Tatrafjöllin, Kraká & Prag

10. – 24. ágúst 2019 (15 dagar)

Paradís Tatrafjalla í Slóvakíu, Kraká í Póllandi og gullborgin Prag í Tékklandi eru meðal hápunkta þessarar glæsilegu ferðar. Menning, saga og náttúrufegurð fara hér saman og láta engan ósnortinn.

Ferðin hefst í borginni Krems í Wachau vínhéraðinu, sem stendur á heillandi stað við ána Dóná. Á leið til gömlu konungsborgarinnar Bratislava, höfuðborgar Slóvakíu, verður Vínarborg heimsótt. Við komum á Tatra svæðið, sem er að mati margra með mikilfenglegustu stöðum Evrópu. Þar ríkja aldagamlar hefðir og sögur úr fjallaþorpum óma um fjallasali. Við skoðum sögufræga landsvæðið Spiš sem var mikilvægasta landnámssvæði Þjóðverja á 14. öld, kynnum okkur Lubovna kastala sem tilheyrði einni mestu kastalabyggð í Mið-Evrópu, reynum skemmtilega prammasiglingu á ánni Dunajec og heimsækjum ævintýraborgina Kraká. Einnig komum við til Brno, gömlu keisaraborgarinnar í Tékklandi og gullborgarinnar Prag, sem er ein af fegurstu borgum Evrópu og var ein helsta menningarmiðstöð álfunnar um aldir. Að endingu heimsækjum við svo Regensburg í Bæjaralandi.

Verð á mann í tvíbýli 338.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 94.600 kr.

 
Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Veisla á veitingastað við ánna 16. ágúst í stað kvöldverðar á hóteli.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Miðaldakastalinn Špilberk ca € 10.
 • Prammasigling á áni Dunajec ca € 12.
 • Aðgangur að Lubovna kastala ca € 6.
 • Aðgangur í saltnámurnar Wieliczka ca € 21.
 • Aðgangur í gullgötuna og Hradčany kastalann ca € 17.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. ágúst │ Flug til München

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til borgarinnar Krems í Wachau. Þetta vínhérað, sem er á heillandi stað við ána Dóná er með vinsælustu ferðamannastöðum í Austurríki. Þar verður gist í tvær nætur.

11. ágúst │ Dagur í Krems

Eftir góðan morgunverð verður farið í skemmtilega gönguferð um Krems. Upplagt væri síðan að fá sér hádegishressingu, skoða mannlífið og njóta náttúrufegurðar Wachau héraðsins en vínrækt er mikil á þessu svæði og óhætt að segja að hún sé eitt helsta stolt heimamanna. 

12. ágúst │ Vínarborg & Bratislava í Slóvakíu

Í dag tökum við stefnuna á höfuðborg Slóvakíu, gömlu konungsborgina Bratislava. Á leiðinni getum við ekki sleppt því að heimsækja höfuðborg Austurríkis, Vínarborg, en borgin sem stendur á bökkum Dónár, er talin með glæsilegri borgum Evrópu. Eftir stutta skoðunarferð, létta hádegishressingu og frjálsan tíma í Vínarborg verður haldið áfram til Bratislava. Vínarborg og Bratislava eiga það sameiginlegt að hin fræga og fallega Dóná rennur í gegnum þær báðar og setur hún svo sannarlega svip á borgirnar. Í Bratislava gistum við í tvær nætur. 

Opna allt

13. ágúst │ Skoðunarferð um Bratislava & frjáls tími

Í dag höldum við í skemmtilega skoðunarferð um Bratislava. Borgina prýðir fjöldinn allur af glæsilegum byggingum, höllum og kirkjum. Eitt helsta tákn hennar er Bratislava kastalinn sem trónir tignarlegur yfir gamla bænum en saga hans nær allt aftur á 11. öld. Saga borgarinnar tvinnast yfir langt tímabil, frá Keltum yfir til Rómverja, Ungverja, Gyðinga og auðvitað Slóvaka. Farið verður um helstu staði borgarinnar og er mjög áhugavert að ganga að Primatal höllinni sem var höll erkibikups Esztergon á árunum 1778 – 1781.

14. ágúst │ Tatrafjöllin

Við kveðjum Bratislava og ökum töfrandi leið upp í Tatrafjöllin, sem er minnsti fjallahryggur Evrópu en án efa eitt áhugaverðasta svæði Slóvakíu. Tatra svæðið er með fegurstu náttúruparadísum í Evrópu en þar eru yfir 30 fjöll, öll um og yfir 2.500 m hæð. Þeirra á meðal er hæsti tindur landsins, Gerlachovský štít, 2.655 m á hæð. Á svæðinu eru yfir 100 háfjallavötn, nánast í hverju dalverpi. Gist verður þrjár nætur í bænum Tatranská Lomnica við rætur fjallsins Lomnický štít á einum fegursta stað fjallanna. 

15. ágúst │ Töfrandi hringferð um Tatra

Á hringferð um töfrandi náttúruparadís Tatrafjalla upplifum við ekki aðeins dásemdir náttúrunnar heldur kynnumst við aldagömlum hefðum íbúa fjallaþorpanna á Tatra svæðinu þegar við skoðum okkur um í nokkrum þeirra. Þeir sem vilja geta farið í gönguferð um þetta fallega svæði með fararstjóranum en aðrir geta skoðað sig um í einu af þessum dásamlegu fjallaþorpum.

16. ágúst │ Spiš, prammasigling & Lubovna kastali

Í dag verður ekið um eitt sögufrægasta landsvæði Slóvakíu, Spiš, en það var eitt mikilvægasta landnámssvæði Þjóðverja á 14. öld. Við byrjum á því að stoppa við Lubovna kastala og Skanzen þar sem við fáum innsýn í horfna tíma. Seinna förum við í mjög skemmtilega prammasiglingu á ánni Dunajec. Lagt er af stað frá borginni Červený kláštor og siglt 11 km eftir ánni sem rennur á landamærum Slóvakíu og Póllands. Þegar við höfum stigið á land að nýju verður efnt til skemmtilegrar veislu á veitingastað við ána, í stað kvöldverðar á hótelinu.

17. ágúst │ Wieliczka saltnámurnar & Kraká

Við kveðjum Tatrafjöllin en þaðan verður ekin töfrandi leið um Pieniny þjóðgarðinn á leiðinni til Kraká í Póllandi. Kraká er með fegurstu borgum landsins og hefur engin borg landsins varðveitt eins margar hefðir og töfra. Í námunda við Kraká skoðum við saltnámurnar Wieliczka sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og hafa verið á lista UNESCO yfir heimsminjar síðan 1978. Við gistum tvær nætur í Kraká.

18. ágúst │ Skoðunarferð um Kraká

Kraká er stundum kölluð Flórens norðursins en í höfuðborginni sátu pólsku konungarnir um langa hríð og þykir undrun sæta að borgin hafi aldrei verið lögð í rúst. Menning og  sögulegar og glæstar byggingar gera hana að vinsælustu borg landsins. Farið verður í skoðunarferð en einnig gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum.

19. ágúst │ Mæri héraðið & Brno

Í dag ökum við skemmtilega leið yfir til borgarinnar Brno í Tékklandi og njótum á leiðinni dásamlegs útsýnis yfir Mæri héraðið. Brno er höfuðborg Jihomoravský héraðs og önnur stæsta borg Tékklands. Farin verður skoðunarferð um þessa gömlu keisaraborg sem er í dag með virtari háskólaborgum landsins, einkar lífleg og skemmtileg. Til gamans má geta að hún er heimaborg fararstjórans ykkar, Pavels. Gist verður í miðborg Brno í eina nótt. 

20. ágúst │ Kutná Hora & gullborgin Prag

Við kveðjum Brno og höldum leið okkar áfram til borgarinnar Kutná Hora. Þar skoðum við eina af þekktari kirkjum Tékklands en hún er skreytt með mörg þúsund mannabeinum. Að skoðunarferð lokinni verður hádegisverður og vínsmökkun á góðum veitingastað í miðbænum. Því næst höldum við ferðinni áfram til gullborgarinnar Prag þar sem minningar miðalda, menning og listir setja svip sinn á borgina. Hér gistum við í þrjár nætur á hóteli í hjarta borgarinnar. 

21. ágúst │ Skoðunarferð um Prag & frjáls tími

Fyrri part dags verður farin skoðunarferð um Prag. Íbúar borgarinnar eru 1,2 milljón en Prag hefur verið ein helsta menningarmiðstöð Evrópu um aldir. Farið verður að helstu ferðamannastöðum í borginni meðal annars Karlsbrúnni og torginu Václavské náměstí svo eitthvað sé nefnt. Eftir hádegi gefst tími til að kanna borgina og setjast inn á kaffihús og fylgjast með mannlífinu. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn en hann prýðir ein af frægustu stjörnuklukkum veraldar.

22. ágúst │ Hradčany kastali & frjáls tími

Við hefjum daginn á skoðunarferð um Hradčany kastalann sem hefur verið bústaður forseta lýðveldisins síðan 1918. Þarna hófst uppbygging á 9. öld og fursta- og biskupsdæmið í Prag hefur verið staðsett þarna frá 973. Þetta svæði er einn sérstæðasti hluti Prag. Upplagt er að skoða sig betur um í borginni síðdegis og kanna þessa einstöku borg sem heillar alla með dásemdum sínum.

23. ágúst │ Regensburg

Kveðjum Prag eftir yndislega daga en nú verður ekin fögur leið til Regensburg í Þýskalandi, sem er töfrandi borg og ein af gömlu rómversku borgunum en elsti hluti hennar er á minjaskrá UNESCO. Hér verður gist síðustu nóttina.

24. ágúst │ Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir