Aðventusveifla í Suður-Tíról

Bjarmi aðventunnar og heillandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari frábæru ferð til Suður-Tíról á Ítalíu. Ljósadýrðin og aðventustemningin er hvarvetna mikil á þessum yndislega tíma. Ferðin byrjar inn á milli Alpafjallanna í Brixen í Suður-Tíról. Þaðan verður farið í skemmtilegar skoðunarferðir, m.a. til miðaldabæjarins Trento í Trentino héraði en hann líkist helst litlu jólaþorpi með fjölmörgum jólahúsum upp við gömlu virkisveggina. Mikið er um aðventudýrð í bænum St. Ulrich í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð. Farið verður með kláfi upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu, þaðan sem stórkostlegt útsýni er yfir tinda Alpafjallanna.. Einnig verður komið til heilsubæjarins Merano sem er einstaklega heillandi. Við endum þessa ljúfu aðventuferð í austurrísku borginni Innsbruck í Tíról en borgin þykir afar heillandi enda ævintýralega skreytt og umlukin Alpafjöllunum.

Verð á mann í tvíbýli 289.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 26.600 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Höllina Buonconsiglio u.þ.b. € 12. 
  • Kláfur upp á Seiseralm u.þ.b. € 20.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. nóvember | Flug til München & Brixen í Suður-Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin hrífandi leið um stórbrotin Alpafjöllin, yfir Brennerskarð og niður til Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu þar sem gist verður í fimm nætur. Á hótelinu er innisundlaug, heilsulind, líkamsrækt, tyrknest bað, sauna og nuddpottur.

30. nóvember | Aðventudýrð í Trentino

Aðventan í hinni heillandi Trentino borg er töfrandi. Borgin er umvafin mikilli fjallafegurð og einkum er heimafjallið Monte Bonado tilkomumikið. Hér ætlum við að njóta dagsins. Undurfagur miðaldabærinn líkist helst litlu jólaþorpi með fjölmörgum jólahúsum við gömlu virkisveggina. Þetta er einstaklega hrífandi sjón og angan aðventunnar sem fyllir vit svíkur engan. Við förum í stutta göngu um borgina sem á sér langa sögu. Hér er t.d. höllin Buonconsiglio, stærsta höll Alpafjalla. Einstakar freskur skreyta höllina og eru eitt merkasta sýnishorn gotneskrar listar í Evrópu. En margt fleira er hægt að upplifa í borginni. Krókóttar, þröngar götur, myndskreyttar, litlar hallir í göngugötunni Giro al Sas og ekki má gleyma dómkirkjunni og Neptunnbrunni sem eru tákn borgarinnar. Hér gefst líka nægur tími til að njóta gleði aðventunnar á aðventumarkaðinum og upplifa líf bæjarbúa á eigin vegum.

1. desember | Dagur í Brixen

Þennan dag ætlum við að njóta þess að vera í rólegheitum í Brixen en í þessum hlýlega 20.000 manna bæ finnast gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætast árnar tvær Eisack og Rienz sem, ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum, gera Brixen að einstaklega heillandi og fallegum stað. Við förum í stutta göngu saman en eftir það verður frjáls tími til að njóta. Á dómkirkjutorginu er iðandi jólamarkaður og mikið um dýrðir.

Opna allt

2. desember | Aðventutöfrar í Merano

Aðventan er yndislegur tími í Tíról. Í 40.000 manna borginni Merano mætast ólíkir menningarheimar Ítalíu og Austurríkis og segja má að hér finnist það besta frá báðum löndum. Borgin var áður fyrr höfuðborg Tírólahéraðs í Austurríki en blómatími hennar var á 19. öld. Þá varð bærinn þekktur sem heilsubær en heitar lindir eru á svæðinu. Hér er loftslagið sérlega milt og því eru frjósöm ávaxtahéruð allt í kringum borgina. Miðbærinn er yndislegur, sér í lagi á aðventunni, með skemmtilegum, þröngum götum, yfirbyggðum súlnagöngum og iðandi mannlífi. Hér förum við í göngu um elsta hluta bæjarins og lítum á jólamarkaðinn en eftir það verður tími til að njóta aðventustemningarinnar á eigin vegum, fá sér hressingu og jólaglögg sem tilheyrir þessum tíma.

3. desember | St. Ulrich & Seiseralm

Glæsilegur dagur í bænum St. Ulrich í dalnum Val Gardena (Grödner dal) sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekktur fyrir tréútskurðarlistaverk. Einnig er hann fæðingarbær Sigurðar Demetz óperusöngvara og kennara, kvikmyndaleikarans Luis Trenker og popptónskáldsins Giorgio Moroder. Hér er mikil aðventustemning og eftir ljúfan tíma verður farið með kláf upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu og tilheyrir Dólómítum Ítalíu. Það er ekki að undra að hluti Everest kvikmyndarinnar hafi verið tekin upp á þessum slóðum. Upplifum þar stórkostlegt útsýni yfir Alpafjöllin og í senn róandi og endurnærandi andrúmsloft.

4. desember | Brixen, Sterzing & Innsbruck í Tíról

Nú kveðjum við Brixen eftir yndislega daga og ekið verður til Innsbruck í Tíról í Austurríki þar sem gist verður í tvær nætur á góðu hóteli í miðbænum. Á leiðinni þangað verður áð í endurreisnarbænum Sterzing sem er töfrandi á aðventunni. Nú heldur ferðin áfram til Innsbruck sem var ein af borgum Habsborgaranna, einnar valdamestu keisaraættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg en hann lét byggja helstu kennileyti borgarinnar, húsið með gullþakinu sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról og Hofburg höllina. Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á herbergjum verður farið í skemmtilega göngu um hinn glæsilega miðaldahluta borgarinnar og auðvitað endum við á jólamarkaði hennar.

5. desember | Innsbruck

Nú er frjáls dagur í borginni sem er mjög heillandi og ekki hægt annað en að dást að ævintýralegum skreytingum borgarinnar, enda Grimmsævintýrin frægu gjarnan notuð sem þema. Hægt er að líta inn á kaupmenn í göngugötunni Maria Theresien Straße en þar er alltaf líf og fjör. Einnig er upplagt að fá sér eitthvað í svanginn á einhverjum af hinum hlýlegu austurrísku veitinga- eða kaffihúsum og kannski örlitla lögg af jólaglöggi á einum aðventumarkaði borgarinnar.

6. desember | Heimferð

Eftir þessa söguríku og endurnærandi ferð verður ekið af stað á flugvöllinn í München. Brottför þaðan er kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir




Póstlisti