Aðventuævintýri í Tríer

Aðventutöfrar og hrífandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari glæsilegu ferð um Móseldalinn. Rómantík og náttúrufegurð lætur engan ósnortinn í Tríer, elstu borg Þýskalands, hinnar söguríku borgar Rómverja. Hún er rík af fornminjum og skartar jafnan sínu fegursta á aðventunni. Ljómi aðventunnar og ilmurinn af glöggi kemur okkur í jólastemningu í heillandi dagsferðum frá Tríer, m.a. til bæjarins Bernkastel-Kues, andlit Móseldalsins sem er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og miðaldablæ. Cochem er með fallegri bæjum við ána en hann státar af fögrum kastala sem gnæfir sem kóróna yfir bænum og dásamlegum jólamarkaði. Mikið er um dýrðir í Rüdesheim, yndislegum bæ við ána Rín sem er á heimsminjaskrá UNESCO og þar upplifum við hinn svonefnda jólamarkað þjóðanna. Aðventublærinn umvefur okkur í vínbænum Traben-Trarbach við ána Mósel en þar upplifum við sérstakan jólamarkað sem er einsdæmi og mikil hefð fyrir í fyrrum vínkjallara frá 16. öld. Einnig verður farið í töfrandi aðventusiglingu á Mósel og hin glæsilega borg Koblenz sótt heim, en hún stendur við ármót Mósel og Rín sem mætast við Deutsches Eck. Borgin státar af einum fallegasta jólamarkaði Móseldalsins.

Verð á mann í tvíbýli 219.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.200 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðventusigling á Mósel ca € 14.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. desember | Flug til Frankfurt & Tríer

Brottför frá Keflavík kl. 07:30 og lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Þaðan er ekin fögur leið til Tríer, elstu borgar Þýskalands. Þar verður gist í sjö nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið býður upp á heilsurækt í rómverskum stíl með sánu, rómversku gufubaði og legubekkjum til að slaka á eftir eril dagsins. 

3. desember | Aðventudýrð í Bernkastel-Kues & Cochem

Aðventudýrðin, rómantíkin og náttúrufegurðin láta engan ósnortinn í Móseldalnum á leið okkar til bæjarins Bernkastel-Kues. Hann er perla Móseldalsins, rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og töfrandi blæ miðalda. Hér gefum við okkur góðan tíma og njótum aðventunnar í þessum einstaka jólabæ. Enginn á ferð um dalinn á aðventunni skal láta jólamarkaðinn í Cochem fram hjá sér fara. Bærinn er með þeim fallegri við ána með glæsilegan kastala sem gnæfir yfir bæinn og setur mikinn svip á staðinn. 

4. desember | Skoðunarferð um Tríer & frjáls tími

Aðventutöfrar borgarinnar dyljast engum í spennandi skoðunarferð dagsins. Eftir góðan morgunverð skoðum við þessa elstu borg Þýskalands. Þar er að finna mjög merkilegar minjar frá tímum Rómverja, en þeir stofnuðu borg sem þeir nefndu Augusta Trevrorum árið 18-17 f. Kr. Hér er margt að sjá, töfrandi kirkjur, glæstar barokkbyggingar og ekki má gleyma borgarhliðinu, Porta Nigra frá 17 e. Kr. sem er tákn borgarinnar.

Skoðunarferðinni lýkur á aðaljólamarkaði borgarinnar og er upplagt að fá sér þar jólaglögg og ristaðar möndlur en ilmur þeirra svífur um loftin. Nú gefst frjáls tími til að skoða borgina á eigin vegum, rölta um verslunargötur og líta inn til kaupmanna borgarinnar sem eru fjölmargir. Upplagt að enda daginn á heilsulind hótelsins fyrir kvöldverð.

Opna allt

5. desember | Jólastemning í í Rüdesheim

Rüdesheim er hinn sanni jólabær við Rín sem alltaf er yndislegt að heimsækja. Við ökum til Bingen þar sem farið er með ferju yfir til Rüdesheim, eins vinsælasta ferðamannabæjar Rínardalsins. Í hjarta borgarinnar er hinn skemmtilegi jólamarkaður þjóðanna, en þar er hægt að versla fallegar gjafavörur og fylgjast með hvernig handverk frá hinum ýmsu þjóðum er unnið. Mikil jólastemning er um allan bæ og upplagt að ylja sér við jólaglögg og njóta lífsins.

6. desember | Dásemdardagur í Koblenz

Einn fallegasti jólamarkaður Móseldalsins er í borginni Koblenz og einkennist hann af yfir hundrað skreyttum smáhýsum. Borgin stendur við ármót Mósel og Rín og þar sem árnar renna saman heitir Deutsches Eck eða þýska hornið og er oft nefnt fallegasta horn Þýskalands! Við förum í töfrandi skoðunarferð um þessa sögufrægu, rúmlega 2000 ára gömlu borg, Koblenz. Gaman er að skoða gamla miðaldabæinn sem prýddur er glæstum byggingum, fallegum kirkjum, þröngum litlum götum og gömlum bindingsverkshúsum. Eftir skoðunarferð gefst frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum, rölta um gömul stræti og torg og ekki má láta dýrð jólamarkaðsins fram hjá sér fara. 

7. desember | Rólegur dagur í Tríer

Rólegur dagur er á dagskrá okkar og því er upplagt að njóta þess að vera í Tríer og skoða borgina betur á eigin vegum. Hægt er að rölta um verslunargötur og fara í skemmtilega vínsmökkun sem er víða í boði og hér má einnig heimsækja jólamarkaði borgarinnar. Einnig er upplagt að nota glæsilega heilsulind hótelsins.

8. desember | Traben Trarbach & aðventusigling á Mósel

Frægur er vínbærinn Traben-Trarbach við ána Mósel en hann heimsækjum við í dag. Hér upplifum við sérstakan jólamarkað sem er einsdæmi við ána og mikil hefð fyrir. Sá kallast vín- og jólamarkaður Mósel og er neðanjarðar undir bænum og þar upplifum við ótrúlega stemningu en kjallarinn sjálfur er frá 16. öld.  Þótt vín leiki ákveðið hlutverk þá er þema markaðarins menning og hér ber margt fallegt fyrir augu, handverk, hugmyndir að  jólagjöfum, antíkmarkaður, tískufatnaður og skart. Eftir góðan tíma verður farið í töfrandi siglingu þar sem boðið er upp á jólaglögg og jólastollen sem er ávaxtabrauð og tilheyrir aðventunni í Þýskalandi.

9. desember | Kveðjustund & heimferð

Það er komið að heimferð. Við ökum til Frankfurt en brottför þaðan er kl. 13:05. Lent í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Í bændaferðunum okkar svokölluðu er farið í einstaklega áhugaverðar rútuferðir um Evrópu og Kanada með fyrsta flokks íslenskum fararstjóra. Okkar markmið er að farþegar okkar öðlist einstaka ferðaupplifun á spennandi áfangastöðum í frábærum félagsskap. Rútuferð með Bændaferðum er afar góður kostur fyrir þá sem vilja fara í áhyggjulaust ferðalag. Í þeim er farið á milli staða þægilegri rútu, ljúffengur matur er í boði - borðaður í skemmtilegum félagsskap, svo ekki sé minnst á fararstjórann sem veitir mikið öryggi. Bændaferðirnar hafa einnig þá sérstöðu að óvenju mikið er innifalið í þeim; flug, flugvallagjöld og skattar, gisting í tveggja manna herbergi með baði, allar skoðunarferðir með rútu og hálft fæði. Oft skapast mikill vinskapur á milli ferðafélaganna í þessum ferðum og minningarnar sem skapast eru óteljandi. 

 
Finndu draumaferðina þína hjá Bændaferðum!

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir