25. - 30. nóvember 2022 (6 dagar)
Í faðmi fjallanna er einstakt að vera á aðventunni og Tíról í Austurríki er alger ævintýraheimur.
Við hefjum ferðina í heimsborginni München á aðaljólamarkaði borgarinnar áður en haldið er áfram til Seefeld, yndislegs bæjar í fjöllum Austurríkis. Bærinn hvílir í sal Wetterstein-, Mieminger- og Karwendel fjalla og verður hann okkar dvalarstaður í þessari aðventuferð. Við heimsækjum miðaldaborgina Brixen, elstu borg Tíróls á Norður-Ítalíu, þar sem finna má stórfenglegan barokkarkitektúr við rætur töfrandi Alpanna. Farið verður til hinnar einstaklega heillandi alpaborgar Innsbruck sem er á sama tíma lífleg, alþjóðleg og aðlaðandi. Kristalsheimur Swarovski í Wattens verður skoðaður en hann er í sérstökum jólabúningi á þessum árstíma. Eins heimsækjum við borgina Kufstein, upplifum einstakan jólamarkað þar og förum í miðaldakastalann sem gnæfir yfir borginni með sínu heimsfræga útiorgeli. Hér er á ferðinni einstök ferð um yndislegt svæði sem skartar sínu fegursta á aðventunni.