Svartiskógur, Sviss & Alsace

15. – 22. september 2018 (8 dagar)

Heillandi staðir mæta okkur í þessari yndislegu ferð um Svartaskóg, Sviss og Alsace héraðið í Frakklandi. Gist verður í bænum Lörrach sem er gömul verslunarborg og heimaborg Milka súkkulaðisins. Ekki langt frá okkur er lengsta göngubrú í heimi, Þriggjalandabrúin, sem liggur yfir til Frakklands og Sviss. Í ferðinni munum við kynna okkur helstu aðdráttaröfl þessara þriggja landa á þessu dásamlega svæði. Farið verður í skemmtilegar skoðunarferðir að fegurstu stöðum Svartaskógar, að Schluchsee vatni sem er hæsta uppistöðulón Þýskalands og til bæjarins St. Blasien þar sem við skoðum merkilega dómkirkju. Í Strassburg verður farið í siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina. Við förum með kláfi upp á Feldberg, hæsta fjall Svartaskógar og að hinu töfrandi Titisee vatni. Við sjáum kraftmestu fossa meginlands Evrópu, Rínarfossa, sem er mjög tilkomumikil sjón. Við stöldrum við í Zürich við samnefnt vatn, höldum um blómlega vínheraðið Alsace, en þar eru lítríkir bæir eins og Colmar og Riquewihr. Freiburg, verður einnig sótt heim og við ferðumst um hinn svonefnda Gauksklukkuveg.

Verð á mann í tvíbýli 199.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 58.800 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun og kvöldverður á hótelinu.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar og ferjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kláfur upp á Feldberg fjall ca. € 10.
 • Sigling á ánni Ill ca. € 13.
 • Vínsmökkun ca. € 15.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

15. september | Flug til Zürich & Lörrach

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich að staðartíma kl. 13:00 og þaðan verður ekið til Lörrach sem er rúmlega 49.000 manna borg og er ein af  gömlu verslunarborgunum við suður hluta Svartaskógar, ekki langt frá landamærum Sviss og Frakklands. Wiese áin rennur í gegnum borgina og hátt gnæfa rústir Rötteln kastala frá 1259. Hér verður gist í 7 nætur.

16. september | Schluchsee, St. Blasien, Feldberg & Titisee

Við hefjumst handa við að kynna okkur alla dýrð nágrennisins. Schluchsee vatnið myndaðist undir jökli en var gert að uppistöðulóni fyrir um 80 árum og er í dag vinsælt útivistarsvæði. Bærinn St. Blasien heitir eftir stofnanda klaustursins þar á 18. öld, en þetta er sérlega líflegur og skemmtilegur bær. Dómkirkja St. Blasien ber þriðja stærsta kúpul í Evrópu og er fræg fyrir stórkostlegan hljómburð. Feldberg er hæsta fjall Svartaskógar, en þar gefst okkur kostur á að fara upp á toppinn í kláfi og virða fyrir okkur hrífandi útsýni yfir hæðir Svartaskógar, allt til Alpanna. Við komum að huggulega þorpinu Titisee sem stendur við samnefnt vatn. Þetta er vinsæll áfangastaður, enda einn af draumastöðum Svartaskógar.

17. september | Strassburg

Strassburg er einstaklega áhugaverð borg með heillandi gömlum húsum og merkilegum vatnavegum. Þessi höfuðstaður Alsace héraðsins stendur í Frakklandi rétt við landamæri Þýskalands. Áhugasamir geta farið í skemmtilega siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina, en þar sést glöggt hvernig gljáandi ný háhýsi eins og Evrópubyggingin kallast á við eldri hluta borgarinnar með sögulegu bindingsverkshúsunum. Eftir bátsferðina gefst frjáls tími til að næra sig og kynna sér borgina betur. Upplagt er að rölta um hverfið Petite France eða Litla Frakkland skoða sögufrægu dómkirkjuna, en inni í kirkjunni er mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Þá má auðvitað líta inn til kaupmanna.

Opna allt

18. september | Frjáls dagur Í Lörrach

Frjáls dagur til að njóta þess að vera í þessari hlýlegu borg. Eftir góðan morgunverð er upplagt að kanna miðbæinn með farastjóra ykkar. Í dag er stór matvælamarkaður í bænum til kl. 13:00 en þá iðar borgin af mannlífi. Einnig eru skemmtileg kaffi- og veitingahús þar sem upplagt væri að fá sér hressingu og svo má líta inn til kaupmanna borgarinnar. Í bænum kennir einnig margra grasa í menningarmálum sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

19. september | Rheinfall & Zürich

Þennan dag verður haldið að Rínarfossunum sem eru afar mikið sjónarspil, þeir eru kraftmestu fossar í mið-Evrópu og falla um 23 metra milli stórskorinna klettadranga. Þegar við höfum virt þessa 15 þúsund ára náttúruperlu nægilega fyrir okkur, höldum við til heimsborgarinnar Zürich, sem er stærsta borg Sviss og stendur við samnefnt vatn. Þessi glæsilega borg er mistöð bankamála og annara viðskipta og státar af mjög fallegum miðbæ. Farið verður í stutta skoðunarferð en síðan er frjáls tími.

20. september | Vínslóðin í Alsace, Colmar & Riquewihr

Hin töfrandi Vínslóð liggur í gegnum Alsace héraðið um fjölmörg hugguleg þorp, en fyrsti viðkomustaður okkar er bærinn Colmar þar sem við lítum haganlega smíðuð bindingsverkshús sem eru sannkallað augnayndi. Við upplifum einstakan ævintýrablæ bæjarins Riquewihr, sem er með vinsælli ferðamannabæjum svæðisins. Bærinn er staðsettur í hjarta Alsacehéraðsins og býr yfir einstökum arkitektúr í nánast óbreyttri mynd síðan á 16. öld. Á svæðinu fer fram háklassa vínrækt svo afurðin drýpur af hverju strái. Því er upplagt að enda góðan dag á heimsókn í vel valinn vínkjallara og bragða á framúrskarandi afurð svæðisins.

21. september | Freiburg & Klukkuvegurinn í Svartaskógi

Freiburg hefur verið háskólaborg frá fornu fari. Þessi fjölþjóðlega borg á sér því langa sögu. Sögulegar miðaldabygginar setja svip sinn á hana og margt er að skoða og dást að. Á bakaleiðinni verður ekinn hluti af Klukkuveginum svokallaða, en þar eru framleiddar heimsfrægar gauksklukkur og munum við heimsækja eina smiðjuna til að sjá hvernig klukkurnar eru búnar til og heyra frásagnir af uppruna þeirra. Að því loknu er upplagt að fara á Schwarzwald Café og bragða á hinni frægu Schwartzwälder tertu.

22. september | Heimferð frá Zürich

Nú verður haldið heim með fullt af frábærum minningum í farteskinu. Ekið verður til Zürich að morgunverði loknum. Brottför þaðan kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ester Helgadóttir

Ester Helgadóttir er fædd árið 1961 og er alin upp í kringum flugið. Hún sótti háskólanám til Frakklands í Strasbourg.  Þar nam hún frönsku og franskar bókmenntir og stundaði síðan nám í Landfræði (Géographie Physique), sem hún lauk með Meistaragráðu. Hún bjó 17 ár í Strasbourg og starfaði við ýmis störf, m.a. við íslenskukennsku fyrir byrjendur í Háskólanum í Strasbourg og þýðingar fyrir Arte sjónvarpsstöðina.  Síðustu árin hennar í Strasbourg starfaði hún hjá Fastanefnd Íslands við Evrópuráðið.  Árið 2000  færði hún sig aðeins norðar og settist að í Luxembourg og þar býr hún enn. Í Luxembourg starfaði hún hjá Cargolux Airlines International, í flugrekstrardeildinni í um 16 ár.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir