Fljótasigling á Rín

4. – 9. september 2018 (6 dagar)

Við líðum eftir Rín, einu stærsta fljóti Evrópu og virðum fyrir okkur einstaka fegurð Rínardalsins. Daglega bíða okkar nýir og spennandi áfangastaðir, en á fögrum bökkum Rínar eru ótal sögufrægir staðir sem við munum fræðast um í ferðinni. Eftir flug til Frankfurt ökum við til Strassburg þar sem við stígum um borð í fljótaskipið MS Gérard Schmitter. Við gistum allar fimm nætur ferðarinnar um borð í þessu glæsilega skipi og allar máltíðir og drykkir eru innifaldir. Í Strassburg og í vínþorpinu Rüdesheim er fjöldinn allur af huggulegum bindiverkshúsum í gömlum stíl sem unun er að virða fyrir sér. Á siglingu okkar niður fljótið bera vínakrar, kastalar og hallir við augu og við sjáum m.a. Loreley klettinn, ármótin við Mósel í Deutsches Eck, hina frægu dómkirkju í Köln, og borgirnar Nijmegen og Amsterdam. Amsterdam er oft nefnd Feneyjar norðursins og munum við gefa okkur góðan tíma til að skoða þessa litríku og líflegu borg bæði fótgangandi og á siglingu um síkin. Flogið verður heim frá Amsterdam en tilvalið er að framlengja ferðina og dvelja á eigin vegum í borginni eitthvað lengur. 

Verð á mann 212.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 47.700 kr.

Aukagjald fyrir káetu á miðju þilfari er 23.600 kr. á mann í tvíbýli.
Ekki er hægt að fá einbýli á miðju þilfari.

Aukagjald fyrir káetu á efra þilfari er 28.800 kr. á mann í tvíbýli.
Ekki er hægt að fá einbýli á efra þilfari.


Innifalið

 • 6 daga ferð
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Rútuferð frá flugvellinum í Frankfurt til Strassburg.
 • Gisting á skipinu MS Gérard Schmitter í 5 nætur.
 • Morgun-, hádegis- og kvöldverður alla daga um borð.
 • Drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og 1x kaffi espresso.
 • Allir drykkir á barnum um borð.
 • Hátíðarkvöldverður 7. september um borð í skipinu með tónlist og dansi.
 • Skoðunarferð með Winzerexpress lestarvagni í Rüdesheim.
 • Aðgangur að tónlistarsafninu í Rüdesheim.
 • Skoðunarferð með leiðsögumanni í Amsterdam.
 • Sigling með útsýnisbátum um síkin í Amsterdam.
 • Rútuferð út á flugvöll í Amsterdam.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Þær máltíðir sem ekki eru tilgreindar undir innifalið.
 • Aðgangseyrir annar en nefndur er undir innifalið.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Upplagt er að lengja þessa ferð

Í þessari ferð er upplagt að lengja ferðina og breyta heimferð. Breytingargjaldið er 5.000 kr. á miða. Farþegar geta bókað gistingu í Amsterdam á eigin vegum og notið þess að skoða borgina betur. Starfsfólk Bændaferða aðstoðar að sjálfsögðu þá farþega sem þess óska við að bóka gistingu á netinu. 

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

4. september | Flug til Frankfurt & ekið til Strassburg

Brottför er frá Keflavík kl. 7:25, en mæting er í Leifsstöð amk 2 klst. fyrir brottför. Lent í Frankfurt kl. 12:50 að staðartíma. Ekið verður frá Frankfurt til heillandi borgarinnar Strassburg í Frakklandi, en þar stígum við um borð í fljótaskipið MS Gérard Schmitter. Við munum gista fimm nætur um borð í þessu glæsilega skipi í þægilega vel búnum káetum með tveimur rúmum og útsýnisglugga. Í gestasalnum er bar, en á meðan siglingu sendur eru allir drykkir innifaldir og á veitingastaðnum er hlaðborð á morgnana en þjónað til borðs í hádegi og á kvöldin. Uppi á sóldekki eru legustólar til reiðu. Þegar við höfum komið okkur fyrir, hittum við ferðafélagana og áhöfn í móttökuathöfn og snæðum kvöldverð um borð.

5. september | Siglt frá Strassburg til Rüdesheim

Um nóttina verða landfestar leystar og við siglum niður ána í átt að Rüdesheim. Á meðan við njótum morgunverðarins er siglt framhjá Speyer og Mannheim. Ferðin heldur áfram gegnum Mainz og Wiesbaden, framhjá Rínareyjunum Rettbergsaue, Mariannenaue og Fulderaue. Eftir síðdegiskaffi er farið að landi í huggulega gamla vínræktarþorpinu Rüdesheim, sem m.a. er þekkt fyrir bindingsverkshúsin sín. Stigið verður upp í litla bæjarlest, sem ferjar okkur í gegnum bæinn að einstaklega forvitnilegu tónlistarsafni, sem er eitt sinnar tegundar í Evrópu. Að loknum kvöldverði um borð er tilvalið að kanna betur hina líflegu Drosselgasse. Þessi gata varð heimsfræg á sínum tíma fyrir andrúmsloftið sem skapaðist hér þegar tónlistin ómaði út á götu frá tónlistarmönnum sem spiluðu á fjölmörgum börum í götunni. 

6. september | Koblenz & Köln

Næsta morgun leggur skipið af stað um morgunverðarbil í siglingu um rómuðustu svæði hins sögufræga Rínardals. Einn hápunktur dagsins er Loreley kletturinn, sem er þekktur fyrir þjóðsöguna um lokkaprúðu hafmeyjuna Loreley sem sat uppi á klettinum og leiddi fiskimenn í dauðann með seiðandi söng sínum. Þessi saga hefur verið yrkisefni margra skálda, m.a. Heinrich Heine. Hin 2000 ára gamla borg Koblenz, er staðsett við ármót Mósel og Rínar. Skaginn sem myndast við ármótin er kallaður þýska hornið eða „Deutsches Eck“. Á stuttri siglingu áfram til Kölnar, mun ævintýralega kastala og virki bera fyrir augu. Síðdegis leggjum við að í elsta hluta Kölnar og tækifæri gefst til að rölta um þröngar gamlar götur í miðbænum og skoða hina frægu Kölnardómkirkju sem er stærsta gotneska kirkja Norður-Evrópu. Kvöldverð snæðum við um borð. 

Opna allt

7. september | Nijmegen í Hollandi

Árla morguns verður siglt af stað til Hollands. Við Emmerich förum við yfir landamærin og síðdegis komum við til Nijmegen. Hér gefst tækifæri til að rölta um þessa elstu borg Hollands. Hún var mennta- og menningarsetur fyrr á öldum, aðsetur Karlunga og síðar Hansaborg. Meðal þess markverðasta sem sjá má í borginni er Karólínska kapellan frá 11. öld, hin gotneska kirkja St. Stevens og ráðhúsið. Um kvöldið gerum við okkur glaðan dag um borð með hátíðarkvöldverði. Síðar um kvöldið mun lifandi tónlist leikin undir dansi fram á nótt.  

8. september | Siglt til Amsterdam

MS Gérard Schmitter léttir akkerum árla morguns og fer framhjá Arnhem og Utrecht áður en við komum til Amsterdam um miðjan dag. Eftir hádegisverð er farið í skoðunarferð um Amsterdam með innlendan leiðsögumann í fararbroddi, sem sýnir okkur það markverðasta í borginni. Að skoðunarferð lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Hér flýgur tíminn áfram við að kanna ótal rómantísk síki og litrík, heillandi hús sem halla sér hvert að öðru. Áhugasamir geta litið á kaffihús af ýmsu tagi eða heimsótt stórfengleg listasöfn. Eftir kvöldverð um borð verður farið í siglingu á minni útsýnisbát með glerþaki um síki miðborgarinnar. Við njótum þess að sitja um borð og horfa á þessa stórkostlegu borgarmynd líða hjá.

9. september | Heimferð

Nú er komið að leiðarlokum. Haldið verður með rútu út á flugvöll í Amsterdam að loknum morgunverði. Brottför kl. 14:00 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:10 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ingis Ingason

Ingis Ingason fæddist í Fagradal í Mýrdal um miðja síðustu öld og ólst upp í Mýrdalnum fram yfir fermingu, en þá færðist heimilisfestin til Vestmannaeyja. Þar lauk hann landsprófi og stundaði sjó á sumrin, en eyddi vetrunum í Menntaskólanum að Laugarvatni, þaðan sem hann lauk stúdentsprófi. Síðan lá leiðin í Svartaskóg í Þýskalandi til náms í þýsku og heimspeki. Við HÍ lauk hann námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda og síðar framhaldsnámi fyrir þýskukennara í Trier í Móseldalnum 1991-92.

Skip

MS Gerard Schmitter

MS Gérard Schmitter, sem er í eign franska skipa-félagsins CroisiEurope, var tekið í notkun árið 2012. Skipið er 110 metra langt, 11,40 metrar á breidd og með 88 káetum á þremur hæðum. Lyfta er á milli hæða og á skipinu er að finna setustofu með bar og glæsilegum veitingastað. Á sóldekkinu eru sæti og legubekkir. Allar káeturnar eru með glugga, sjónvarpi, hárblásara, öryggishólfi og baðherbergi með sturtu.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir