Suður-Frakkland & Spánn

21. september – 2. október 2019 (12 dagar)

Dásamleg og töfrandi ferð um Suður-Frakkland, Katalóníu á Spáni og frönsku Alpana. Við lendum í Genf en höldum rakleitt til sögufrægu borgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi. Þaðan verður farið í skemmtilegar skoðunarferðir svo sem til Arles og klettabæjarins Les Baux þaðan sem útsýnið er stórkostlegt. Á leið okkar til Katalóníu bregðum við okkur til Figueres, fæðingarbæjar Salvador Dalí og skoðum safn með ævintýralegu verkunum hans. Við dveljum lengst af í fallega bænum Tossa de Mar við Costa Brava ströndina á Spáni sem býr yfir merkum minjum og fornum borgarmúrum í hinum dulúðlega bæjarhluta Vila Vella. Hér njótum við hins ljúfa lífs! Við förum í dagsferðir til glæsilegu og litríku heimsborgarinnar Barcelona og í yndislega siglingu til Lloret de Mar við Costa Brava ströndina. Eigum skemmtilegan og líflegan dag í San Feliu de Guíxols bænum sem er við snotru víkina Sant Pol en bærinn er einn af perlum Costa Brava. Ferðin endar svo í borginni Annecy við samnefnt vatn en hún er eins og gimsteinn í kórónu fjallanna sem umlykja hana.

Verð á mann í tvíbýli 248.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 57.200 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Salvador Dalí safnið í Figueres ca € 10.
 • Sigling til Lloret de Mar ca € 20.
 • Sigling á Annecy vatni ca € 15.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. september | Flug til Genf & sögufræga borgin Avignon

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekið suður til sögufrægu borgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi, sem er rómuð fyrir fegurð.

Þar verður gist í 3 nætur á góðu hóteli í miðbænum.

22. september | Arles & Les Baux

Ekið verður sem leið liggur suður til bæjarins Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands. Farið verður í skoðunarferð um þennan sögulega bæ þar sem við skoðum meðal annars magnað rómverskt hringleikahús. Í Arles er Van Gogh safn en listamaðurinn bjó þar um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verka, þ.á m. Gula kaffihúsið. Eftir frjálsan tíma verður ekið til ævintýralega klettabæjarins Les Baux sem var miðstöð trúbadora og mótmælenda til forna. Hrikaleg fegurð umvefur staðinn og útsýnið er einstakt, sérstaklega frá einkar áhugaverðum kastalarústunum efst uppi. Í Les Baux má upplifa einstaka myndlistarsýningu sem varpað er á veggi í gamalli námu. 

23. september | Skoðunarferð um Avignon & frjáls tími

Skemmtileg skoðunarferð um þessa fögru, aldagömlu virkisborg Avignon. Virðulegir eru virkisveggir borgarinnar, brúin fræga St. Bénezet og gamli bærinn með gömlu höll páfagarðs en allt er þetta varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Það er mjög gaman að skoða elsta hluta borgarinnar sem er rétt hjá ráðhústorginu. Þar eru skemmtilegar verslanir og hrífandi götur. Einnig er gaman að fara út á St. Bénezet brúna og ganga virkisveggina.

Opna allt

24. september | Salvador Dalí & Tossa de Mar á Spáni

Nú yfirgefum við þessa fögru borg og höldum til Spánar. Á leið okkar heimsækjum við Figueres, fæðingarstað Salvador Dalí. Safnið Dalí Teatre-Museu er eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar í Katalóníu og er heilt ævintýri að koma þar inn en Dalí sjálfur hannaði safnið. Bærinn er mjög líflegur og skemmtilegur og er upplagt að fá sér hressingu áður en farið verður inn á safnið. Síðdegis höldum við ferð okkar áfram til miðaldabæjarins Tossa de Mar við Costa Brava ströndina.

Hér munum við gista 7 nætur á góðu hóteli í miðbænum.

