Gullna eyjan Malta

Hér er ævintýraleg ferð til litlu, fallegu eyjarinnar Möltu, sjálfstæðs lýðveldis syðst í Miðjarðarhafinu. Í ferðinni kynnumst við sögu og menningu eyjarskeggja en við gistum í bænum St. Paul´s Bay. Margar töfrandi ferðir verða í boði, m.a. að hvítu klettaströndinni Dingli þar sem hvítir, sæbrattir klettar blasa við. Mdina virkisbærinn er á sérlega fallegu bæjarstæði og við ökum um Buskett, aldingarð eyjarinnar þar sem finna má sítrónu- og appelsínuakra. Virkisbærinn Rabat er einstaklega hrífandi og státar m.a. af katakombum. Við eigum viðburðaríkan dag í glæsilegu höfuðborginni Valletta sem svonefndir Mölturiddarar stofnuðu. Í töfrandi siglingu til Gozo, systureyju Möltu, förum við fram hjá eyjunni Comino. Skoðunarferð á Gozo sýnir okkur undurfallega eyju sem lætur engan ósnortinn. Hér fara saman gróðursæld og notaleg smáþorp með steinhlöðnum húsum og heillandi mannlífi. Calypso hellirinn er við fallegustu sandströnd eyjarinnar, hina rauðu Ir-Ramla l-Ħamra. Við heimsækjum Victoria, höfuðstað Gozo, með volduga virkinu sem gnæfir sem kóróna yfir borginni. Marsaxlokk, litli sjávarbærinn með smábátana sína, er einstaklega heillandi og sigling út í Bláa hellinn svíkur engan. Glæsilegt ævintýri endar með gömlu bæjarþrenningunni, eins og bæirnir þrír Vittoriosa, Cospicua og Senglea eru kallaðir, þar sem farið verður í skemmtilega siglingu um sögufrægu höfnina á móti höfuðborginni Valletta. 

Verð á mann í tvíbýli 349.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 54.900 kr.

Hægt er að senda fyrirspurn á hótelið fyrir tveggja manna herbergi með sjávarsýn. Fáist það staðfest kostar það 18.800 kr. aukalega á mann (ekki í boði fyrir einbýli). Hafið samband við Bændaferðir í síma 570-2790 til að bóka herbergi með sjávarsýn.

Innifalið

 • 9 daga ferð.
 • Flug og flugvallarskattar með Lufthansa.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allir drykkir með kvöldverði.
 • Létt snarl hjá maltneskum vínbónda.
 • Sigling yfir á eyjuna Goza.
 • Dæmigerður hádegisverður að hætti íbúa Goza.
 • Sigling að Bláa hellinum.
 • Sigling um sögufrægu og stóru höfnina í Valletta.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir aðrir en nefndir eru í ferðalýsingu.
 • Aðgangur að hofum Hagar Qim ca € 9.
 • Aðgangur í kirkjuna í Valletta ca € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. september | Mæting upp á flugvöll um kl. 22:00

Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför en flogið verður frá Keflavík með Lufthansa til Frankfurt með næturflugi.

24. september | Flug til München & Möltu

Flogið kl. 00:25. Lending í Frankfurt kl. 05:55 að staðartíma. Flogið verður áfram með Lufthansa til Möltu kl. 09:25 og lendum þar kl. 11:55 að staðartíma. Ekið verður á hótel í bænum St. Paul´s Bay þar sem gist verður í átta nætur. Á hótelinu eru inni- og útisundlaugar og bar sem er uppi á þaki hótelsins. Einnig er heilsulind í márískum stíl með gufubaði, heitum potti og heilsurækt.

25. september | Dingli klettar, Mdina & Rabat

Við byrjum daginn á akstri um töfrandi hvíta klettaströndina Dingli við Miðjarðarhafið. Fegurðin er stórbrotin þar sem hvítir sæbrattir 200 m háir klettarnir rísa tígulegir úr hafi. Á leið okkar til hrífandi miðalda- og virkisbæjarins Mdina verður ekið um aldingarð eyjarinnar, Buskett garðinn, þar sem margt er að sjá. Eftir góðan tíma í Mdina verður ekið til Rabat, annars spennandi virkisbæjar, sem státar af áhugaverðum katakombum, sem eru grafreitir gyðinga frá 3. öld. Þetta er áhugavert að skoða en ein áhugaverðasta katakomban er heilags Páls postula. Einn vegginn prýðir málverk frá 12. öld. Katakomburnar voru notaðar sem loftvarnarbirgi í seinni heimstyrjöldinni. Í lok dags verður maltneskur vínbóndi heimsóttur en þar verður boðið upp á vínsmökkun og smá snarl áður en ekið verður til baka á hótel.

Opna allt

26. september | Skemmtilegur dagur í Valletta

Þetta verður dýrðarinnar dagur í höfuðborginni Valletta sem var valin ein af menningarborgum Evrópu árið 2018. Umhverfis hana er eitthvert öflugasta varnarmannvirki í víðri veröld sem gerir borgina ómótstæðilega og töfrandi. Þessi fallega borg var stofnuð af riddurum Jóhannesarreglunnar á 16. öld en þeir voru einnig nefndir Mölturiddarar. Borgin er mjög lítrík og skemmtileg og er prýdd glæsilegum barrokkbyggingum sem eru lýsandi dæmi um blómatíma borgarinnar. Margt er að skoða og upplifa í borginni og það gerum við í áhugaverðri skoðunarferð. Nægur tími gefst einnig til að sitja á huggulegu kaffi- eða veitingahúsi og njóta mannlífsins.

27. september | Frjáls dagur í St. Paul‘s Bay

Frjáls dagur í slökun og rólegheitum. Nú er upplagt að nota frábæra aðstöðu hótelsins eða fá sér göngu með ströndinni og um bæinn sem er líflegur og skemmtilegur. St. Paul‘s Bay bærinn er einn vinsælasti ferðamannastaður eyjarinnar en hér búa um rúmlega 20.000 íbúar. Einnig er hægt að taka strætisvagn til Valetta höfuðborgarinnar sem er í 16 km fjarlægð frá bænum.

28. september | Sigling yfir á eyjuna Gozo

Töfrandi sigling til Gozo, systureyju Möltu, sem er undurfalleg. Gróðursæld er mikil og á ferð okkar um eyjuna sjáum við græna akra og gömul heillandi smáþorp með steinhlöðnum húsum, umkringd vínökrum. Víða sjást fallegar klettavíkur með kristalstærum sjó. Sennilega er skemmtilegast að upplifa sérstaklega hlýlegt viðmót íbúa, það hrífur alla. Á leið okkar skoðum við Calypso hellinn sem er við fallegustu sandströnd Gozo eyjarinnar, rauðu Ramla-I-Hamra ströndina. Sagt er að þetta sé hellirinn sem Homer nefnir í goðsögnum af Ódysseif. Okkur verður boðið í hádegisverð á veitingahúsi þar sem við smökkum dæmigerða eyjamáltíð. Eftir hádegi verður höfuðstaður eyjarinnar sóttur heim. Victoria er borg með litlum þröngum götum, varin voldugu virki sem trónir sem kóróna yfir borginni. Það var reist á tímum Mölturiddara en þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og sveitir eyjarinnar.

29. september | Marsaxlokk & Blái hellirinn

Litli sjávarbærinn Marsaxlokk tekur á móti okkur í allri sinni dýrð í dag, hann er á allan hátt mjög töfrandi. Litlu bátarnir í höfninni og úti á sjónum eru í öllum regnbogans litum sem er sérstaklega táknrænt fyrir bæinn. Íbúarnir lifa eingöngu á fisveiðum og ferðaþjónustu. Útimarkaður þorpsins er einstaklega líflegur og við gefum okkur vitaskuld drjúgan tíma hér. Næst verður ekið til Wied iz-Zurrieq sem er annað sjávarþorp. Þaðan verður siglt með ströndinni að Bláa hellinum sem er töfrandi fagur. Toppum daginn með því að skoða hin fornu hof Hagar Qim sem standa rétt við dimmblátt Miðjarðarhafið. Þessi áhugaverðu hof eru á heimsminjaskrá UNESCO og eru frá 3.500-2.800 árum fyrir Krist.

30. september | Bæjaþrenningin Vittoriosa, Cospicua & Senglea

Í dag röltum við um gömlu bæina þrjá sem eru á fallegum töngum á móti Valletta höfuðborginni. Þetta eru hrífandi litlir bæir sem gaman er að aka um. Eftir það verður farið í skemmtilega bátsferð um sögulegu og stóru höfnina í Valletta. Einnig verður gefinn tími til að njóta lífsins, fá sér hressingu og líta inn á kaupmenn staðarins.

1. október | Frjáls dagur í St. Paul´s Bay

Rólegheit og frjáls dagur í St. Paul´s Bay. Við njótum þess að vera á þessum fagra stað og upplagt er að nota aðstöðuna á hótelinu okkar.

2. október | Heimferðardagur

Eftir yndislega daga verður ekið út á flugvöll. Flugið er með Lufthansa og brottför frá Möltu kl. 12:45 og lending í Frankfurt kl. 15:25. Brottför þaðan til Keflavík með Lufthansa kl. 21:50. Lending á Íslandi kl. 23:30 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir