Aðventusveifla í Suður-Tíról
29. nóvember - 6. desember 2023 (8 dagar)
Bjarmi aðventunnar og heillandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari frábæru ferð til Suður-Tíról á Ítalíu. Ljósadýrðin og aðventustemningin er hvarvetna mikil á þessum yndislega tíma. Ferðin byrjar inn á milli Alpafjallanna í Brixen í Suður-Tíról. Þaðan verður farið í skemmtilegar skoðunarferðir, m.a. til miðaldabæjarins Trento í Trentino héraði en hann líkist helst litlu jólaþorpi með fjölmörgum jólahúsum upp við gömlu virkisveggina. Mikið er um aðventudýrð í bænum St. Ulrich í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð. Farið verður með kláfi upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu, þaðan sem stórkostlegt útsýni er yfir tinda Alpafjallanna.. Einnig verður komið til heilsubæjarins Merano sem er einstaklega heillandi. Við endum þessa ljúfu aðventuferð í austurrísku borginni Innsbruck í Tíról en borgin þykir afar heillandi enda ævintýralega skreytt og umlukin Alpafjöllunum.