2. - 10. september 2023 (9 dagar)
Þessi glæsilega ferð í Suður-Frakklandi er um Provence hérað þar sem landslag, menning og mannlíf leika aðalhlutverk í einstöku samspili. Gamla virkisborgin Avignon, sem var borg páfa á 14. öld, er ein glæsilegasta borg Frakklands og þaðan verður farið í töfrandi ferðir, m.a. til rómversku borgarinnar Arles þar sem Van Gogh heillaðist forðum og málaði margar af sínum frægustu myndum. Klettabærinn Les Baux, sem eitt sinn var miðstöð trúbadora og mótmælenda, er einstaklega heillandi í skjóli Alpilles fjalla. Friðlýst vatnasvæði Camargue er sannarlega áhugavert með sérstökum gróðri og einstöku dýralífi, þar er unaðslegt að ferðast. Við stefnum í átt að Miðjarðarhafi, heimsækjum virkisbæinn Aigues-Morte og njótum okkar við hafið í bænum Saintes Maries de la Mer. Við komum að hinni einkar áhugaverðu Pont du Gard, hæstu vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu og er hún eitt af stórkostlegustu meistaraverkum þeirra tíma. Ferðin endar í Annecy, sem er eins og gimsteinn í kórónu frönsku Alpanna þar sem farin verður ógleymanleg sigling á Annecy vatni.