Fegurð landsins fjalla

Það er ævintýri líkast að ferðast um Alpafjöllin í Sviss og Ítalíu og ekki skemmir að dvelja við annað stærsta vatn Ítalíu, Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð, sannkölluð perla. Hér kynnumst við sögu og litskrúðugu menningarlífi þessara landa á hrífandi hátt.

Við hefjum ferðina á Ítalíu í ljúfa bænum Stresa sem stendur við vatnið Lago Maggiore. Ekið verður til Domodossola í ítölsku Ölpunum og þaðan með Centovalli eða Hundrað dala lestinni í ævintýralega ferð um stórbrotin gil og dali til svissneska bæjarins Locarno þar sem fegurðin lætur engan ósnortinn. Við siglum til perlunnar Isola Bella, sem er ein Borromeo-eyjanna en þar sjáum við glæsilega höll í fögrum lystigarði og sækjum eyjuna Peskatore heim. Töfrandi fjallabærinn Sion bíður eftir okkur í Wallis kantónu í Sviss en á leiðinni þangað verður áð í Chamonix sem stendur við rætur hæsta fjalls Vestur-Evrópu, Mont Blanc. Frá miðbæ Chamonix gengur útsýniskláfur upp í 3.842 m hæð á Aiguille du Midi en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Mont Blanc og dalinn fyrir neðan. Við toppum þessa glæsilegu ferð með því að koma við í hinum fræga fjallabæ Zermatt sem liggur við rætur Matterhorn fjalls á milli hæstu fjalla Evrópu.

Verð á mann í tvíbýli 238.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 62.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun og kvöldverður allan tíman á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur í Centovalli“ lestina ca € 40.
 • Sigling út í Borromeo eyjarnar og aðgangseyrir í garðinn og höllina ca € 30.
 • Kláfur upp á Aiguille du Midi ca € 60.
 • Lestin frá Täsch til Zermatt ca CHF 16.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

14. september | Flug til Mílanó & Stresa við Lago Maggiore vatn

Brottför frá Keflavík kl. 15:55 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:40 að staðartíma. Þaðan verður ekið rakleitt til bæjarins Stresa, við vatnið Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Þetta er annað stærsta vatn Ítalíu en tæpur fimmtungur vatnsins tilheyrir Sviss. Frá 18. öld hefur fegurð og lega vatnsins dregið til sín baðgesti og ferðamenn hvaðanæva að úr heiminum. Þar verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli í miðbæ Stresa sem býður upp á glæsilega aðstöðu m.a. inni- og útisundlaug og mjög fallegan garði með sólbekkjum, stólum og borðum. Einnig er heilsulind með saunu og tyrknesku baði. Kvöldverður á hótelinu.

15. september | Centovall lest frá Domodossola til Locarno

Í dag er fyrirhuguð ógleymanleg ferð sem hefst með akstri til Domodossola í ítölsku Ölpunum. Þaðan tökum við lestina Centovalli eða Hundrað dala lestina og förum í stórkostlega ferð sem tekur um einn og hálfan klukkutíma. Leiðin er dásamleg og náttúrufegurðin hrífur. Hún liggur um stórbrotin gil og dali og endar í svissneska bænum Locarno sem er við norðurenda Lago Maggiore vatns. Bærinn er heimsþekktur fyrir kvikmyndahátíð sem haldin er ár hvert í ágúst. Þar gefst tími til að fá sér hressingu og fara i stutta skoðunarferð í þessum töfrandi bæ áður en ekið verður til Stresa.

16. september | Sigling Isola Bella & Peskatore

Töfrandi dagur byrjar á ljúfri siglingu yfir til Isola Bella sem er ein Borromeo-eyjanna. Fegurð hennar er ólýsanleg en hún ber nafn Isabellu eiginkonu Carlo III. Borromeo ættin byggði á eyjunni höll sem þekkt er fyrir að hafa verið gististaður Napóleons og eiginkonu hans, Jósefínu. Það er mjög skemmtilegt að skoða höllina, svo ekki sé talað um garðinn umhverfis hana, stórglæsilegur lystigarður á nokkrum hæðum. Eftir það verður siglt til eyjarinnar Peskatore sem tilheyrir Borromeo eyjunum en búseta hefur verið stöðug þar frá 14. öld. Mannlífið á eyjunni heillar þar sem tilvera eyjarskeggja byggist á fiskveiðum í Lago Maggiore vatni. Þar er upplagt að fá sér hádegishressingu.

Opna allt

17. september | Rólegheit og slökun í bænum Stresa

Það er kærkomið að slaka á einn dag eftir spennandi ferðir liðinna daga. Nú er upplagt að nota glæsilega aðstöðu hótelsins, rölta um og kanna bæinn betur eða fara í skemmtilegan göngutúr meðfram vatninu þar sem fjallafegurðin er dásamleg.

18. september | Fjallabærinn Zermatt & Matterhorn

Komið er að því að kveðja Stresa eftir yndislega daga og nú verður stefnan tekin á svissnesku Alpafjöllin til Sion yfir Simplon skarðið. Ævintýrin gerast enn, en á leiðini þangað verður komið til Täsch og þaðan verður farið í stutta lestarferð til Zermatt bæjar. Leið lestarinnar liggur á milli þriggja hæstu fjalla Evrópu, Dom, Matterhorn og Monte Rosa. Útsýnið úr bænum yfir á Matterhorn fjallið er hreint stórfenglegt. Í Zermatt er engin bílaumferð og gömlum húsum hefur þar verið haldið mjög vel við en fjósin hafa vikið fyrir Rolex- og Gucciverslunum og við komum til með að eiga góðan tíma í þessum yndislega bæ. Síðan verður ekið til Sion þar sem gist verður í þrjár nætur á góðu hóteli í útjaðri borgar.

19. september | Töfrandi dagur í Sion & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð verður ekið til miðaldabæjarins Sion sem er í suðvesturhluta Sviss í kantónunni Wallis, eins sólríkasta svæðisins í Sviss. Bærinn hrífur alla, ekki síst staðsetning hans því hann byggðist upp á milli tveggja kletta. Á öðrum eru rústir Tourbillon kastalans en á hinum trónir Valere, gömul pílagrímakirkja sem skartar einu elsta orgeli heims. Það er ekki bara staðsetning bæjarins sem hrífur heldur einnig miðaldabærinn með sínum litlu, þröngu götum, glæstum byggingum og litskrúðugu mannlífi. Eftir stutta skoðunarferð verður frjáls tími til að sýna sig og sjá aðra. Upplagt að fá sér dæmigerðan rétt Sion og Wallisbúa, osta raclette fondú. Þegar líða fer á daginn verður ekið til baka á hótelið þar sem hægt er að fara í göngu eða njóta náttúrufegurðar Alpafjallana úr hótelgarðinum.

20. september | Chamonix, Mont Blanc & Sion

Einn hápunktur ferðarinnar er að koman til Chamonix sem stendur við rætur hæsta fjalls Vestur-Evrópu, Mont Blanc. Chamonix er bær fjalladýrkenda og þekktur skíðabær en fyrstu vetrarólympíuleikarnir voru haldnir hér árið 1924. Frá miðbænum gengur útsýniskláfur upp í 3.842 m hæð á Aiguille du Midi en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Mont Blanc, Chamonix og dalinn fyrir neðan. Byrjað verður á því að taka kláfinn upp og njóta útsýnisins yfir Alpafjöllin. Eftir það verður gefinn tími til að rölta um og njóta bæjarins áður en ekið verður á hótel.

21. september | Heimferð frá Genf

Þá er þessi glæsilega ferð á enda runnin. Ekið verður til Genf en brottför þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir