Sardinía & Korsíka

Glæsileg eyjaferð til Korsíku og Sardiníu þar sem við ferðumst um stórbrotna náttúru og mikla gróðursæld milli krúttlegra þorpa. Gullinn sandur, sægrænt haf og ilmur frá Macchia gróðri rammar inn ótrúlega upplifun.

Við siglum frá Ítalíu yfir á frönsku eyjuna Korsíku, ökum yfir eyjuna um Spelunca gilið, milli háu, rauðu fjallanna, komum í fjallabæinn Evisa og strandbæinn Porto sem stendur við samnefndan flóa. Það er ævintýralegt að aka um rauðu Calanche granítklettana en fegurðin þar er óviðjafnanleg. Við upplifum höfuðborgina Ajaccio en íbúar hennar fullyrða að hún standi við fallegasta flóa veraldar. Gistum í Porticcio og upplifum einstaka fegurð í Sarténe og granítbænum Zonza. Col de Bavelli fјöll láta engan ósnortinn sem og virkisbærinn Bonifacio. Ítalska eyjan Sardinía er heimsótt og í Sassari héraðinu verða bæirnir Tempion og Castelsardon skoðaðir. Blær miðalda umvefur okkur í spænsku borginni Alghero, við siglum að Neptun helli, heimsækjum miðaldabæinn Bosa og skoðum konunglegar minjar frá bronsöld í Santa Antine. Einnig verður boðið upp á dæmigerða máltíð að hætti hjarðmanna með söng og dansi. Við endum þessa glæsilegu ferð við stórkostlegu Costa Smeralda ströndina. Hún státar af einstaklega fögrum bæjum og verða Porto Cervo og fjallaþorpið San Pantaleo heimsótt áður en siglt verður yfir til Genúa. 

Verð á mann í tvíbýli 298.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 59.900 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun og kvöldverður á hótelum.
 • Næturferja frá Savona til Bastía ásamt kvöld og morgunverði.
 • Næturferja frá Olbia til Genúa ásamt kvöld og morgunverði.
 • Dæmigerð máltíð hjá hjarðmönnum ásamt skemmtun.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk farastjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Stuttar siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Bátsferð og Neptun hellir ca € 30.
 • Nuragehe, fornminjar frá Bronsöld ca € 6.
 • Smálest upp til Bonifacio ca € 5.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

6. október | Flug til Zürich & Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich í Sviss kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið suður til Mílanó og gist í nágrenni borgarinnar í eina nótt.

7. október | Savona & næturferja til Bastía á Korsíku

Byrjum góðan dag á morgunverði og í rólegheitum kveðjum við staðinn. Nú verður stefnan tekin á Savona þar sem farið er um borð í skip um kvöldið sem siglir til Bastía á Korsíku. Þar sem siglingin tekur um tíu tíma er gist á skipinu í tveggja manna klefum. Kvöldverður bíður okkar á skipinu. Siglingin er einstaklega skemmtileg og aðbúnaður allur til fyrirmyndar.

8. október | Bastía, Evisa, Porto, Les Calanche & Ajaccio

Morgunverður verður snæddur á veitingastað í skipinu áður en komið er til Bastía um kl. 7:00. Bastía var höfuðborg eyjunnar til ársins 1811. Borgin er afar falleg og hefur að geyma margar glæsilegar byggingar. Á Saint Nicolas torginu slær hjarta íbúanna en þar hittast þeir til að sýna sig og sjá aðra. En nú verður haldið til fjalla og ekið í gegnum gilið Scala Santa Regina í átt að fjallabænum Evisa. Þaðan heldur ferð síðan áfram um Spelunca gilið sem liggur milli 2000 m hárra rauðra fjallanna. Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur ekki síður í strandbænum Porto við Portoflóann. Þar gefum við okkur góðan tíma til að njóta litla bæjarins og fá okkur hádegishressingu áður en ekið verður um rauðu granítklettana, Les Calanches. Strandhéraðið stendur í rúmlega 350 m hæð yfir sjó og hafa sól, rigning og vindar mótað fegurð landsins, þarna er stórbrotin náttúrufegurð. Þaðan verður síðan ekið hjá Cargése og höfuðborginni Ajaccio til bæjarins Porticcio þar sem við gistum í tvær nætur.

Opna allt

9. október | Skemmtilegur dagur í Ajaccio & frjáls tími

Í dag munum við eiga skemmtilegan dag í höfuðborginni Ajaccio, fæðingarborg Napóleons Bónaparte. Borgin er mjög hrífandi og fagur Ajaccio flóinn laðar ferðamenn að sér, enda fullyrða íbúarnir að þeir eigi fallegasta flóa í heimi. Eftir skemmtilega göngu um borgina verður gefinn frjáls tími til að kanna mannlífið á eigin vegum, líta inn á kaupmenn og fá sér svo hressingu á einhverju hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa borgarinnar. Á Place Foch torginu er líka mjög skemmtilegur markaður.

10. október | Sarténe, Zonza, Col de Bavella & Porto Vecchio

Nú verður stefnan tekin á kletta- og virkisbæinn Sarténe. Hann hefur varðveist afskaplega vel og haldið sínum miðaldablæ sem við gefum okkur tíma til að kynnast. Ferðin heldur svo áfram til granítbæjarins Zonza, sem er lítill og skemmtilegur bær með hlöðnum graníthúsum og fögru útsýni yfir á Bavella fjöllin. Hér verður áð til að njóta. Því næst verður ekið yfir rauðleitu granítfjöllin Col de Bavella, stundum kölluð Dólómítar Korsíku og verður stoppað í 1218 m hæð. Þaðan er fagurt útsýni til allra átta en við endum í Porto Vecchio þar sem gist er eina nótt.

11. október | Bonifacio, Castelsardo & Alghero á Sardiníu

Þetta verður töfrandi og skemmtilegur dagur. Við kveðjum Porto Vecchio og ökum stutta leið til Bonifacio, einnar perlu eyjunnar sem trónir upp á 80 metra háum kalksteinskletti. Þetta er heillandi miðaldabær með mjóum götum, virkisveggjum og gömlum turnhúsum. Byrjum á að fara í skemmtilega skoðunarferð um bæinn og njótum þess að vera á þessum fagra stað. Útsýnið er ólýsanlega fallegt frá borginni á klettótta kalkströndina og þaðan yfir til Sardiníu. Eftir yndislegan tíma verður ferja tekin yfir til Santa Teresa á Sardiníu. Þaðan er stefnan sett á Alghero en á leiðinni þangað verður stoppað í bænum Castelsardo í héraðinu Sassari. Bærinn var reistur árið 1102 af Doria fjölskyldunni frá Genúa. Við stöldrum við góða stund í þessum yndislega bæ og göngum um þröngar, litlar göturnar í elsta hluta bæjarins. Á leiðinni þangað verður stoppað við fílaklettinn sem er um 5 metra hár og hefur myndast við veðrun. Hann er eitt af táknum eyjarinnar. Dagurinn endar í spænsku borginni Alghero þar sem gist verður fjórar nætur á góðu hóteli í miðbænum.

12. október | Skoðunarferð í Alghero & frjáls tími

Í dag skoðum við yndislega virkisbæinn Alghero. Hann er norðvestan megin á Sardiníu í Sassari héraði og er vafalaust einn sá fallegasti á eyjunni. Katalónar gáfu bænum þetta nafn og er katalóníska opinbert tungumál eyjaskeggja því borgin tilheyrði um tíma konungsríki Aragons frá Spáni. Við höldum í skemmtilega skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna umhverfið á eigin vegum.

13. október | Útsýnisferð, Bosa & Santa Antine

Að loknum morgunverði munum við aka fallega leið eftir hrjóstrugri vesturströndinni. Blær miðalda umvefur okkur á þessari leið, einkum í bænum Bosar sem er óvenju litríkur og skemmtilegur. Þar förum við í skoðunarferð og að sjálfsögðu gefst tími til að kanna líf bæjarbúa. Skemmtileg uppákoma verður í hádeginu því okkur verður boðið í dæmigerðan hádegisverð að hætti Sardiníubúa hjá hjarðmönnum inn í miðjum eikarskógi með þjóðdansi, söng og gítarundirleik. Eftir yndislega stund og hjarðmannakveðjur verður ekið til Santa Antine, þar sem finna má einhverjar merkustu fornminjar Sardiníu, konunglegar minjar frá bronsöld sem sýna Nuragehe menninguna sem þróaðist hér á 14. - 8. öld f. Kr.

14. október | Dagur í Alghero & sigling í Neptun helli

Þennan dag er tilvalið að taka það rólega og slaka á en áhugasamir geta að sjálfsögðu skoðað þessa fallegu miðaldaborg á eigin vegum. Hótelið okkar stendur við litlu bátahöfnina en þaðan er tíu mínútna ganga að ströndinni og fimm mínútur tekur að rölta inn í miðbæinn. Eftir hádegi stendur til boða að fara í skemmtilega siglingu að Neptun helli.

15. október | Tempio, Costa Smeralda, Olbia & næturferja til Genúa

Komið er að því að kveðja Alghero eftir yndislega daga. Nú verður ekið inn í hjarta græna Gallura svæðisins þar sem áð verður í snotru borginni Tempio. Umhverfis hana eru fögur skógarsvæði, miklar vínekrur og granítnámur og kennir borgin sig gjarnan við granítvinnslu. Eftir góðan tíma þar verður ekið með hinni heimsþekktu Costa Smeralda strönd þar sem gullinn sandur fellur saman við sægrænt hafið og ilm leggur frá Macchia gróðri. Á leið okkar verður stoppað í Porto Cervo og þar skoðum við hina undurfögru litlu kirkju Stella Maris og röltum aðeins um þennan fallega bæ. Að heimsókninni lokinni ökum við áfram til fjallabæjarins San Pantaleo, fallegs listamannabæjar með rómverskum minjum, kirkju og miðaldahúsum sem kölluð eru stazzi og voru híbýli hirðingja. Nú er komið að því að kveðja Sardiníu og verður stefnan tekin á Olbía, þar sem skipið bíður okkar með kvöldverð. Siglt verður til Genúa á meginlandi Ítalíu að næturlagi. 

16. október | Sigling til Genúa & Zürich

Morgunverður verður snæddur á skipinu áður en lagt er að bryggju í hafnarborginni Genúa á Ítalíu. Þegar allir hafa komið sér fyrir í rútunni munum við taka stefnuna upp í fjalldýrðina í Ölpunum, til Zürich í Sviss þar sem gist verður í eina nótt í nágrenni við flugvöll.

17. október | Kveðjustund & heimferð frá Zürich

Eftir yndislegt ævintýr og skemmtilega daga verður ekið út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir