Páskar við ítölsku rivíeruna
26. mars – 7. apríl 2024 (13 dagar)
Töfrandi ferð um ítölsku og frönsku rivíeruna þar sem heillandi umhverfi lætur engan ósnortinn. Ferðin byrjar í Zürich en áð verður eina nótt í bænum Lucino á leið til Diano Marina sem oft er kölluð blómaströndin. Nafnið er tilkomið vegna einstakrar blómaræktunar þar um slóðir. Þaðan verður farið í yndislegu borgina Nice við Côte d’Azur ströndina í Frakklandi ,sem er við svonefnda Englavík, og til borgarinnar Cannes þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarnanna. Bærinn Cervo, sem er sannkölluð perla og af mörgum talinn vera einn fallegasti smábær Ítalíu, verður sóttur heim. Suðrænn blær leikur líka um okkur í dásamlega furstadæminu Mónakó. Sælan heldur áfram í fallega bænum Lerici við La Spezia flóann á Ítalíu en hann ber viðurnefnið skáldaflóinn. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Skemmtileg dagsferð er í boði þar sem við förum í ævintýralega siglingu úti fyrir brattri klettaströnd Cinque Terre með viðkomu í þorpunum Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere. Förum einnig til gömlu virkisborgarinnar Lucca í Toscanahéraði þar sem við heimsækjum m.a. vínbónda. Ferðinni lýkur með trompi í Innsbruck, höfuðborg Tíróls í Austurríki.