Páskatöfrar í Toskana

Páskatöfrar í Toskana og heillandi andrúmsloft ítölsku rivíerunnar með pálmatrjám og fögrum ströndum bíða okkar í glæsilegri ferð þar sem við kynnumst menningu og listum landsins. Versilíaströndin er undurfögur sem og bærinn Lido di Camaiore, einn vinsælasti baðstrandarbærinn við ströndina.

Við hefјum ferðina í Brixen sem er ein af perlum Suður-Tíról, umvafin Alpafjöllunum í Eisackdalnum á Ítalíu. Á leiðinni til Lido di Camaiore verður áð í bænum Garda við Gardavatnið. Við taka ævintýralegar skoðunarferðir og einstök fegurð t.d. í siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í nokkrum þorpum svo sem Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere. Flórens tekur á móti okkur en hún er einhver glæsilegasta lista- og menningarborg landsins og ein af fјölsóttustu borgum veraldar. Pisa með sinn skakka turn er næsti viðkomustaður og við skoðum hina frægu basilíkukirkju og skírnarkapelluna. Einnig verður komið til gömlu virkisborgarinnar Lucca í Toskana héraði og vínbóndi sóttur heim. Endum þessa töfrandi ferð í Innsbruck höfuðstað Tíról í Austurríki.

Verð á mann í tvíbýli 288.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 47.700 kr.

Innifalið

 • 11 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur inn í kirkjuna, skírnarkapelluna og turninn í Pisa ca € 32.
 • Sigling Cinque Terre ca € 30.
 • Hádegissnarl hjá vínbónda ca € 20.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

18. apríl | Flug til München & Brixen í Suður Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 07:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan ekið suður á bóginn, yfir Brennerskarð og suður til Brixen sem er ein af perlum Suður-Tíról umvafin Alpafjöllunum í Eisackdalnum, þar sem gist verður í tvær nætur á góðu hóteli í miðbænum. Á hótelinu er inni og útisundlaug, heilsulind, líkamsrækt, tyrknest bað, sauna og nuddpottur. Eftir góðan kvöldverð förum við í stutta göngu um bæinn sem er höfuðstaður Eisackdalsins og liggur við rætur fjallsins Plose.

19. apríl | Stutt skoðunarferð & frjáls dagur til að njóta í Brixen

Í Brixen, þessum 20.000 manna yndislega bæ, finnast gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætst árnar tvær Eisack og Rienz sem ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum gera Brixen að einstaklega heillandi og fallegum stað. Nú verður frjáls dagur til að njóta og næra sál og líkama. Upplagt að skoða bæinn betur og líta inn á kaupmenn bæjarins sem geta verið ansi líflegir. Einnig er upplagt að nota hina glæsilegu aðstöðu sem hótelið býður upp á. 

20. apríl | Brixen, Garda & Lido di Camaiore

Eftir góðan morgunverð verður ekin fögur leið að Versilíaströndinni til Lido di Camaiore. Á leiðinni þangað er stoppað í bænum Garda við Gardavatnið. Þar verður hægt að fá sér hressingu og skoða sig um í þessum töfrandi bæ áður en ekið verður til Lido di Camaiore þar sem gist verður í 5 nætur á góðu hóteli við ströndina og örfáum skrefum frá aðalgötum bæjarins. Á hótelinu er útisundlaug og sólbaðsaðstaða, einnig er heilsulind með gufubaði svo og heitur pottur í fallegum garði.

Opna allt

21. apríl | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Siglt verður hjá Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Fegurðin er ólýsanleg á þessu svæði og ekki að undra að ströndin er komin á heimsminjaskrá UNESCO. Töfrandi sigling með viðkomu í nokkrum þorpanna t.d. Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere. Einnig verður frjáls tími til að kynnast lífi bæjarbúa við ströndina og njóta fegurðarinnar.

22. apríl | Skoðunarferð til Pisa

Við heimsækjum Pisa sem er þekktust fyrir sinn skakka turn á torginu Piazza dei Miracoli en bygging turnsins hófst árið 1173. Þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, var ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða kraftaverkatorginu í Pisa. Skoðum okkur um og fáum okkur hressingu á þessum fjölmenna ferðamannastað. Komið snemma til baka á hótel. 

23. apríl | Frjáls dagur í Lido di Camaiore

Frjáls dagur í Camaiore sem er skemmtilegur bær og sá stærsti við Versilíaströndina. Nú er upplagt að kanna umhverfið betur, líta inn á kaupmenn bæjarins eða á skemmtileg kaffi- eða veitingahús. Strandgatan er falleg og upplagt að ganga út á útsýnisbrúna en þaðan er fallegt útsýni yfir á Apuan fjallgarðinn. Svo er líka hægt að taka lífinu með ró og njóta aðstöðunnar við hótelið. 

24. apríl | Flórens

Nú er komið að einum af hápunktum ferðarinnar, dagsferð til Flórens. Það eru fáar borgir sem komast í hálfkvist við Flórens hvað varðar sögu og merka staði. Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli? Flórens er höfuðborg Toskanahéraðs og liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin. Hér förum við í skoðunarferð og síðan verður frjáls tími til að upplifa borgina eða fara á söfn. Úrval veitingastaða og verslana er mjög gott. Þess má geta að Jóhannes skírari er verndardýrlingur borgarinnar og er mesta hátíð borgarinnar því Jónsmessan. Seint um eftirmiðdaginn höldum við aftur á hótel eftir ánægjulegan dag. 

25. apríl | Ferð til Lucca

Gamla virkisborgin Lucca tekur á móti okkur í dag. Borgin var á 13. og 14. öld ein af valdamestu borgum Evrópu en tilkomumiklir virkisveggir hennar standa frá því á miðri 17. öld. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og hefur fæðingarstaður hans verið gerður að áhugaverðu safni. Við höldum í stutta skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Á leið aftur á hótel munum við heimsækja vínbónda í Montecarlo bænum í nágrenni Lucca, þar sem boðið verður upp á dæmigert ítalskt snarl og auðvitað fáum við að bragða á framleiðslunni. Þangað er yndislegt að koma, þetta verður ógleymanlegur dagur. 

26. apríl | Lido di Camaiore & Innsbruck

Nú kveðjum við þennan yndislega stað og ekin verður undurfögur leið norður um Suður- Tíról og yfir Brennerskarðið til Innsbruck höfuðborgar Tíróls þar sem gist verður í tvær nætur á góðu hóteli í miðbænum. 

27. apríl | Frjáls dagur í Innsbruck

Innsbruck, höfuðstaður Tíról er umvafinn fjöllum og dásamlegri fegurð. Skemmtileg skoðunarferð er fyrirhuguð um borgina sem er ein borga Habsborgaranna. Það var ein mikilvægasta valdaætt Evrópu og ber miðaldahluti borgarinnar þess greinilega merki. Blómatími Habsborgaranna var á 15. öld undir stjórn Maximilians I en hann lét byggja eitt helsta aðdráttarafl borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Eftir skoðunarferð verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße göngugötunni eða setjast niður á eitthvert kaffi- eða veitingahús sem eru fjölmörg.

28. apríl | Heimferð frá München

Það er komið að heimferð eftir dásamlegan tíma í páskaferð á Ítalíu og í Austurríki. Ekið verður til flugvallar í München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Flórens

Flórens

Flórens

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir