Sigling frá Moskvu til Astrakhan

Hér gefst einstakt tækifæri til að skoða það helsta sem hið mikilfenglega Rússland hefur upp á að bjóða.

Í upphafi ferðar munum við kynnast Moskvu og fræðast m.a. um Kreml og Rauða torgið ásamt fjölda sögufrægra staða í þessari stærstu borg Evrópu. Þegar 4* skipið okkar, MS Konstantin Korotkov, leysir landfestar leggjum við upp í einkar áhugaverða siglingu, fyrst á Moskvufljóti en síðar á hinu magnaða fljóti Volgu, sem er það lengsta í Evrópu. Á meðan siglingu stendur njótum við dvalarinnar en á skipinu er m.a. að finna veitingastað, danssal, tvo bari og minjagripaverslun. Á hverjum morgni bíða okkar nýjar og áhugaverðar slóðir til að kanna og fræðast um margt merkilega sögu Rússlands og íbúa landsins. Á leið okkar til Astrakhan munum við heimsækja nokkrar af gullborgum Rússlands s.s. Uglich, Yaroslavl og Kostroma, en einnig munum við staldra við í bæjunum Nizhny Novgorod, Cheboksary, Kazan, Samara, Saratov og Volgograd. Hvarvetna má glöggt greina austurlensk áhrif en borgin Astrakhan er sögð hafa verið hlið Rússlands til Austurlanda hér áður fyrr, en hún stendur á óshólmum Volgu við Kaspíahaf. Sigling eftir þessu volduga fljóti mitt í hjarta Rússlands er ógleymanleg upplifun og eitthvað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Verð á mann 577.700 kr. í tveggja manna káetu með aðskildum rúmum á miðju þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli.

Verð á mann 577.700 kr. í tveggja manna káetu með aðskildum rúmum á báta þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli.

Verð á mann 614.400 kr. í tveggja manna deluxe káetu á aðal þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli.

Verð á mann 648.800 kr. í tveggja manna deluxe káetu á miðju þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli.

Verð á mann 699.900 kr. í tveggja manna svítu káetu á miðju þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli.


Innifalið

  • Allt flug og flugvallarskattar samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Sigling með fljótaskipinu MS Konstantin Korotkov frá Moskvu til Astrakhan.
  • Gisting í tveggja manna káetum með baði.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á meðan á siglingu stendur.
  • Staðarleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Vegabréfsáritun til Rússlands.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. september | Flug til Moskvu

Flug með Icelandair frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í London kl. 11:45 að staðartíma. Flogið verður áfram til Moskvu kl. 13:25 og lending í höfuðborg Rússlands áætluð kl. 19:10 að staðartíma. Pétur Óli Pétursson, fararstjóri ferðarinnar, tekur á móti hópnum á flugvellinum í Moskvu og haldið verður beint í fljótaskipið sem verður gististaður okkar næstu 13 nætur.

25. september | Skoðunarferð um Moskvu

Að morgunverði loknum höldum við í skoðunarferð um Moskvu, höfuðborg Rússlands og jafnframt þeirri fjölmennustu, en hér búa tæplega 12 milljónir manna. Moskva er miðstöð samgangna í lofti, á landi og á vatnaleiðum en borgin er einnig miðstöð stjórnmála og menningar. Áhugaverður arkitektúr fangar athygli okkar því á leið um borgina sjáum við m.a. St. Basil dómkirkjuna, Rauða torgið og Kreml. Þegar kvölda tekur geta áhugasamir haldið í frekari skoðunarferðir, gegn aukagjaldi, sem skipulagðar eru af skipafyrirækinu, s.s. Moskva að nóttu, skoðunarferð um hinar frægu neðanjarðarlestir Moskvuborgar eða séð þjóðdansasýningu, svo eitthvað sé nefnt. Stórkostleg upplifun hvar sem komið er í dag.

26. september | Siglt af stað til Astrakhan

Nú kveðjum við hina fögru Moskvuborg og hefjum ferð okkar áleiðis til Astrakhan. Fyrst um sinn siglum við á Moskvufljóti en síðar á skipaskurði sem tengir Moskvufljót við hið mikla fljót Volgu. Lokið var við gerð þessa mikla skipaskurðar árið 1937 og tengdist þá höfuðborgin vatnaveginum milli Pétursborgar við Eystrasaltið og Astrakhan, hinnar fornu höfuðborgar Tatara við Kaspíahaf.

Opna allt

27. september | Uglich

Í dag komum við til bæjarins Uglich en hér áttu sér stað merkisatburðir í sögu Rússlands á 16. öld. Bærinn tilheyrir gullhringnum svokallaða en hann samanstendur af nokkrum borgum norðaustur af Moskvu sem allar varðveita minningar um merkustu og mikilvægustu atburði í sögu landsins. Við kynnumst sögunni af yngsta syni Ivans grimma, Dimitry prins, en sá var myrtur af óvinum keisarans í þessum bæ. Við fræðumst um þessa áhugaverðu sögu sem enn í dag er gert hátt undir höfði og heimsækjum merka staði, skoðum virki bæjarins og hlustum á fallegan kirkjusöng.

28. september | Yaroslavl & Kostroma

Við leggjumst að bryggju í bænum Yaroslavl, elstu borginni við bakka Volgu. Borgin er talin hafa verið stofnuð árið 1010 af prins Yaroslavl og þaðan dregur hún nafn sitt. Yaroslavl er oft sögð vera höfuðborg gullborganna og er elsti hluti hennar varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Borgina prýðir ótrúlegur fjöldi fallegra bygginga frá 17. öld. Eftir dvölina í Yaroslavl höldum við til Kostroma. Borgin var stofnuð árið 1152 og er ásamt Yaroslavl og Uglich, ein af þessum fallegu, fornu gullborgum Rússlands. Við munum kynna okkur líf borgarbúa og skoða þar þrenningarkirkjuna, safn fornra timburhúsa, klaustur og fleira áhugavert.

29. september | Nizhny Novgorod

Í dag munum við skoða og fræðast um Nizhny Novgorod (Neðri-Nýjagarð) sem er fjórða fjölmennasta borg Rússlands. Borgin er sú stærsta við bakka Volgu og hefur í gegnum aldirnar gegnt mikilvægu hlutverki viðskipta og fjármála. Borgin var stofnuð árið 1221 og hana prýða ríflega 600 sögufrægir staðir, sem flestir eru þó frá seinni tímabilum hennar. Aðalaðdráttarafl borgarinnar er Kremlin, risavaxið borgarvirki úr rauðum múrsteini byggt á árunum 1508 – 1511, en það mun vera eitt best varðveitta virki Rússlands. Rithöfundurinn Maxim Gorki fæddist hér og á sovéttímanum var borgin nefnd eftir honum. Eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Andrey Sakharov var hér í útlegð á 9. áratug síðustu aldar.

30. september | Cheboksary

Í dag heimsækjum við borgina Cheboksary. Borgin er á miðja vegu milli Nizhny Novgorod og Kazan og er héraðshöfuðborg Chuvas lýðveldisins sem er eitt minnsta sjálfstjórnarhérað Rússlands. Á þessum slóðum erum við komin ansi djúpt inn í Rússland og hér gætir verulegra austrænna áhrifa.

1. október | Kazan

Á þessari leið okkar niður Volgu verður Kazan, höfuðborg Tatarstan, á vegi okkar. Borgin var stofnuð á 13. öld af Mongólum en í dag býr um ein milljón manns í borginni, um helmingur Rússar og hinn helmingurinn Tatarar, eitt þjóðarbrotið sem byggir rússneska sambandslýðveldið. Hér er margt áhugavert að líta, við skoðum borgarvirkið sem Ivan hinn grimmi lét byggja en í dag er það varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Deginum verður varið í að skoða það helsta sem þessi fallega borg hefur upp á að bjóða.

2. október | Samara

Saga þessarar 1,5 milljón manna borgar hófst á 16. öld en borgin var upphaflega stofnuð til að verja rússnesk lönd fyrir ágangi stríðandi fylkinga. Hér hóf Stephan Razin uppreisn gegn keisaranum á síðari hluta 17. aldar. Í dag er Samara mikilvæg á sviði iðnaðar, stjórnmála og efnahags, enda héraðshöfuðborg Volgu sambandssvæðissins. Hér er menningar- og listalíf blómlegt og mun dagurinn vera helgaður þessari áhugaverðu borg og að endingu munum við líta inn á listasafn.

3. október | Saratov

Í dag heimsækjum við borgina Saratov en hún var stofnuð árið 1590 af Ivani grimma. Borgin er fræg fyrir margra hluta sakir en meðal annars vegna þess að hér eru æskustöðvar fyrsta geimfara sögunnar, Yuri Gagarin. Saratov er héraðshöfuðborg Saratov héraðsins og er ein af aðalhöfnunum við Volgu. Íbúafjöldinn er um 900 þúsund en auk Rússa býr hér fjöldi þjóðarbrota s.s. Tatarar, Úkraínumenn, Gyðingar og Þjóðverjar.

4. október | Volgograd

Upphaflega bar borgin nafnið Tsaritsyn, síðar Stalingrad og loks Volgograd. Borgarstæði þessarar sögufrægu borgar er einstakt en hún nær yfir 80 km langa strandlengju frá norðri til suðurs á vesturbakka Volgu og tengir saman Evrópu og Asíu. Volgograd er ein af hetjuborgum Rússlands eftir hina gríðarlegu orrustu um Stalingrad veturinn 1942 í heimsstyrjöldinni síðari. Við verjum deginum á þessum áhugaverðu slóðum, skoðum borgina og förum að minnismerkinu mikla, heimsækjum söfn og njótum.

5. október | Afslöppun um borð

Í dag munum við njóta þess að sigla á Volgu og vera um borð í skipinu. Hér er upplagt að nota tímann til slökunar eftir áhugaverða og eftirminnilega daga sem á undan eru gengnir. Áhöfn skipsins mun bjóða upp á skemmtiatriði.

6. október | Astrakhan

Nú köstum við akkerum í borginni Astrakhan að lokinni 3.500 km siglingu. Borgin er staðsett á óshólmum Volgu þar sem hún rennur í Kaspíahaf. Astrakhan og virki hennar hafa gegnt veigamiklu hlutverki í gegnum aldirnar við að stjórna umferð um Volgu vatnaveginn að sunnan, líkt og virki Péturs og Páls í Pétursborg hefur stjórnað umferðinni um vatnaveginn að norðan. Á 17. öld varð borgin hlið Rússlands til Austurlanda og margir kaupmenn frá Armeníu, Persíu, Indlandi og víðar settust þar að.

7. október | Frjáls dagur í Astrakhan

Eftir morgunmat um borð í MS Konstantin Korotkov yfirgefum við skipið og höldum á Hotel Viktor í Astrakhan. Hótelið er ljómandi gott og vel staðsett í miðbæ borgarinnar. Í dag gefst frjáls tími til að skoða nánar þessa áhugaverðu borg, fara í verslanir og njóta alls þess sem þessi framandi borg hefur upp á að bjóða.

8. október | Heimferð

Það er komið að heimferð eftir þessa dásamlegu og fróðlegu ferð. Dagurinn verður tekinn snemma því fyrir höndum er flug heim í gegnum Moskvu og Stokkhólm. Við kveðjum Astrakhan og hefjum heimferðina á flugi til Moskvu og er brottför frá Astrakhan
kl. 7:20 og lending í Moskvu kl. 8:40. Þaðan fljúgum við kl. 10:25 og lendum í Stokkhólmi kl. 11:45. Að endingu fljúgum við heim með Icelandair kl. 13:55 og er áætluð lending í Keflavík kl. 15:10 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pétur Óli Pétursson

Pétur Óli Pétursson er sérfróður um Pétursborg og Rússland. Hann hefur búið í mörg ár í borginni og er einn fárra Íslendinga á þessum slóðum, en þar á hann og rekur fyrirtæki. Hann hóf fyrir mörgum árum, eiginlega fyrir tilviljun, að taka á móti íslenskum hópum og vinna sem fararstjóri. Í dag er Pétur Óli án efa þekktasti íslenski fararstjórinn í Pétursborg. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00