Maraþon í Tókýó

27. febrúar - 2. mars 2020 (5 dagar)

Tókýó maraþonið er haldið fyrsta sunnudag í mars ár hvert og er eitt allra eftirsóttasta og skemmtilegasta maraþonhlaup í heimi. Árlega sækja ríflega 300 þúsund manns um tæplega 30 þúsund pláss í sérstöku útdráttarlottói og því er gríðarlega erfitt að fá skráningu í hlaupið. Ferðalag til Japans er mikið ævintýri og það er ógleymanleg reynsla fyrir hlaupara að taka þátt í maraþoninu á þessum framandi slóðum í heimsborginni Tókýó. 

Maraþonið í Tókýó er eitt af Abbott World Marathon Majors hlaupunum, sem margir hlauparar safna. WMM hlaupin eru haldin í Tókýó, Boston, London, Berlín, Chicago og New York. Bændaferðir eru umboðsaðilar fyrir Abbott World Marathon Majors á Íslandi.
Tryggðu þér örugga skráningu í eitt eftirsóttasta maraþon heims – án allra tímatakmarkana!

Verð á mann í tvíbýli 343.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 105.000 kr.

Verð á gistipakka fyrir þá sem ætla ekki að hlaupa er 248.400 kr. á mann í tvíbýli.
 

Innifalið

 • Gisting í 4 nætur á Hotel New Otani 27. febrúar – 2. mars 2020.
 • Morgunverður.
 • Rútuferð frá hóteli að rásmarki hlaupsins.
 • Rútuferð frá endamarki hlaupsins á hótelið.
 • Hlaupanúmer í Tókýó maraþonið 2020.
 • Aðgangur að glæsilegri hlaupasýningu (Tókýó maraþon Expo 2020).
 • Tímaflaga, stuttermabolur og gjafapoki.
 • Verðlaunapeningur að hlaupi loknu.
 • Hlaupajakki merktur Tókýó maraþoninu.
 • Aðgangur að stórskemmtilegu After Run Party að kvöldi 1. mars.
 • Undirbúningsfundur með reyndum hlaupara fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Flug.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.
 • Valkvæðar skoðunarferðir.

Myndbönd frá eftirhlaupapartýi

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

27. febrúar | Komudagur

Innritun inn á Hotel Otani.

28. febrúar | Valkvæð skoðunarferð um Tókýó með viðkomu á hlaupasýningu

Fararstjóri Bændaferða, Martin Joyce, hittir maraþonhlaupara Bændaferða ásamt ferðafélögum á Hótel Otani og afhendir m.a. sérmerkta hlaupajakka Tókýó maraþonsins. Jakkarnir eru innifaldir í pakkaferð Bændaferða.

Við mælum með því að þið sækið hlaupagögnin ykkar þennan dag, föstudag fyrir maraþonið.

Unnt er að bóka sig í 3,5 klst skoðunarferð um Tókýó með viðkomu á hlaupasýningunni til að sækja hlaupagögnin. Skoðunarferðin er með enskumælandi heimamanni sem fer með ykkur að helstu kennileitum Tókýóborgar m.a. fallega Meiji Jingu hofinu og upp á útsýnispall Tókýó turnsins þar sem á góðum degi er hægt að sjá Mount Fuji í fjarska og 7. aldar Asakusa búddahofið en þar er jafnframt hið litríka verslunarhverfi Nakamise með allskonar skrýtna hluti til að versla. Aðgöngumiði á útsýnispall Tókýó turnsins er innifalinn í skoðunarferðinni. Ferðin hefst frá hótelinu kl. 10:00 og endar á hlaupasýningunni kl. 13:30. Fararstjóri Bændaferða fylgir hópnum til baka á hótelið frá Expo-inu kl. 16 með neðanjarðarlestinni (lestarmiðinn til baka á hótelið er ekki innifalinn í skoðunarferðinni).

Athugið að takmarkaður fjöldi kemst í þessa ferð og því þarf að bóka í hana hjá Bændaferðum.

29. febrúar | Dagurinn fyrir maraþon

Þennan dag gildir að setja ekki þreytu í fæturnar en það þýðir þó ekki að hlaupari eigi að eyða deginum með fætur upp í loft inni á hótelherbergi. Mörgum finnst gott að taka létt skokk degi fyrir maraþon með smá hraðabreytingum á maraþonhraða til að mýkja fætur og róa taugarnar, nóg til að vöðvaminnið hrökkvi í gang.
Áhugasamir geta farið með hópstjóra ferðarinnar í lauflétt skokk árla morguns eða keypt aðgang í hið stórskemmtilega og litríka 5 km Tokyo Marathon Friendship Run sem er afar vinsæl upphitun fyrir daginn stóra.

Opna allt

1. mars | Tókýó maraþonið

Maraþonið
Tókýó maraþonið var fyrst haldið árið 2007 þegar 2 stærstu almenningshlaup borgarinnar voru sameinuð í eitt og frá árinu 2012 varð hlaupið eitt af Abbott World Marathon Majors. Hlaupaleiðin á að endurspegla fortíðina, nútíðina og framtíðina og er upplifun hlaupara mikil. Stemningin við hlaupaleiðina er ævintýraleg, mikil hefð er fyrir því að hlauparar klæðist allskyns búningum eins og Japönum einum er lagið. Maraþonið hefst fyrir framan glæsilega stjórnarbyggingu borgarinnar og er hlaupið framhjá þekktum kennileitum eins og Tokyo Skytree, Tomioka Hachimangu hofinu, Tokyo Tower og síðan er endamarkið við keisarahöllina, Imperial Palace.
Hlaupaleiðin er tiltölulega flöt og mikið um áhorfendur. Öll umgjörð hlaupsins er til fyrirmyndar og skipulagning eins og best er á kosið. Drykkjarstöðvar eru á 2-3 km fresti, orkudrykkir á 5 km fresti og ávextir o.fl. með óreglulegu millibili. Á heimasíðu maraþonsins er að finna allar upplýsingar um hlaupið sjálft og ýmislegt sem gott er að hafa í huga við undirbúninginn: www.marathon.tokyo/en/
Að loknum snemmbúnum morgunverði er haldið á rásmark frá hóteli með rútum. Fararstjóri Bændaferða veitir frekari upplýsingar um brottfarartíma þegar nær dregur en hlaupið er ræst kl. 9:10. Tímatakmörk eru 7 tímar og þurfa hægir hlauparar að gæta þess að tímatakmörk eru við ákveðna kílómetra.


After Run Party
Tókýó maraþonið er þekkt fyrir stórkostlegt eftirpartý fyrir þátttakendur og samferðafólk – ógleymanleg upplifun. Aðgöngumiði að eftirpartýinu er innifalinn í pakkaferð Bændaferða. Í aðgöngumiðanum felst skutlþjónusta til og frá hóteli í partýið, sem fer fram í hinu sögulega og fallega Happo-En, matur, drykkir, tónlist, japanskar danssýningar og athöfn fyrir alla þá sem voru að bætast í hóp sex stjörnu sigurvegara. Frábær stemning einkennir þetta besta eftirpartý sem haldið er að loknu maraþoni að öllum öðrum ólöstuðum. Allt er fyrsta flokks, matur, drykkir og skemmtiatriði. Fullkominn endir á góðum degi!

2. mars | Skoðunarferð og heimferðardagur

Í dag stendur til boða heilsdags skoðunarferð til Odawara ásamt fararstjóra Bændaferða. Odawara er dæmigerður japanskur bær 100 km fyrir utan Tókýó sem á sér einstaka sögu. Í Odawara er eitt heilagasta Zen Búdda hof Japans frá því um 14. öld. Klaustrið er helgur staður, falið í skógi við Daiyuzan þar sem sedar tré hafa vaxið í 500 ár. Klaustrið er tilkomumikið og óspillt og ekki mikið um ferðamenn.

Að lokinni heimsókn til Odawara er farið í náttúrurlegar heitar heilsulindir, hið fræga japanska onsen, og látum líða úr þreyttum og stífum vöðvum eftir maraþonið. Laugarnar eru ríkar af steinefnum beint frá Hakone fjöllunum og fríska vel á upp þreytta maraþon hlaupara og aðra ferðalanga. Boðið er upp á japanskan hádegismat að lokinni heimsókninni í náttúrulaugarnar.

Að loknum hádegismat er farið til Odawara kastalans. Þeir sem vilja geta klæðst Samurai og Ninja búningum sem ku vera hin besta skemmtun og búa til skemmtilegar mynda minningar um dvöl í Japan.

Ferðast er með háhraðalest (e. bullet train) í skoðunarferðinni sem ferðast á allt að 320 km/klst og er því mikil upplifun fyrir marga.

Skoðunarferðin hefst frá hótelinu kl. 8:30 og lýkur með háhraðalest til Narita eða Haneda flugvallar fyrir kvöldflug heim eða á Tókýó lestarstöðinni fyrir þá sem fara aftur á hótelið.

Athugið að takmarkaður fjöldi kemst í þessa skemmtilega skoðunarferð og þarf að bóka í hana fyrirfram hjá Bændaferðum.

Tókýó

Tókýó er höfuðborg Japans og stærsta borg landsins með tæplega 14 milljón íbúa. Höfuðborgarsvæðið er það fjölmennasta í heimi en ríflega 38 milljónir búa innan þess. Í borginni eru óvenju fáir skýjakljúfar miðað við aðrar stórborgir, sem skýrist af ströngum byggingarreglum vegna jarðskjálfta. Hæsta mannvirki borgarinnar er útvarpsturninn Tokyo Skytree sem er rúmir 600 m á hæð. Lestarkerfi Tókýó er eitt það víðfeðmasta í heimi og er frægt fyrir mikið kraðak á háannatímum. Borgin er einstaklega hreinleg og falleg með fjölmörgum merkisstöðum eins og Keisarahöllinni, Disney garðinum, Regnbogabrúnni yfir Tókýó flóa og Meji hofinu svo fátt eitt sé nefnt.

Hópstjóri

Hópstjóri Bændaferða í Tókýó maraþoninu eru írskur samstarfsaðili okkar, Martin Joyce. Martin er alvanur maraþonhlaupari og hefur mikla reynslu á að fylgja maraþonhlaupurum á rásmark um heim allan. Þetta verður í sjötta sinn sem Martin er fararstjóri í Tókýó maraþoninu. Martin er til reiðu á hótelinu og þegar nær dregur brottför þá fá allir ferðamenn Bændaferða boð um að vera meðlimur í hóp í snjallsímaforritinu WhatsApp sem hann notar til samskipta við hópinn. 

Myndir úr ferðinni

Hótel

Hotel New Otani

Gist verður á 4* Hotel New Otani sem staðsett er í hjarta Tókýóborgar umlukið 400 ára gömlum japönskum garði. Hótelið er aðeins í 10 mínútna göngufjarlægð frá 5 lestarlínum sem ferja þig hvert sem er innan þessarar stærstu borgar Japans. Upphaf maraþonsins er í um 5 km fjarlægð frá hótelinu. Á hótelinu eru ríflega 1400 herbergi hvert og eitt innréttað með nútíma þægindum svo sem flatskjá og míníbar, ísskáp og hárþurrku. Aðstaða til líkamsræktar er fyrsta flokks á hótelinu, en þar er að finna tennisvöll, gufubað, líkamsræktaraðstöðu, innisundlaug, slökunaraðstöðu og heilsulind, þar sem hægt er að panta sér allskyns líkamsmeðferðir og nudd gegn gjaldi. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir