Perlur Provence

Þessi glæsilega ferð í Suður-Frakklandi er um Provence hérað þar sem landslag, menning og mannlíf leika aðalhlutverk í einstöku samspili. Gamla virkisborgin Avignon, sem var borg páfa á 14. öld, er ein glæsilegasta borg Frakklands og þaðan verður farið í töfrandi ferðir, m.a. til rómversku borgarinnar Arles þar sem Van Gogh heillaðist forðum og málaði margar af sínum frægustu myndum. Klettabærinn Les Baux, sem eitt sinn var miðstöð trúbadora og mótmælenda, er einstaklega heillandi í skjóli Alpilles fjalla. Friðlýst vatnasvæði Camargue er sannarlega áhugavert með sérstökum gróðri og einstöku dýralífi, þar er unaðslegt að ferðast. Við stefnum í átt að Miðjarðarhafi, heimsækjum virkisbæinn Aigues-Morte og njótum okkar við hafið í bænum Saintes Maries de la Mer. Við komum að hinni einkar áhugaverðu Pont du Gard, hæstu vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu og er hún eitt af stórkostlegustu meistaraverkum þeirra tíma. Ferðin endar í Annecy, sem er eins og gimsteinn í kórónu frönsku Alpanna þar sem farin verður ógleymanleg sigling á Annecy vatni.

Verð á mann í tvíbýli 349.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 139.700 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
  • Hádegisverðir.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Virkið í Les Baux u.þ.b. € 10.
  • Aðgangur að Pont du Gard u.þ.b. € 10.
  • Sigling á Annecy vatni u.þ.b. € 20.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. september | Flug til Genf & Avignon

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf í Sviss kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekið suður til sögufrægu borgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi, sem er rómuð fyrir fegurð. Þar verður gist í fimm nætur og á hótelinu er útisundlaug, líkamsræktarstöð og heilsulind með saunu og nuddpotti.

3. september | Aigues Mortes & Saintes-Maries-de-la-Mer

Eftir morgunverð höldum við til Camargue, sem er friðlýst vatnasvæði myndað af árframburði Rhône. Þar má sjá flamingóa, svört naut og hvíta arabíska hesta. Á leiðinni verður komið við í bænum Aigues Mortes sem oft er nefndur Þyrnirósarbærinn. Bærinn er umkringdur fallegum borgarmúr og þar var ein af mikilvægustu höfnunum við Miðjarðarhafið. Næst verður ekið til Saintes-Maries-de-la-Mer, pílagrímsbæjar sígauna í Evrópu sem dregur nafn sitt af þremur konum sem allar báru nafnið María og komu frá Palestínu. Þar verður Notre dame de la Mer kirkjan frá 11.-12. öld skoðuð.

4. september | Arles & Les Baux

Ekið verður sem leið liggur suður til bæjarins Arles, einnar perlu Suður-Frakklands. Farið verður í skoðunarferð um þennan sögulega bæ þar sem við skoðum meðal annars magnað rómverskt hringleikahús. Í Arles er Van Gogh safn en listamaðurinn bjó þar um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verk, þ.á m. Gula kaffihúsið. Eftir frjálsan tíma verður ekið til ævintýralega klettabæjarins Les Baux sem var miðstöð trúbadora og mótmælenda til forna. Hrikaleg fegurð umvefur staðinn og útsýnið er einstakt, sérstaklega frá kastalarústunum en þær eru einkar áhugaverðar. Í Les Baux má upplifa einstaka myndlistarsýningu sem varpað er á veggi í gamalli námu.

Opna allt

5. september | Skoðunarferð um Avignon & frjáls tími

Skemmtileg skoðunarferð um þessa fögru aldagömlu virkisborg Avignon. Virðulegir eru virkisveggir borgarinnar, brúin fræga St. Bénezet og gamli bærinn með höll páfans blasa við okkur en allt er þetta varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Mjög gaman er að skoða elsta hluta borgarinnar sem er rétt hjá ráðhústorginu. Þar eru spennandi verslanir og heillandi götur. Einnig er skemmtilegt að fara út á St. Bénezet brúna og ganga virkisveggina.

6. september | Pont du Gard & Avignon

Nú verður ekin stutt leið að Pont du Gard, hæstu vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu. Brúin er hluti af 50 km langri vatnsleiðslu með vatni úr uppsprettu í nágrenni við bæinn Uzés. Hún er 49 m há og þriggja hæða, hún var notuð í ca 500 ár og liggja vatnsleiðslurnar til nágrannaborgarinnar Nîmes. Þetta er eitt af stórkostlegustu meistaraverkunum frá tímum Rómaveldis. Eftir góðan tíma þar verður ekið aftur til Avignon.

7. september | Avignon & Annecy

Komið er að því að kveðja þessa fallegu borg eftir yndislega daga. Leið okkar liggur um gróðursælar sveitir Province héraðs með vínakra, ávaxtarækt, lofnarblóm og sólblómaakra þar til mikilfengleg Alpafjöllin taka við. Annecy er eins og gimsteinn í kórónu fjallanna, alveg sérlega heillandi bær við samnefnt vatn. Hér gistum við í þrjár nætur.

8. september | Skoðunarferð um Annecy & frjáls tími

Við hefjum daginn á gönguferð um bæinn sem liggur inn á milli fjallanna og er einn þeirra elstu í frönsku Ölpunum. Yfir bænum gnæfir aldagömul höll og eru mörg húsanna í borginni frá 16.-18. öld. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að kanna bæinn betur á eigin vegum.

9. september | Sigling á Annecy vatni & Menthon Saint Bernard kastalinn

Nú er upplagt að fara í siglingu á Annecy vatninu, þar sem fjallafegurð Alpanna lætur engan ósnortin. Eftir það verður boðið upp á ferð í kastalann Menthon Saint Bernard og því næst er tilvalið að kanna þessa fallegu borg nánar á eigin vegum og setjast á heillandi veitingahús og fá sér franskan hádegisverð.

10. september | Heimferð frá Genf

Þá er þessi glæsilega ferð á enda runnin. Ekið verður til Genf en brottför þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Fararstjórn

Þórdís Erla Ágústsdóttir

Þórdís Erla Ágústsdóttir hefur starfað sem fararstjóri í fjölmörg ár. Hún starfaði fyrst á Íslandi með franska, spánska, breska og ameríska ferðamenn. Á árunum 1993 til 1995 starfaði hún sem fararstjóri í Túnis með íslenska ferðamenn; 1996 á Spáni, nánar tiltekið í Benidorm fyrir ferðaskriftofuna Samvinnuferðir-Landsýn og 1997 og 1998 í Portúgal fyrir sömu ferðaskrifstofu. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir