Róm & Amalfíströndin

31. ágúst – 14. september 2019 (15 dagar)

Róm, Sorrento, Amalfíströndin og eyjan Caprí eru sannkallaðar draumaperlur Ítalíu en kynngimögnuð fegurð þessara staða umvefur okkur í ferðinni.

Hún hefst á flugi til Mílanó en þaðan heimsækjum við hina fögru Rómaborg sem var fyrsta borg heimsins til að ná einni milljón íbúa. Í borginni skoðum við Forum Romanum, Colosseum, Pantheon, Vatíkanið og Péturskirkjuna. Næst heimsækjum við hinn dásamlega Napólíflóa sem er einn fallegasti flói landsins og Sorrento, eftirsóttasta ferðamannabæ hans, þar sem við njótum ljúfra daga í slökun og notalegheitum. Á leið okkar þangað verður komið til Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar. Boðið verður upp á ævintýralega siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Við siglum bæði og ökum með Amalfíströndinni, sem er ein fallegasta strönd Ítalíu og farið verður í stórbrotna og töfrandi ferð upp á eldfjallið Vesúvíus sem gnæfir í allri sinni dýrð yfir Napólíflóa í 1.280 m hæð. Þar heimsækjum við líka vínbónda. Ferðin endar í bænum Marina di Massa í Toskana þar sem boðið verður upp á siglingu eftir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í Porto Venere, Monterosso og Riomaggiore. 

Verð á mann í tvíbýli 414.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 79.900 kr.

 
Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • 11 kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Ferja til og frá Caprí og litlir strætisvagnar um Caprí.
 • Sigling og ferð með smárútum meðfram Amalfíströndinni.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Þrír kvöldverðir í Róm.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.

Valfrjálst

 • Aðgangur að fornminjum í Pompei ca € 15.
 • Blái hellirinn ca € 28.
 • Stólalyfta upp á Monte Solaro fjallið á Capri ca € 11.
 • Sigling Cinque Terre ca € 30.
 • Aðgangur að Vesúvíus fjalli ca € 13.
 • Létt hádegishressing hjá vínbónda ca € 22.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

31. ágúst | Flug til Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 15:55. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:40 að staðartíma og ekið sem leið liggur á hótel í nágrenni við Mílanó þar sem gist er í eina nótt.

1. september | Heimsborgin Róm

Leið okkar liggur til hinnar einstöku Rómaborgar. Hún var byggð á sjö hæðum og var á blómaskeiði sínu fyrsta borg heims til að ná einni milljón íbúa. Gist verður í þrjár nætur í þessari sögufrægu borg.

2. september | Skoðunarferð um Rómaborg

Á dagskránni í dag er fróðleg skoðunarferð um hina fornu Rómaborg og munum við staldra við á helstu stöðum borgarinnar. Meðal þess sem skoðað verður er Piazza Venezia, Kapítólhæð, Forum Romanum, Palatínhæð og munum við koma að Colosseum, Treví brunninum og Spænsku tröppunum. Einnig verður frjáls tími til að kynnast borginni og mannlífinu eins og hverjum og einum lystir. 

Opna allt

3. september | Péturskirkjan og frjáls dagur í Róm

Eftir morgunverð verður haldið að Vatíkaninu og Péturskirkjunni, meistaraverkum síns tíma. Þeir sem vilja geta farið upp í kúpul kirkjunnar. Frjáls tími verður eftir hádegi og verður þá hægt að skoða Sixtínsku kapelluna og safn Vatíkansins á eigin vegum. Í boði verður að aka inn í miðbæinn fyrir þá sem vilja skoða sig betur um í borginni og þar er upplagt að líta í verslanir, fá sér ítalskan hádegisverð á einhverjum veitingastaðnum og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða. 

4. september | Róm, fornminjar í Pompei & Sorrento

Nú kveðjum við Róm og ökum til Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins. Sorrento er hrífandi bær í bröttum hlíðum. Í hlíðum hans vaxa ólífu-, appelsínu- og sítrónutré en þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Á leiðinni þangað verður stoppað í Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleikann um söguna. Áður en ekið verður aftur á hótel er upplagt að fá sér hádegishressingu. Þegar komið er á hótelið gefst góður tími til að nýta aðstöðu þess eða jafnvel skoða sig betur um í bænum. Gist verður í sex nætur í Sorrento á góðu hóteli.

5. september | Dagur í Sorrento við Napólíflóa

Dagurinn er tilvalinn í afslöppun. Fararstjórinn býður upp á stutta skoðunarferð um bæinn og eftir það er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento, eins eftirsóttasta ferðamannabæjar á Sorrento skaganum. Í bænum er fjöldinn allur af einstaklega heillandi þröngum, gömlum götum og afskaplega fögrum kirkjum og glæstum byggingum. 

6. september | Sigling til Caprí

Í dag höldum við í siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans. Við skoðum eyjuna, siglum að Bláa hellinum Grotta Azzurra og förum upp til Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Jafnframt verður hægt að fá sér hressingu og líta á kniplinga og alls kyns handunnar vefnaðarvörur, dúka, klæði og fatnað. 

7. september | Sigling & rúta með Amalfíströndinni

Haldið verður í töfrandi dagsferð um Amalfíströndina þar sem fegurðin er svo sannarlega einstök. Við hefjum ferðina á siglingu meðfram ströndinni til hins dásamlega bæjar Amalfí, þar sem við stígum á land og skoðum okkur um. Á rölti um bæinn sjáum við glæsilega dómkirkju frá 10. öld, heillandi veitinga- og kaffihús og litlar verslanir sem gaman er að kíkja inn í. Því næst verður ekið til bæjarins Ravello sem stendur í um 350 m hæð en þaðan gefur að líta ægifagurt útsýni yfir alla strandlengjuna, eins langt og augað eygir. Þar er einnig að finna hina gullfallegu höll Rufoli, þar sem tónskáldið Richard Wagner var gestkomandi um tíma og fékk þar innblástur að óperu sinni Parsifal. Ekið verður með smárútum til baka eftir Amalfíströndinni milli smábæja sem hanga utan í klettabrúninni. Hvarvetna gefur að líta dásamlegt landslag á þessari fallegustu strandlengju Ítalíu. Við mælum eindregið með því að gestir gæði sér á grilluðum fiski í hádeginu, sem er einn helsti sérréttur íbúa svæðisins.

8. september | Rólegheit & slökun

Þennan dag gefst heill dagur til þess að slaka á og njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Sorrento er líflegur og skemmtilegur bær, þar er margt að skoða og tilvalið að kíkja í verslanir eða á kaffi- og veitingahús. Einnig er hægt að slaka á við sundlaug hótelsins eða ganga niður að strandlengjunni.

9. september | Eldfjallið Vesúvíus & hressing hjá vínbónda

Stórbrotin og glæsileg ferð upp á eldfjallið Vesúvíus en það gnæfir í allri sinni dýrð yfir Napólíflóa í 1.280 m hæð og er mjög trúlega 200.000 ára gamalt. Eitt af þekktustu gosum fjallsins var árið 79 e. Krist en þá eyðilögðust borgirnar Pompei, Stabiae og Herculanum. Eftir góðan tíma upp á Vesúvíus fjallinu verður vínbóndi sóttur heim og þar boðið upp á létt snarl um leið og við fræðumst um vínrækt á stuttri göngu um vínakur hans. 

10. september | Frjáls dagur í Sorrento

Frjáls dagur í Sorrento sem upplagt er að njóta í rólegheitum. Einnig er hægt að taka ferjubát til Positano sem er einn af vinsælustu og með glæsilegustu bæjum Amalfístrandar með töfrandi baðströnd og fallegum miðbæjarkjarna. Ef áhugi er til staðar gæti fararstjóri verið fús til að leiða hópinn í skoðunarferð þangað.

11. september | Sorrento & Marina di Massa

Þá kveðjum við þennan góða stað eftir notalega daga. Ekin verður heillandi leið í gegnum Toskana hérað til Marina di Massa þar sem gist verður í þrjár nætur. Á hótelinu er hótelgarður með útisundlaug. Hótelið er staðsett við baðströndina. Í bænum kennir einnig margra grasa menningar- og mannlífs sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

12. september | Sigling úti fyrir Cinque Terre

Þessi dagur er heilt ævintýri því nú verður farið í ótrúlega siglingu úti fyrir brattri Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar þar sem litríkum húsunum er tyllt utan í klettana. Siglt verður til bæjanna Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum bæjum.

13. september | Frjáls dagur í Marina di Massa

Dagur í slökun og gott að njóta þess að rölta um götur Marina di Massa sem er mjög heillandi og fallegur bær við Versillia ströndina. Einnig er gaman að fara í gönguferð með ströndinni og njóta náttúrufegurðar staðarins.

14. september | Heimferð frá Mílanó

Eftir góðan morgunverð munum við aka til heimsborgarinnar Mílanó. Byrjað verður á að fara í stutta skoðunarferð um þessa fögru borg áður en frjáls tími verður gefinn. Þá er hægt að kanna borgina á eigin vegum, skoða dómkirkjuna sem er eitt af meistaraverkum Gottneskrar byggingalistar, fara upp á þakið á kirkjunni en þaðan er fagurt útsýni yfir borgina eða líta inn á kaupmenn hennar sem eru ófáir. Upplagt er að fá sér létta hressingu áður en ekið er út á flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 22:40 og lent í Keflavík kl. 00.55 að staðartíma aðfaranótt 15. september.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir