Hjólað í Toskana

Í þessari töfrandi hjólaferð verður hjólað um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Hjólaðar verða fáfarnar leiðir í gegnum sveitahéruðin þar sem við upplifum fagurt landslagið með öllum skilningarvitum. Á vegi okkar verða frjósamir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um fornar byggingar og huggulega strandbæi. Við munum hjóla eftir aldagömlum virkisveggjum miðaldaborgarinnar Lucca og líta á hinn heimsfræga skakka turn í Pisa. Kynnumst marmaravinnslu í Carrara og njótum einstaks útsýnis yfir La Spezia flóa í Montemarcello þjóðgarðinum. Þema ferðarinnar er að njóta hins ljúfa lífs og það getum við sannarlega gert á hótelinu sem er staðsett rétt við ströndina á einum vinsælasta sumardvalarstað Ítalíu. Hvenær sem er í ferðinni er hægt að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum. 

Verð á mann í tvíbýli 236.600 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 24.900 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 3 stjörnu hóteli.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Vel útilátinn 3 rétta kvöldverður á hóteli.
 • Hjóladagskrá.
 • Rútuferðir til baka frá stöðum samkvæmt dagskrá.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Upplýsingafundur með fararstjóra fyrir ferð.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 21 gíra hjóli í 6 daga 26.300 kr.
 • Leiga á rafmagnshjóli í 6 daga 33.700 kr.
 • Hjólataska 5.700 kr.
 • Hjálmur 5.700 kr.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Vínsmökkun hjá vínbónda ca € 15.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 35-60 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flug til Mílanó

Flogið verður með Icelandair til til Mílanó þann 16. maí. Brottför frá Keflavík kl. 15:20, en mæting í Leifsstöð er í síðasta lagi 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:35 að staðartíma. Gera má ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á gististað taki rúmlega 3 klst.

Á heimleið 23. maí flytur rúta okkur til Mílanó, en þaðan verður flogið kl. 22:35. Lending á Íslandi kl. 00:50 að staðartíma.

Tillögur að dagleiðum 17. - 22. maí

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykir áhugavert að heimsækja. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

Dagleið 1 | Pisa

Við gefum okkur tíma til að hvíla okkur eftir flugið en hjólum svo í rólegheitum af stað til Pisa. Á leið okkar þangað heimsækjum við eitt fallegasta þorp Versilíastrandarinnar, Viareggio, ásamt því að hjóla milli sandhóla Migliarino þjóðgarðsins. Þegar við komum til Pisa skoðum við okkur um en borgin er hvað þekktust fyrir skakka turninn á torginu Piazza dei Miracoli. Klukkuturninum, sem er frístandandi en tilheyrir dómkirkjunni, var eðlilega ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Við skoðum okkur um og myndum í gríð og erg en hjólum síðan áfram uns komið er í þorpið San Pietro a Grado við Migliarino garðinn. Rútan flytur okkur þaðan aftur á hótelið. Ef áhugi er til staðar þá er hægt að bæta við 10km leið til strandbæjarins Tirrenia.

 • Vegalengd: ca 46 km
 • Hækkun: engin
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

Dagleið 2 | Lucca

Við reynum aðeins meira á okkur í dag á leið okkar til Lucca. Leið okkar liggur upp eftir einum hinna fornu vega sem lágu til Rómar. Við komum að sögulegu þorpi, Pietrasanta, en hér er tilvalið að líta á San Martino dómkirkjuna frá 14. öld. Lucca er gömul virkisborg sem var á 13. og 14. öld ein af valdamestu borgum Evrópu. Við munum hjóla eftir virkisveggjunum frá miðri 17. öld og njóta stórkostlegs útsýnis yfir borgina ásamt því að fara í stutta skoðunarferð fótgangandi um hana. Ekið verður til baka á hótelið með rútu.

 • Vegalengd: ca 50 km
 • Hækkun: 480 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

Dagleið 3 | Luni & Sarzana

Þennan dag er hjólað til Luni sem er nú þorp en var eitt sinn kunn hafnarborg. Þaðan er svo farið í annan heillandi, gamlan bæ, Sarzana. Hér skoðum við okkur um, röltum eftir notalegum, litlum strætum og kíkjum svo á kastala umlukta varnarveggjum. Leiðin liggur áfram um sveitir og á einum stað verður áð hjá vínbónda þar sem tækifæri gefst til að grípa bita og njóta framleiðslu bóndans.

 • Vegalengd: ca 40 km
 • Hækkun: 190 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

Dagleið 4 | Marmarinn í Carrara

Dásamlegt landslag Toskana og Liguria héraðsins tekur á móti okkur í dag á leið okkar til miðaldabæjarins Massa sem hringar sig um Malaspina kastalann. Eftir að hafa skoðað bæinn hjólum við áfram til Carrara sem er höfuðstaður marmaravinnslu á Ítalíu. Héðan förum við upp í 1000m hæð í jeppum eftir stígum og bröttum brekkum og útsýnið er stórkostlegt. Heimferð á hótelið með rútu.

 • Vegalengd: ca 35 km
 • Hækkun: 390 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 5 | Montemarcello & Skáldaflói

Rútan flytur okkur á upphafsreit dagleiðarinnar í Fiunaretta. Við hefjum hjóladaginn á dálítilli áskorun en vegurinn til Montemarcello þjóðgarðsins er nokkuð brattur. Umbun erfiðisins er einstakt útsýni yfir La Spezia flóann. Við hjólum áfram í rólegheitum og njótum sýnarinnar yfir Portovenere. Þegar komið verður til Lerici við Golfo dei Poeti flóann, eða Skáldaflóa eins og hann kallast á íslensku, dveljum við þar nokkra stund og njótum útsýnis áður en við förum með bát til Portovenere þar sem er tilvalið að næra sig. Snúum til baka til La Spezia seinnipartinn en þaðan flytur rútan okkur á hótel.

 • Vegalengd: ca 24 km
 • Hækkun: 380 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Frídagur

Frídaginn er hægt að nýta sér til að kynna sér svæðið á eigin vegum. Ýmislegt má gera þennan dag en að neðan eru þrjár hugmyndir.

Flórens eða Cinque Terre með lest:
Brautarstöðin í Pietrasanta er í um 5 km fjarlægð frá hóteli en þangað má komast með strætisvagni eða leigubíl. Ekki er mælt með að þangað sé hjólað og hjól skilin eftir daglangt á brautarstöð. Ferðin til Flórens tekur 90 mín. en skipta þarf um lest í Pisa. Ferðin til Cinque Terre (Riomaggiore) tekur 75 mín. en skipta þarf um lest í La Spezia.

Afslöppun á baðströnd, verslanir í Viareggio og Forte dei Marmi
Hægt að taka það rólega nærri hóteli, sóla sig á baðströnd og kíkja í verslanir í Viareggio eða Forte dei Marmi. Þá er hægt að nota reiðhjólin og dóla sér milli smáþorpa á Versilian ströndinni.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Hotel Venezia

Gist verður á 3* hóteli í strandbænum Marina di Pietrasanta, Hotel Venezia. Herbergin eru búin öllu því helsta; loftkælingu, sjónvarpi, síma, hárþurrku og minibar. Hótelið er mjög vel staðsett við sjávarsíðuna á einum vinsælasta sumardvalarstað Ítalíu. Stór garður er í kringum hótelið með sundlaug ásamt sólbaðsaðstöðu. Frí nettenging er á hótelinu. 

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir