Aðventugleði í Alsace

Hér er í boði hrífandi aðventuferð þar sem fornar hefðir, snotur, lítil þorp og spennandi aðventumarkaðir skapa notalega jólastemningu.

Eftir flug til Zürich í Sviss er ekin falleg leið um Alsace héraðið í Frakklandi til bæjarins Obernai þar sem gist verður í fjórar nætur. Þetta er heillandi bær með sérlega fallegum jólamarkaði. Við förum dagsferð til Strassborgar þar sem við siglum á ánni Ill og sjáum stórkostlegar byggingar. Röltum því næst um borgina, skoðum áhugaverða staði og njótum þess að dvelja á jólamarkaðinum. Heimsækjum nærliggjandi héruð þar sem við kynnumst litlum og sætum þorpum, ökum svonefnda vínslóð í Alsace til bæjarins Riquewihr en hann er sannarlega ein af perlum héraðsins. Colmar er heillandi borg á aðventunni þar sem fara saman merkilegar byggingar, þröngar, dulúðlegar götur og skemmtilegar verslanir. Eftir góða dvöl í Obernai höldum við að Bodensee í Þýskalandi, komum við í Freiburg í Svartaskógi áður en ekið verður til Friedrichshafen. Hér verður enginn svikinn því aðventumarkaðurinn hér á sér fáa líka. Að lokum eigum við góðan dag í bænum Lindau þar sem við skoðum jólamarkað sem oft er sagður sá fallegasti í Þýskalandi.

Verð á mann 214.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 53.700 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling í Strassburg ca € 15
 • Lest inn í Strassburg frá & til á bílastæði ca € 6

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. nóvember | Flug til Zürich & Obenai

Brottför frá Keflavík kl. 07: 20 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 ½ klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 12:05 að staðartíma. Ekin verður falleg leið inn í Alsace héraðið til bæjarins Obernai þar sem gist verður í 4 nætur. Hótelið okkar er í gömlum Herragarði. Þar er að finna, vínkjallari, verönd, fallegan garð og einnig er heilsulind með innisundlaug og sauna. Yndislegur jólabær og þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á herbergjum þá er upplagt að taka rölt á aðventumarkaðin.

30. nóvember | Strassborg & sigling á Ill

Glæsileg er Strassborg á aðventunni og jóladýrðin er engu lík en hún er höfuðborg Alsace héraðsins. Við byrjum á að fara í ljúfa siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina. Það er spennandi að skoða glæsibyggingar hennar af ánni en einnig er siglt að byggingum Evrópuþingsins. Borgin býr yfir miklum sjarma sem við munum kynnast á göngu okkar um fallegar götur hennar.Við skoðum þá bindingsverkshúsin, kíkjum á dásamlegan jólamarkaðinn og skoðum stolt þeirra, Müsterkirkjuna. Þar er varðveitt mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Einnig gefst hverjum og einum tækifæri á að upplifa borgina á eigin vegum og njóta aðventustemningar borgarinnar. Þá er gaman að rölta um listamannahverfið, Petite France eða litla Frakkland.

1. desember | Vínslóðin til Riquewihr & Obernai

Vínslóðin svonefnda í Alsace verður ekin í dag og hún liggur frá Obernai en þaðan þræðum við ótal snotur smáþorp og gerum gott stoppa í Riquewihr. Hér upplifum við einstakt jólaævintýri, en bærinn er vissulega ein af perlum Alsace héraðsins. Hér er þekkt jólabúð sem vert er heimsækja. Í öðru hverju húsi bæjarins má finna vínkjallara með afurðum af svæðinu og allstaðar hægt að líta inn og smakka á framleiðslunni. Eftir það verður ekið aftur til Obernai og nú hafi þið tíma til að njóta dýrðar bæjarins, sérlega jólalegur með haganlega gerðum bindingsverkshúsum og töfrandi aðventumarkaði.

Opna allt

2. desember | Ljúfur dagur í Colmar & frjáls tími

Colmar er dásamleg borg á aðventunni og ótrúlega margt að sjá. Hér fara saman listileg bindingsverkshús og þröngar, dulúðlegar götur. Listamannahverfið, litlu Feneyjar, er eitt fallegasta hverfið og við upplifum okkur eins og við séum komin inn í ævintýri. Hér verður farið í fróðlega skoðunarferð um borgina en eftir það verður dagurinn í ykkar höndum. Nú er að njóta aðventutöfra bæjarins, líta inn í skemmtilegar litlar verslanir og setjast inn á notaleg kaffi- eða veitingahús í gamla bænum.

3. desember | Obernai, Freiburg & Friedrichshafen

Nú kveðjum við Obernai eftir yndislega daga og nú verður stefnan tekin á Bodensee vatnið í Þýskalandi en á leiðinni þangað verður stoppað í Freiburg en þar komum við inn í suðurhluta Svartaskógar. Freiburg er borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Við skoðum okkur um á skemmtilegum jólamarkaði sem stendur við gotnesku kirkjuna. Þar má finna afar fallegt handverk. Kirkjan er eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingalistar og auðvitað lítum við þar inn. Hér verður gefinn frjáls tími til að upplifa þessa líflegu borg. Hún er alltaf heimsóknar virði, sér í lagi á aðventunni. Tækifæri gefst til að líta inn til kaupmanna borgarinnar og njóta sín á einhverjum hinna fimm aðventumarkaða sem eru dreifðir um borgina. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Friedrichshafen við Bodensee vatnið, þar sem gist verður í 3 nætur á góðu hóteli við vatnið.

4. desember | Hrífandi aðventa í Friedrichshafen

Hrífandi er aðventan í Friedrichshafen og unaðslegt er að rölta um og njóta sín á fagra stað við Bodensee vatnið. Aðventumarkaður borgarinar með 65 jólahúsum er stutt frá hótelinu við vatnsbakkann og þar er einnig stórt skautasvæði. Svo er hægt að fara í rómantíska aðventusiglingu á vatninu, skreppa á kaffihús og skella í sig hnallþórusneið í leiðinni. Margir notalegir veitingastaðir eru við vatnið. Verslunarhverfi borgarinnar er sömuleiðis stutt frá hótelinu.

5. desember | Hafnarjól í Lindau

Einstök staðsetning bæjarins Lindau, sem stendur á móti snæviþöktum fjöllunum, gerir jólamarkaðinn í „Lindau höfninni“ að einum fallegasta jólamarkaði landsins. Lindau er einn stærsti bærinn við vatnið og jafnframt sá sem heillar hvað mest. Gamli hluti bæjarins er úti á eyju, sem tengd er landi með brú. Upprunalega var þarna lítið fiskiþorp sem fyrst er getið í heimildum á 9. öld. Við gefum okkur góðan tíma til að njóta einstaklega fallegs miðaldabæjar með fjölmörgum byggingum í gotneskum-, endurreisnar- og barokkstíl. Hér gefum við okkur líka góðan tíma til að njóta aðventustemningar í þessum fallega bæ og fá okkur hressingu og örlítið af jólaglöggi. 

6. desember | Heimflug frá Zürich

Nú kveðjum við Friedrichshafen við Bodensee eftir ljúfa daga . Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll í Zürick og flogið heim kl. 13:05. Lending í Keflavík er kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00