25. september | Heimsborgin Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí og glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og saga hennar merkileg en fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell. Ekið verður upp á hæðina Montjuïc en þaðan er fallegt útsýni yfir borgina. 

26. september | Útimarkaður & gönguferð í Tossa de Mar

Við hefjum daginn á fróðlegri gönguferð um Tossa de Mar og byrjum á litríkum útimarkaði rétt við hótelið. Því næst verður gengið upp í elsta hluta bæjarins, klettabæinn Vila Vella, sem umkringdur er borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Þaðan gefur að líta stórfallegt útsýni yfir gjörvalla klettaströnd Tossa. Að koma inn í Vila Vella er eins og að ferðast aftur í tímann en enn er búið í nokkrum gömlu húsanna innan virkisveggjanna. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að kanna umhverfið á eigin vegum. Fyrir áhugasama eru fornar minjar frá rómverskum tímum að finna í nágrenni hótelsins en í bænum eru einnig margar huggulegar litlar verslanir.

27. september | Ljúf sigling til Lloret de Mar

Að loknum morgunverði verður farið í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög snotur bær sem gaman er að rölta um. Þar er að finna fallegu kirkjuna Sant Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í góða göngu eftir ströndinni að miðaldavirkinu Sant Joan frá 11. öld. Eftir góðan tíma í bænum er siglt til baka.

28. september | Kirkja hafsins & Barcelona

Við ætlum aftur að bjóða upp á ferð til Barcelona svo tækifæri gefst til að skoða sig betur um í borginni. Byrjum á að skoða saman Santa Maria del Mar, kirkju hafsins, sem er dásamleg og margir þekkja úr bók Ildefonso Falcones. Þar á eftir verður gefinn frjáls tími og þá geta allir skoðað borgina betur á eigin hraða. Tilvalið að rölta um Barri gotic, gotneska hverfi borgarinnar, að Palau de la Musica Catalani, katalónisku tónlistarhöllinni, einstakri byggingu á heimsminjaskrá UNESCO, niður Römbluna, eina frægustu götu Evrópu og skoða loks hafnarsvæðið. Ótal falleg söfn finnast um gervalla borg m.a. húsin sem Gaudí teiknaði, Míró safnið og Picasso safnið. Einnig er upplagt að panta miða í La Sagrada Familia, kirkju heilagrar fjölskyldu sem er sannkallað listaverk. 

29. september | San Feliu de Guíxols & Tossa de Mar

Skemmtilegur dagur í San Feliu de Guixols bænum sem stendur við snotra vík á Sant pol sandströndinni. Bær þessi er einn sá áhugaverðasti á Costa Brava ströndinni. Þar er skemmtilegur útimarkaður jafnan fram yfir hádegi en mikið líf og fjör einkenna bæinn og auðvitað eru allar búðir opnar daglangt. Eftir ljúfan tíma þar og hádegishressingu verður ekin töfrandi leið til baka eftir Costa Brava þar sem við upplifum ótrúlega náttúrufegurð við klettaströndina sem er á milli Sa Felíu og Tossa de Mar.

30. september | Frjáls dagur í Tossa de Mar

Frjáls dagur til að hvíla sig, njóta lífsins, láta dekra við sig á heilsulind hótelsins eða kanna umhverfið í rólegheitum. Í bænum kennir margra grasa menningar- og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

1. október | Annecy, perla frönsku Alpanna

Eftir yndislega daga á Spáni, kveðjum við Tossa de Mar og ökum dásamlega leið yfir til Annecy. Líkt og í Feneyjum einkenna falleg síki þessa glæsilega borg sem gefa henni einstakan blæ. Annecy sem er ein elsta borg frönsku Alpanna. Borgin er eins og gimsteinn í kórónu fjallanna sem umlykja hana. Hér gistum við í 1 nótt á góðu hóteli í miðbænum en þaðan er örstutt í verslanir og að vatninu.

2. október | Heimferð frá Genf

Eftir glæsilega ferð verður ekið til Genfar. Brottför þaðan kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir