Konungleg sigling á Signu

Hér bjóðum við upp á konunglega siglingu á Signu um Normandí í Frakklandi frá París, borg ástarinnar, að Ermarsundi og til baka. Þetta er leiðin sem vígbúnir víkingar sigldu forðum. Mögnuð saga mannlífs við ána fylgir okkur, sagnir af stoltum riddurum, konungum og örlögum Jóhönnu af Örk.

Flogið er til Parísar og þar stigið um borð í MS Renoir sem léttir akkerum og líður af stað. Á meðan á siglingunni stendur verður farið í skoðunarferðir í landi t.d. verða Versalir, einhver stórkostlegasta konungshöll Evrópu, heimsóttir. Siglt verður til Rouen og þaðan í Honfleur sem er einstaklega litríkur og skemmtilegur bær á Côte de Grâce ströndinni. Nokkrir áhugaverðir staðir við Ermarsund verða á vegi okkar og má nefna Le Havre sem iðulega er talin ein af heimsborgum Evrópu og Étretat sem einkum er kunn fyrir einstaka krítarkletta á ströndinni. Á siglingunni til baka njótum við friðsældar Normandí með eplatrjám, ökrum, fornum klaustrum, kirkjum og aldagömlum bæjum. Við komum við í Giverny, heimabæ meistara Claude Monet, þar sem finna má eina frægustu vatnaliljutjörn í heimi. Glæsilegt ferðalag endar svo í heimsborginni París. 

Verð á mann í tvíbýli 359.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 78.900 kr.

 
Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • 8 daga fljótasigling á Signu með MS Renoir.
 • Gisting 7 nætur á skipinu MR Renoir í káetum með sturtu, salerni og loftkælingu.
 • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á MS Renoir.
 • Allir drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og kaffi.
 • Móttökudrykkur á skipinu og allir drykkir á bar (fyrir utan drykki á sérseðli).
 • Hátíðarkvöldverður á skipinu.
 • Aðgangseyrir inn í höllina og garðinn í Versölum.
 • Aðgangseyrir inn í Claude Monet húsið og garðinn.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk farastjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Þjórfé fyrir áhöfnina ca. 20 € á mann.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

22. maí | Flug til París & Skipið Ms Renoir

Brottför frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 12:55 að staðartíma. Hér bíður okkar MR Renoir, lúxusfley byggt árið 1999 en árið 2018 var það algjörleg endurhannað. Það er 110 m langt og tekur 100 farþega. Allar innréttingar eru sérlega glæsilegar t.a.m. setustofa með bar og veitingasalur þar sem bornar eru fram allar veitingar. Loftkældar káeturnar voru stækkaðar og eru innréttaðar með góðum rúmum, salerni, sturtu, hárblásara, sjónvarpi, öryggishólfi og stórum útsýnisglugga. Á sólardekki eru legubekkir, borð og stólar. Þjónað er til borðs í hádeginu og á kvöldin en á meðan siglingu stendur er innifalið fullt fæði, drykkir með mat og flestir drykkir á bar. Þegar farþegar hafa komið sér fyrir í káetum eru allir boðnir velkomnir með fordrykk í setustofunni þar sem áhöfnin kynnir sig. Eftir það verður öllum boðið inn í matsal í ljúffengan kvöldverð. Að honum loknum er upplagt að setjast inn í setustofu og fá sér drykk undir ljúfri tónlist eða taka með sér drykk upp á sólardekk. Skipið liggur við festar í París yfir nótt.

23. maí | Poissy, Versalir & Vernon

Við kveðjum París, festar leystar og MS Renoir líður frá borg ástarinnar á meðan við borðum morgunverð. Við njótum morgunsins um borð, tíminn líður og fyrr en varir er skipið að leggjast að bryggju í Poissy. Nú verður farið í stutta rútuferð að Versölum, einni af dýrlegustu höllum veraldar sem Louis XIV lét reisa á sínum tíma. Þar verður boðið upp á skoðunarferð um höllina sem er með 100 herbergjum og glæsilegum speglasal. Höllin var mjög sögulegur og örlagaríkur staður eftir frönsku byltinguna og einnig eftir seinni heimstyrjöldina en hér var Versalasamningurinn undirritaður. Höllin og garðurinn, sem er eitt listaverk, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir þessa dýrðar heimsókn verður ekið aftur að skipi, festar leystar og stefnan tekin á Vernon. Við njótum náttúrufegurðar Normandí á leiðinni en þar liggur skipið við festar í nótt.

24. maí | Vernon & Rouen

Snemma morguns kveðjum við Vernon. Á meðan við snæðum morgunverð tekur kafteinninn stefnu á Rouen, höfuðstað austurhluta Normandí. Þessi leið er undur fögur þar sem áin hlykkjast fram hjá köstulum og klaustrum sem eru einkennandi fyrir sögu landsins. Hápunktur dagsins er vafalaust þegar við sjáum Château Gaillard, miðaldakastalann frá 1196 sem blasir við uppi á kalkkletti. Farið er í gegnum skipaskurð Amfreville og siglt hjá Pont d‘Arc brúnni. Eftir hádegisverð er komið til Rouen „gotnesku borgarinnar“ en hún er sannkallað safn gotneskrar byggingalistar. „Borg hinna hundrað kirkjuklukkna“ er hún stundum kölluð og er þekkt fyrir margar fallegar byggingar en frægust er dómkirkjan Notre Dame. Farið verður í skoðunarferð um borgina og komið m.a. á torgið þar sem bálför Jóhönnu af Örk fór fram. Einnig er mjög gaman að taka rölt um miðaldarbæinn þar sem yfir 700 bindiverkshús prýða hann. Skipið liggur við festar hér í nótt og eftir kvöldverð er hægt að taka rölt um borgina eða njóta þess að sitja inni í setustofu eða uppi á sólardekki.

Opna allt

25. maí | Rouen & Honfleur

Árla morguns yfirgefur skipið Rouen og fljótlega breytist landslagið og við förum að finna fyrir áhrifum frá Ermasundi. Áin hlykkjast um og breiðir úr sér og umferð skipa eykst. Upplagt er að fá sér sæti á sólardekki og njóta einstakrar náttúrufegurðar og síbreytilegra mynda sem landslagið tekur á sig. Sídegis verður komið að landi í Honfleur, litríks og skemmtilegs bæjar við Côte de Grace ströndina. Hér er gaman að rölta á eigin vegum um gömlu höfnina sem hefur ekkert breyst frá 17. öld. Elstu húsin í bænum byggðu skipasmiðir á 15. öld. Það skýrir hvers vegna auðvelt er að líkja þeim við tveggja hæða skip. Kvöldverður um borð og skipið liggur við festar hér í nótt.

26. maí | Honfleur, Le Havre, Étretat & Fécamp

Eftir ljúfan morgunverð verður farið í rútuferð með Atlandshafsströndinni. Fyrst er komið til Le Havre við ósa Signu. Hún er ein af heimsborgum Evrópu en hún fór mjög illa í árásum Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Auguste Perret, einn af frægustu arkitektum 20. aldar, var fenginn til að sjá um uppbyggingu borgarinnar sem hófst árið 1944. Árið 2005 var borgin skráð á heimsminjaskrá UNESCO vegna einstaks arkitektúrs. Ferðin heldur áfram til hins vinsæla og fagra baðstrandarbæjar Étretat. Hann er umvafinn sérstökum krítarklettum og þar á meðal er „Aiguille“ kletturinn (nálin) og klettahliðið. Einnig er gaman að líta við í gömlu markaðshöllinni sem í dag er listasafn. Að lokum verður staldrað við í sjávarþorpinu Fécamp sem státar af töfrandi staðsetningu við Alabaster strönd og náttúrulegum sjarma. Það er þess virði að líta inn í kirkju heilagrar þrenningar, höll hertogans af Normandí og áhrifamikið er að líta inn í Benediktina höllina en þar er samnefndur kryddlíkjör búin til. Nú bíður hádegisverður eftir okkur á MR Renoir svo við yfirgefum Honfleur með stefnu á Vernon. Um kvöldið bíður okkar hátíðarkvöldverður á veitingastað skipsins. Eftir það verður boðið upp á dans og drykk í setustofunni.

27. maí | Vernon, Giverny, Mantes-la-Jollie & Paris

Eftir morgunverð leggjum við af stað í stutta ferð til litla bæjarins Giverny. En hér er að finna eina frægustu vatnaliljutjörn í heiminum sem var fyrirmynd á einu þekktasta málverki Claude Monets. Hér stendur hús hans með munum sem listamaðurinn hafði safnað, japanskt prent og keramik, en húsið er umvafið fallegum garði. Eftir þessa hrífandi heimsókn verður ekin fögur leið til Mantes-la-Jolie þar sem skipið bíður okkar. Það sem eftir lifir dags njótum við að sigla um fjölbreytt og fagurt landslag Normandí með sínum frjósömu ökrum og eplatrjám. Undir kvöld nálgumst við síðan París. Það er mikil upplifun að sigla inn í borgina og heppilegt að njóta þess frá sólardekkinu. Skipið liggur síðustu tvær nætur við akkeri í París.

28. maí | Dagur í heimsborginni París

Þessi dagur er tileinkaður heimsborginni París. Nú verður farin skoðunarferð um borgina á rútu. Við ökum um helstu staði hennar m.a. Concord torgið, Sigurbogann, Eiffelturninn,
Louvre safnið, Champs-Elysées, Invalidendom og Notre Dame kirkjuna frægu. En borgin hefur ótrúlega mikið upp á að bjóða og ekki hægt að ætla sér að sjá allt og upplifa. Hádegisverður bíður eftir okkur á skipinu og að honum loknum er frjáls tími til að skoða sig betur um í borginni. Fara á safn eða líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir. Síðasta kvöldmáltíðin er borðuð á skipinu en síðan er tækifæri til að fara aftur um kvöldið inn í borg eða bara njóta þess að vera á skipinu.

29. maí | Heimflug frá París

Nú er komið að því að kveðja áhöfnina eftir glæsilega siglingu með MR Renoir og kveðja jafnframt dýrðina í París. Brottför þaðan kl. 14:10 og lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir