9. - 16. júní 2023 (8 dagar)
Það er ævintýri líkast að ferðast um Alpafjöll Ítalíu, Frakklands og Sviss og ekki er síðra að dvelja við annað stærsta vatn Ítalíu, Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Við kynnumst sögu og litskrúðugu menningarlífi þessara landa sem hrífa með sér hvern þann sem þangað kemur. Við hefjum ferðina í ljúfa bænum Stresa sem stendur við vatnið Lago Maggiore. Þaðan siglum við til Isola Bella, hjarta Borromee eyjanna, þar sem við sjáum glæsilega höll og fagran lystigarð en einnig siglum við til eyjarinnar Isola dei Pescatori. Heimsborgin Mílanó ætlar að taka á móti okkur með öllum sínum töfrum og glæstu byggingum. Við förum í skemmtilega siglingu á Comovatni frá Lecco til bæjarins Bellagio sem er sannkölluð perla við vatnið. Þessa glæsilegu ferð toppum við með því að gista í bænum Chamonix sem stendur við rætur hæsta fjalls Vestur-Evrópu, Mont Blanc. Frá miðbæ Chamonix gengur kláfur upp í 3.842 m hæð á Aiguille du Midi og þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Mont Blanc og Alpafjöllin. Á leiðinni þangað ætlum við í smá ævintýraferð frá bænum Täsch og í stutta lestarferð inn í hinn þekkta fjallabæ Zermatt sem liggur við rætur fjallsins Matterhorn.