18. - 29. september 2021 (12 dagar)
Dásamleg og töfrandi ferð um Madríd hérað, Katalóníu á Spáni og frönsku Alpafjöllin. Við byrjum í höfuðborg Spánar, Madríd, sem þekkt er fyrir glæsileg stræti, fallega garða, listasafnið El Prado og konungshöllina El Palacio Real. Þaðan liggur leiðin okkar að Costa Brava ströndinni en þar dveljum við lengst af í strandbænum Tossa de Mar sem býr yfir merkum minjum og fornum borgarmúrum í hinum dulúðlega bæjarhluta Vila Vella. Hér njótum við hins ljúfa lífs! Við förum í dagsferð til glæsilegu og litríku heimsborgarinnar Barcelona og í yndislega siglingu til Lloret de Mar við Costa Brava ströndina. Fjallafegurð Katalóníu heillar okkur í Montserrat klaustrinu en útsýnið frá klaustrinu er stórbrotið og fjallasýnin ólýsanleg. Eigum skemmtilegan og líflegan dag í bænum San Feliu de Guíxols sem er við snotru víkina Sant Pol en bærinn er einn af perlum Costa Brava. Á leiðinni til baka upplifum við ótrúlega náttúrufegurð við klettaströndina sem er á milli Sa Felíu og Tossa de Mar. Ferðin endar svo í borginni Annecy við samnefnt vatn en hún er eins og gimsteinn í kórónu fjallanna sem umlykja hana. Einnig verður komið til sögufrægu borgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi sem er rómuð fyrir fegurð.