Upplifðu París

17. – 21. maí 2018 (5 dagar)

Hin dásamlega Parísarborg er aldrei meira heillandi en einmitt á vorin. Okkar frábæri fararstjóri Laufey er hér á heimaslóðum og veitir okkur einstaka innsýn inn í þessa vinsælustu borg í heimi. Allt það helsta sem hér er að sjá mun hún leiða okkur fyrir sjónir og fræða okkur um staðhætti og sögu. Louvre safnið, Champs-Elysées verslunargatan, Concorde torgið, Notre Dame, Montmartre og Sacre Cæur eru bara nokkrir af þeim fjölda mörgu stöðum sem við sjáum. Fyrir hádegi eru skemmtilegar skoðunarferðir en síðdegið er ætíð frjálst svo hverjum einum er í lófa lagið að taka sér þá tíma til að njóta þeirra dýrða sem heilla mest, hvort sem það eru söfn, verslanir, kaffihús, skrúðgarðar eða byggingarlist.

Verð á mann í tvíbýli 149.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 53.600 kr.

 
Innifalið

 • 5 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður á hótelinu.
 • Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu fyrsta kvöldið.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir og þrír kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Louvre safnið ca. € 17.
 • Eiffelturninn með lyftu ca. € 25

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

17. maí | Flug til Parísar

Brottför frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending á Charles De Gaulle flugvelli í París kl. 12:55 að staðartíma. Ekið verður beint á hótelið og frjáls tími seinnipart dagsins.

18. maí | Hápunktar Parísar

Nú skal líta á allar þær fögru perlur sem París hefur að geyma. Fyrir hádegi verður farið í rútuferð að merkustu stöðum borgarinnar s.s. Bastillutorginu, Nýju Óperunni, Hotel de Ville, Louvre safninu og glerpýramídanum, Palais Garnier höllinni, Place Vendome torginu, verslunargötunni Champs-Elysées ásamt Invalide byggingunni sem hýsir safn og Panthéon grafhýsið. Lúxembourgargarðinn ber líka fyrir augu. Stoppað verður á Concorde torginu og við Palais de Chaillot, þar sem útsýnið er best yfir Eiffelturninn. Ef tími vinnst til verður líka litið inn í hina víðfrægu Notre Dame kirkju. Síðdegis er kjörið að kanna betur á eigin vegum þá staði sem vöktu mestan áhuga í skoðunarferðinni, t.d. bregða sér upp í Eiffelturninn.

19. maí | Montmarte hverfið

Þennan dag bregðum við undir okkur betri fætinum og röltum um hið líflega Montmarte hverfi. Á 19. öld var þetta kyrrlátt þorp í útjaðri Parísar, en svo tóku hæfileikaríkir listamenn víðsvegar að úr heiminum að setjast hér að. Þar má nefna tónskáldið Berlioz, rithöfundinn Heinrich Heine, en einkum voru það listmálararnir sem settu svip sinn á hverfið, eins og Picasso, Renoir, Lautrec og fleiri. Rauða Myllan eða Moulin Rouge er í hverfinu og er til vitnis um blómatíma hverfisins. Í gönguferðinni fáum við keiminn af þorpsstemmningunni sem enn ríkir hér, sjáum götumálara við Place de Tertre, litrík kaffihús, vinnustofur listamanna, kabaretta og sögufræga staði eins og St. Pierre og Sacré Cæur kirkjurnar. Síðdegis gefst tími til að skoða hverfið ögn betur. Tilvalið er að setjast á eitthvað af þessum dásamlegu kaffihúsum og njóta þess að horfa á iðandi mannlífið.

Opna allt

20. maí | Mýrin - aðalshverfi

Mýrin, eða Le Marais er eitt elsta og best varðveitta hverfi Parísar. Hér fara saman ótal smáhallir frá 17. öld, lágreist hús og öngstræti. Reynt er að takmarka umferð um hverfið og hér mega rútur ekki aka. Við förum því fótgangandi um þessar þröngu gömlu götur, fræðumst um glæsilíf íbúa hallanna á 17. og 18. öld og sögu byltingarinnar. Gengið verður framhjá öllum þekktustu herragörðunum, Picasso safninu og um frægustu göturnar, Place des Vosges, Rue des Francs-Bourgeois, Rue de Sévigné, Rue Payenne, Rue des Archives og fleiri. Enn er síðdegið frjálst, en í París er óendanlega mikið af söfnum sem vert er að heimsækja.

21. maí | Heimferð

Þá er komið að lokum þessarar frábæru ferðar. Eftir morgunverð verður haldið út á flugvöll, en brottför er kl. 14:10 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Laufey Helgadóttir

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður býr og starfar í París og Reykjavík. Hún er íslenskum ferðamönnum að góðu kunn, en hún hefur starfað sem fararstjóri í París árum saman og leiðsagt Íslendingum um sjónvíddir og kima borgarinnar. Hún er öllum hnútum kunnug i borginni og þekkir hana betur en margur annar. Laufey vinnur einnig við leiðsögn á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn á sumrin, en ásamt því hefur hún skrifað greinar um myndlist, unnið við að skipuleggja sýningar, en hún var m.a. sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árin 2003 og 2005.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir