Jólaferð til Wiesbaden 3

Aðventan er tími ljóss og friðar og ilmurinn af jólaglöggi og ristuðum möndlum liggur í loftinu.

Í þessari jólaferð höldum við til Wiesbaden sem stendur á bökkum Rínar, rétt vestur af Frankfurt. Í Wiesbaden er mikil aðventustemning og í miðbænum er fallegur jólamarkaður þar sem upplýstar stjörnur svífa yfir litríkum jólahúsum. Boðið verður upp á bæjarrölt með fararstjóra en eins gefst tækifæri til að kanna bæinn á eigin vegum, líta inn til kaupmanna eða fylgjast með mannlífinu frá einu af fјölmörgum kaffi- og veitingahúsum miðbæjarins. Við förum í dagsferð til Rüdesheim, vinsæls ferðamannabæjar við ána Rín. Í hjarta Rüdesheim er hinn skemmtilegi jólamarkaður þjóðanna þar sem hægt er að kaupa fallegar gjafavörur og fylgjast með hvernig handverk frá hinum ýmsu þjóðum er unnið. Þá er upplagt að ylja sér við jóladrykkinn Glühwein. Allur miðbærinn er skreyttur jólaljósum og gaman er að rölta um og njóta jólastemningarinnar til fulls.

Verð á mann 159.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 20.900 kr.

Athugið á hótelinu eru ekki í boði aðskilin rúm.

Innifalið

  • 4 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir milli flugvallar og hótels.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði, á hóteli við göngugötuna.
  • Morgunverður.
  • Skoðunarferð til Rüdesheim.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegis- og kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5 . desember | Flug til Frankfurt

Brottför frá Keflavík kl. 7:25 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Rúta flytur okkur til Wiesbaden. Þetta er einstaklega falleg borg með merka sögu og státar af fallegum byggingum. Eftir komuna þangað er upplagt að rölta á jólamarkaðinn í bænum. 

6. desember | Dagsferð í Rüdesheim

Þennan dag verður ekið til Rüdesheim sem er einn vinsælasti ferðamannabærinn við Rín. Við byrjum á að fara upp á hæðina fyrir ofan bæinn til að njóta stórkostlegs útsýnis yfir árdalinn. Rüdesheim er þekktur fyrir sín gömlu og fallegu bindingsverkshús og skemmtilegar þröngar götur sem iða af mannlífi. Bærinn verður kominn í sannkallaðan jólabúning með jólamarkaði þjóðanna, þar sem gaman er að skoða handgerða muni frá 18 mismunandi þjóðum í 120 jólabásum með ilmandi heitt Glühwein við hönd.

7. desember | Frjáls dagur í Wiesbaden

Í dag er frjáls dagur í Wiesbaden. Fararstjórinn mun bjóða upp á bæjarrölt og leiðsögn fyrir hádegi fyrir þá sem vilja en síðan verður frjáls tími. Allar stærstu verslanirnar eru staðsettar á Lang- og Kirchgasse. Þetta eru göngugötur rétt hjá hótelinu og stóru búðirnar eru opnar fram á kvöld. Gott úrval veitingastaða og kaffihúsa er í bænum að ónefndum jólamarkaðnum sem teygir sig frá ráðhústorginu inn í litlu hliðargöturnar með úrvali af gjafavöru og góðgæti. 

Opna allt

8. desember | Heimferð

Eftir morgunverð er farið með rútu út á flugvöll og síðan er flug frá Frankfurt kl. 13:00. Lent í Keflavík kl. 15:40 að íslenskum tíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Hótel

Select Hotel Wiesbaden City

Select Hotel Wiesbaden City hótelið er staðsett í miðbæ Wiesbaden, alveg við göngugötuna. Fjöldi veitingastaða og verslana er í nágrenninu. Á hótelinu sem er þriggja stjörnu eru um 130 hugguleg herbergi með baði, sjónvarpi og síma. Morgunverður er innifalinn og hótelinu er lítill bar. Þráðlaust internet er á öllum herbergjum og í móttökunni.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti