11. – 16. ágúst 2020 (6 dagar)
Við bjóðum spennandi ferð til Norður-Englands þar sem skoðaðar verða ýmsar náttúruperlur, farið um þjóðgarða Yorkshire og á slóðir norrænna manna og fornra minja. Flogið verður til Manchester, ekið um Wakefield þar sem gömul kolanáma verður heimsótt og þaðan verður farið til York. Við förum á Jorvik Viking Centre sem er frábært safn frá víkingatímanum. Við rifjum upp ferð Egils Skallagrímssonar til York en þar orti hann hið þekkta kvæði Höfuðlausn. Farið verður um Jórvíkurdalina sem að hluta til eru þjóðgarðar. Þar verður komið við í skemmtilegum þorpum og bæjum og sögustaðir heimsóttir, s.s. kastali, fornminjar og kunnir staðir úr sjónvarpsþáttum. Í Manchester verður boðið upp á skoðunarferð á Vísinda- og iðnaðarsafnið en einnig gefst frjáls tími sem hver getur ráðstafað að vild.