, þaðan sem hjólað verður heim á hótel.

 • Vegalengd: ca 60 km
 • Hækkun: ca 400 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 3 | Hallstätter See

Hjólum frá hótelinu til Bad Ischl sem er þekktur fyrir náttúrulega heilsulind sína en einnig sem sumardvalarstaður Austurríkiskeisara Franz-Josef og konu hans Sisi. Þaðan höldum við áfram til bæjarins Bad Goisern á leið okkar að Hallstätter See, þar sem við hjólum eftir hjólastíg við bakka vatnsins sem liggur í einstaklega fögru umhverfi. Við njótum náttúrunnar á leiðinni og höldum til Obertraun þar sem finna má íshellinn Dachstein en þess má geta að umhverfið allt er skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan verður haldið til bæjarins Hallstatt þar sem okkur gefst tækifæri á að heimsækja elstu saltnámu heims. Rúta mun ferja okkur til baka á hótel.

 • Vegalengd: ca 45 km
 • Hækkun/lækkun: ca 220/255 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 4 | Salzburg

Við hefjum ferðina að vanda frá hótelinu okkar við Wolfgangsee, hjólum fram hjá grænum grundum yfir til smábæjanna Thalgau og Eugendorf á leið okkar til Salzburg. Þar munum við skoða helstu staði borgarinnar, s.s. fæðingarstað Mozarts sem í dag er safn, Mirabell höllina, Hohensalzburg virkið og fleiri undursamlega staði í þessari fallegu borg. Að góðri skoðun lokinni mun rúta ferja okkur aftur á hótel.

 • Vegalengd: ca 53 km
 • Hækkun: ca 346 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 5 | Þriggja vatna ferð

Frá Wolfgangsee höldum við yfir Scharfling skarðið til Mondsee vatnsins, hjólum meðfram suðurbakka þess og áfram eftir suðurbakka Attersee vatnsins. Höldum í gegnum Weißenbach dalinn til keisarabæjarins Bad Ischl og áfram til baka á hótelið okkar við Wolfgangsee.

 • Vegalengd: ca 60 km
 • Hækkun/lækkun: ca 150 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs

Frídagur

Frídaginn er hægt að nýta til að kynna sér svæðið á eigin vegum og upplifað töfrandi náttúrufegurð Salzkammergut svæðisins. Einnig væri hægt að nota þennan dag í afslöppun og láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér á heilsulind hótelsins þar sem hægt er að slaka á við sundlaugina eða panta sér nuddmeðferðir. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel Bergrose

Gist verður á Hotel Bergrose sem er 4* hótel sem staðsett er í eins kílómeters fjarlægð frá bökkum vatnsins Wolfgangsee á rólegum stað í útjaðri bæjarins Strobl. Hótelið er með 32 vel búin herbergi sem öll eru með flatskjá, öryggishólfi, síma, útvarpi og hárþurrku. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Á hótelinu er að finna fyrsta flokks heilsulind þar sem upplagt er að láta líða úr sér eftir hreyfingu dagsins. Gestum stendur til boða að nýta sér sundlaug (28°C), nuddpott, sauna, saltvatnsgufubað og slökunarrými með hituðum bekkjum. Einnig eru sólbekkir í hótelgarðinum. Glæsilegt morgunverðarhlaðborð með heimagerðu góðgæti sem og 4-5 rétta kvöldverður, bíður gesta á þessu huggulega hóteli. Frí nettenging er í andyri hótelsins. Auk veitingasals er notaleg arinstofa á staðnum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir