Svartfjallaland

Það er ævintýri líkast að ferðast um Svartfјallaland, þessa einstöku perlu við Adríahafið. Þar heillar alla stórbrotin og ólýsanleg náttúrufegurð, merkileg saga þjóðar og litskrúðugt menningarlíf. Ferðin byrjar í Mílanó en þaðan er ekið til hafnarborgarinnar Ancona á Ítalíu og siglt yfir til sögufrægu borgarinnar Split í Króatíu. Þá bíður miðaldabærinn Budva í Svartfjallalandi eftir okkur en á leiðinni þangað verður áð í Dubrovnik sem er ein af perlum Króatíu. Það er draumi líkast að sigla um Kotor flóa yfir í eyjuna María á kletti og í virkisborginni Kotor fræðumst við um sögu borgarinnar á miðöldum. Konungsborgin Cetinje er einstaklega hrífandi og í Sipcanik sjáum við stærsta vínkjallara landsins sem var notaður af Nato sem flugvéla- og vopnageymsla. Á vatninu Skatar upplifum við eitt af mörgum náttúruundrum landsins og ótrúlega náttúrufegurð. Frá Budva líðum við áfram í ljúfri siglingu með fram fallegustu strönd landsins, Becici Rivera, og siglum hjá Sveti Stefan eyjunni sem er engu lík. Áður en siglt er til baka frá Split njótum við Diokletian hallarinnar og endum að lokum þetta ævintýri með viðkomu í rauðu borginni Bologna á Ítalíu.

Verð á mann í tvíbýli 518.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 164.400 kr.


Innifalið

  • 14 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Sigling frá Ancona til Split með gistingu um borð.
  • Kvöld- og morgunverður á skipinu til Split.
  • Ferja yfir Kotorflóann.
  • Sigling á eyjuna María á kletti.
  • Sigling á Skadar vatni og hádegisverður á einkaströnd. 
  • Sigling frá Budva og hádegisverður á einkaströnd.
  • Vínsmökkun í Sipcanik.
  • Sigling frá Split til Ancona með gistingu um borð.
  • Kvöld- og morgunverður á skipi frá Split til Ancona.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir sem ekki eru taldir upp undir innifalið.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

  • Aðgangur í konungshöllina í Cetinje u.þ.b. € 10. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

6. ágúst | Mílanó & Turate

Brottför frá Keflavík kl. 15:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22:00 að staðartíma. Gist í nágrenni borgarinnar eina nótt.

7. ágúst| Ancona & sigling á Adríahafi

Dagurinn byrjar á góðum morgunverði en síðan verður stefnan tekin á Ancona við Adríahaf, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu Ancona má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust hér að. Þeir gáfu borginni nafnið Ancona sem þýðir olnbogi. Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og bíður kvöldverður okkar um borð. Gist er í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salerni. Siglingin frá Ancona tekur um 10 klst. og er einstaklega skemmtileg við bestu kringumstæður.

8. ágúst | Split, Dubrovnik & Budva í Svartfjallalandi

Við komum fljótlega eftir morgunverð að landi í sögufrægu borginni Split í Króatíu. Hún telst með fallegustu borgum landsins og við skoðum hana betur eftir yndislega daga í Svartfjallalandi. Frá Split verður ekið um Neretva dalinn sem stundum er kallaður Kalifornía Króatíu en í dalnum er mesta appelsínurækt landsins. Það verður örugglega gert myndastopp á þessari fallegu leið og einnig verður áð í Dubrovnik sem er ein aðalmenningar- og listaborg Króatíu. Ferðin heldur áfram til Svartfjallalands, til gamla virkisbæjarins Budva þar sem gist verður í níu nætur. Hótelið er rétt við ströndina og býður upp á sundlaugargarð með sólbaðsaðstöðu. Herbergin eru með loftkælingu og á hótelinu er líkamsræktaraðstaða og heilsulind. Hótelið er miðsvæðis í bænum, við ströndina og í næsta nágrenni eru verslanir, veitingahús og skemmtistaðir.

Opna allt

9. ágúst | Skoðunarferð í Budva & slökun

Nú er komið að því að kanna nánar þessa yndislegu bæjarperlu, Budva. Við förum í áhugaverða skoðunarferð á gönguferð um þennan 11.000 manna bæ með sínum litlu, þröngu götum og virkisveggjum. Vísindamenn eru á því að bærinn hafi áður verið eyja sem er nú orðin hluti meginlandsins. Samkvæmt fornum fræðum er Budva einn elsti bærinn við Adríahafið og umhverfið er einstakt. Bærinn fór mjög illa í jarðskjálfta árið 1979 en endurreisn hefur tekist með ágætum. Eftir gönguna verður frjáls tími það sem eftir er dags til að njóta náttúrufegurðar staðarins og þess sem bærinn og hótelið hafa upp á að bjóða.

10. ágúst | Sigling út á eyjuna María á kletti & borgin Kotor

Á döfinni er spennandi dagur. Að loknum morgunverði er stefnan tekin á Kotorflóann og ekið til þorpsins Perast þaðan sem farið verður í siglingu yfir á heillandi litla eyju sem kallast María á kletti. Síðan siglum við aftur til Perast og dáumst að landslaginu á leiðinni til Kotor borgar. Elsti hluti Kotor er á heimsminjaskrá UNESCO en borgin er dulúðleg og töfrandi með gömlum virkisveggjum sem við upplifum á rölti um borgina. Eftir það er upplagt að fá sér hádegishressingu og njóta þess að vera á þessum fagra stað.

11. ágúst | Rólegheit & slökun

Nú er gott að eiga frjálsan dag og njóta þess að taka því rólega. Hægt er að fara í göngu með ströndinni, taka sér sundsprett í sjónum eða fara á baðströndina sem er stutt frá okkur. Einnig er gaman að rölta um gamla bæinn og líta inn á kaupmenn bæjarins.

12. ágúst | Cetinje & Sipcanik vínsmökkun

Sérhver Svartfellingur myndi segja: „Ef þú hefur ekki komið til Cetinje þá hefur þú ekki komið til Svartfjallalands“ og því verður þessi borg, ein mikilvægasta borg landsins, vandlega skoðuð. Glæsilegar byggingar skreyta hana, þar á meðal klaustrið þar sem biskupar Svartfjallalands réðu ríkjum öldum saman. Vlaška heitir dómkirkjan, ein elsta bygging borgarinnar, og við skoðum að sjálfsögðu hrífandi konungshöllina Nicola. Cetinje var höfuðborg landsins í tæp 400 ár. Eftir góða stund þar verður ekið til höfuðborgarinnar Podgorica, sem eitt sinn var kölluð Titograd, en þar fer öll stjórnsýsla landsins fram. Við skoðum þar stærsta vínkjallara landsins, Sipcanik, sem nær yfir rúma tvo hektara. Þarna var áður aðalherflugvöllur landsins sem meðal annars var notaður af NATO og þá voru vínkjallararnir flugvéla- og vopnageymslur. Það er mikil upplifun að koma hingað en um 11 milljónir plöntur sjá framleiðslunni fyrir vínþrúgum. Okkur verður boðið í mjög glæsilega vínsmökkun.

13. ágúst | Virpazar & sigling á Skadar vatni

Skadar vatn er eitt af náttúruundrum landsins. Þetta stöðuvatn hefur alla tíð verið utan alfaraleiðar en það er á landamærum Svartfjallalands og Albaníu. Hér er hrífandi landslag sem við njótum á siglingu um vatnið frá litla fiskiþorpinu Virpazar. Vatnið er sérstakt m.a. vegna þess að á botni þess eru um 30 uppsprettulindir, sem heimamenn kalla augu. Dýpsta lindin er á 60 m dýpi og úr henni streymir hreint og kristaltært vatn af kalksteinsbotninum. Vatnið er heimasvæði óteljandi dýrategunda, m.a. á þriðja hundrað fuglategunda, og á vatnsyfirborðinu vaxa vatnaliljur. Við einkaströndina Pjesacac er beðið eftir okkur með grillaðan fisk á skemmtilegum veitingastað við vatnið. Að hádegisverði loknum gefst tækifæri til að fara í gönguferð eða taka sundsprett í vatninu en síðan er siglt til baka til Virpazar þar sem rútan bíður okkar. Upplagt að taka með sundföt og baðhandklæði.

14. ágúst | Dagur í rólegheitum

Nú eigum við dag í rólegheitum og njótum þess að vera á þessum fagra stað. Tilvalið að fara á ströndina eða nota þessa frábæru aðstöðu við hótelið.

15. ágúst | Sigling um Becici Rivera & St. Nicola eyjan

Við hefjum daginn á því að ganga stuttan spöl frá hótelinu að höfninni í Budva. Siglum þaðan með þessari einstöku strönd og njótum dásamlegs umhverfis. Förum fram hjá St. Nicola eyjunni, litla sjávarþorpinu Przno, sjáum drottninga- og kóngaströndina og heillandi hóteleyjuna Sveti Stefan. Við snæðum hádegisverð á afar fallegum stað í landi sem er með einkaströnd og gefst tækifæri þar til að taka sundsprett eða njóta þessar náttúrufegurðar sem leikur um okkur. Eftir það líðum við áfram í draumalandslagi og góðum félagsskap til Budva. Upplagt að taka með sundföt og baðhandklæði.

16. ágúst | Frjáls dagur í Budva & slökun

Í dag er frjáls dagur til að njóta náttúrufegurðarinnar sem umleikur okkur. Nú er tími til að slaka á, líta inn til kaupmanna bæjarins, fara á ströndina eða slappa af á hótelinu.

17. ágúst | Split & Ancona

Í dag förum við loks til sögufrægu borgarinnar Split sem telst með merkustu borgum landsins. Þar má finna Diokletian höllina og enn fremur glæsilegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja en elsti hluti borgarinnar hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið
1979. Borgin er því eins og lifandi safn, sem iðar af mannlífi. Við förum í stutta skoðunarferð um borgina en eftir það verður gefin frjáls tími fram að því að við röltum saman að ferjustað þar sem skipið bíður okkar um kvöldið. Frá Split verður siglt yfir til Ancona. Gisting með morgun- og kvöldverði um borð í skipinu.

18. ágúst | Ancona & Bologna

Eftir morgunverð á skipinu komum við til Ancona kl. 7:00. Nú verður stefnan tekin á hina líflegu og sögufrægu borg Bologna í Norður-Ítalíu þar sem gist verður í eina nótt. Langa yfirbyggða göngugatan er skemmtileg, fallegar byggingar frá miðöldum og endurreisnartímanum prýða borgina sem og skökku turnarnir sem eru tákn borgarinnar. Hér verður gefinn tími til að kanna líf bæjarbúa, líta í verslanir borgarinnar og fá sér hressingu áður en ekið verður á hótel.

19. ágúst | Heimferð frá Mílanó

Öll ævintýri taka enda og nú er komið að heimferð eftir yndislega daga. Að morgunverði loknum er ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Brottför þaðan kl. 15:10 og lent í Keflavík kl. 17:25 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir