Konungsfjöll & Bodensee

18. – 25. júní 2018 (8 dagar)

Í þessari glæsilegu þriggja landa ferð dveljum við fyrst í ævintýralandslagi við rætur Alpafjalla í bænum Füssen í Þýskalandi þar sem eina stórfenglegustu höll Evrópu, Neuschwanstein ber við himin. Seinna höldum við til Austurríkis þar sem við njótum þess að vera í menningarborginni Bregenz, sem fræg er fyrir stórkostlegt leiksvið út í vatninu. Við Bodensee, sem nefnt hefur verið sál Evrópu, er að finna hrífandi staði þar sem landslagsfegurð er einstök og menningarsaga mikil. Má t.d. nefna St. Gallen sem var vagga fræðimennsku og lærdóms í Mið-Evrópu í byrjun miðalda. Konstanz var heimsborg í lok miðalda og Bregenz varðveitir eitt helsta sýningarhús nútímalistar í Mið- Evrópu, Kunsthaus-Bregenz, en þar fer fram hin þekkti, árlegi óperuviðburður, Festspiele. Blómaeyjan fagra Mainau, sem ætíð breytir um svip eftir árstíðum, verður sótt heim og farið verður í yndislega siglingu þar sem við njótum landslagsins frá vatninu. Við heimsækjum miðaldabæinn Meersburg þar sem elsti miðaldakastali Þýskalands trónir og lítum á steinaldarþorp úti á vatninu sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Við fræðumst um lífræna vín- og ávaxtarækt, röltum um notalega bæi og njótum lífsins.

Verð á mann í tvíbýli 184.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 43.000 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Neuschwanstein höllin ca. € 13.
 • Vínsmökkun ca. € 15.
 • Blómaeyjan Mainau ca. € 21.
 • Kláfur upp Pfänder fjall ca. € 13.
 • Sigling á Boodensee vatni ca. € 17.
 • Klaustrið í St. Gallen ca. CHF 12.
 • Meersburg kastali ca. € 13.
 • Steinaldarþorpið ca. € 12.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

18. júní | Flug til München & Füssen í Þýskalandi

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð amk 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Byrjað verður á því að fara inn í lista- og menningarborgina München sem er alltaf hrífandi. Þar verður hægt að fá sér hressingu áður en ekið verður suður til Füssen við landamæri Þýskalands og Austuríkis, þar sem gist verður í tvær nætur. Í námunda við bæinn eru hallirnar frægu Neuschwanstein og Hohenschwangau, sem eru eitt stærsta aðdráttarafl ferðamanna þar í landi. Einstakt landslag Alpanna allt um kring gerir skoðunarferð um Füssen enn áhrifameiri, þar er margt að sjá. Bærinn stendur við ána Lech og á langa og merka sögu, sem nær allt til daga Rómaveldis. Við förum í stutt bæjarrölt eftir komuna þangað.

19. júní | Neuschwanstein höllin

Eftir góðan morgunverð er ætlunin að upplifa Neuschwanstein höllina sem Bæjarakonungurinn Ludwig II, oft kallaður Ævintýrakonungurinn, lét byggja á árunum 1869 – 1886 og er með glæsilegustu höllum Evrópu. Hann ólst upp í eldri höllinni Hohenschwangau og eyddi mestum hluta ævi sinnar í þessu töfrandi landslagi. Seinna reisti hann Neuschwanstein sem er ein glæsilegasta og leyndardómsfyllsta höll landsins. Farið verður í skoðunarferð um höllina en þeim sem hafa skoðað hana áður skal bent t.d á að fara í staðinn í gömlu höllina, Hohenschwangau. Eftir það verður frjáls tími til að njóta náttúrufegurðar staðarins og þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Má nefna að vel væri hægt að skoða Magnúsarkirkjuna og mögulega fara í klaustrið og skoða þar eina af frægustu freskum veraldar "Dauðadansinn".

20. júní | Lindau & Bregenz í Austurríki við Bodensee

Í dag kveðjum við Füssen, þennan yndislega bæ, og verður ekið til borgarinnar Bregenz, höfuðborgar sambandslandsins Vorarlberg í Austurríki. Leiðin liggur um blómleg ávaxtahéruð til hins fagra Bodensee. Að vatninu liggja þrjú lönd sem eru Þýskaland, Sviss og Austurríki. Áð verður í  Lindau í Þýskalandi en hann er einn stærsti bær við vatnið og jafnframt sá sem mest heillar. Gamli hluti bæjarins er úti á eyju, sem tengd er landi með brú. Upprunalega var þarna lítið fiskiþorp sem fyrst er getið í heimildum árið 882. Við gefum okkur góðan tíma til að njóta einstaklega fallegs miðaldabæjar með fjölmörgum byggingum í gotneskum-, endurreisnar- og barokkstíl þar sem mannlífið er líflegt og heillandi. Eftir það verður vínbóndi sóttur heim í námunda við bæinn áður en ekið verður til Bregenz þar sem gist verður í fimm nætur á góðu hóteli í miðbænum.

Opna allt

21. júní | Blómaeyjan Mainau & Konstanz

Töfrandi dagur er á dagskránni því eftir morgunverð er ekin fögur og skemmtileg leið sem er í Sviss að hluta til, meðfram Bodensee, til Konstanz og að blómaeyjunni Mainau. Eyjan er um 45 hektarar en fyrir 2000 árum var hún virki Rómverja og á 9. öld tilheyrði hún hinu volduga klaustri á nágrannaeyjunni Reichenau. Sænska konungsfjölskyldan Bernadotte erfði eyjuna 1928 og einn meðlimur hennar, greifinn Lennart, settist þar að. Hann á heiðurinn af þessum einstaklega glæsilega lystigarði sem við skoðum. Eftir heimsóknina á Mainau verður áð í Konstanz, stærstu borginni við vatnið og einum aðal ferðamannastaðnum. Mjög lífleg og áhugaverð borg þar sem gaman er að rölta um, skoða óvenjuleg útilistaverk, glæstar byggingar og líta inn á hugguleg kaffi- eða veitingahús.

22. júní | Skoðunarferð í Bregenz & Pfänder kláfur

Við njótum þess að eiga góðan dag í Bregenz. Byrjað verður á því að fara í fróðlega skoðunarferð um borgina, þar sem gengið verður um miðaldahluta hennar. Eftir það verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum en í miðbænum er mikið úrval af allskyns skemmtilegum verslunum. Fyrir listunnendur er Kunsthaus-Bregenz tilvalið að skoða, það er með einn þekktasta nútímasýningarsal í Evrópu. Eins er mjög skemmtilegt að fara með kláfi á heimafjall Bregenz, Pfänder, upp í 1064m hæð. Útsýnið þaðan yfir allt Bodensee er einstakt og í góðu skyggni sést til um 240 Alpatinda sem tilheyra Austurríki, Þýskalandi eða Sviss.  Þessi ferð er mjög þægileg og kláfurinn er aðeins í fárra mínútna göngufjarlægð frá hótelinu.

23. júní | St. Gallen & svissneskir bændur

Þennan dag verður ekið til bæjarins St. Gallen í Sviss þar sem við skoðum fornfrægt bókasafn Benediktklaustursins sem geymir mörg af merkustu handritum miðevrópskrar menningar og er á heimsminjaskrá UNESCO. Seinni partinn sækjum við bændur heim í námunda við Romanshorn, skyggnumst inn í dagleg störf þeirra sem um margt eru ólík því sem gerist á Íslandi ásamt því að bragða á heimagerðum afurðum þeirra. 

24. júní | Sigling á Bodensee & Meersburg

Það verður yndislegt að fara í tveggja tíma siglingu á Bodensee og njóta landslagsins frá vatninu á leið okkar til Meersburg í Þýskalandi. Bærinn býr yfir töfrum miðalda og lega hans í hæðunum við vatnið er heillandi. Kastalinn sem gnæfir yfir þröngum götunum er elsti kastali landsins og er mjög áhugaverður. Eftir hádegi höldum við til bæjarins Unterhuldingen að steinaldaþorpi einu sem er úti í vatninu og er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar förum við í mjög áhugaverða skoðunarferð. Eftir það verður ekinn skemmtilegur spölur þýskalandsmegin meðfram Bodensee á hótelið.

25. júní | Heimferð frá Zürich

Eftir yndislega og skemmtilega ferð verður ekið til Zürich. Brottför þaðan kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært milli daga eftir því sem þörf þykir meðan á ferðinni stendur.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Inga Ragnarsdóttir

Inga hefur starfað fyrir Ferðaþjónustu bænda - Bændaferðir frá árinu 2004. Síðan þá hefur hún farið í fjölda ferða um mið-Evrópu og til Egyptalands. Hún hefur sérhæft sig í Asíu og ferðast um lönd eins og  Indland, Nepal, Tíbet. Víetnam, Cambódíu, Búrma og Japan. Til Kína hefur hún heimsótt á hverju ári, stundum oftar en einu sinni,  í yfir 10 ár og segir töfra Kína vaxa eftir því sem maður kynnist landinu nánar og býr hún yfir mikilli þekkingu um land og þjóð enda hefur Kína heillað hana frá því á unglingsárunum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir