Aðventublær í Bamberg

30. nóvember – 7. desember 2018 (8 dagar)

Aðventan í Þýskalandi er heillandi og mikil jólastemning er í borgum og bæjum.

Ferðin hefst í borginni Bamberg sem byggð er á sjö hæðum en elsti hluti borginnar fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1993. Þetta er yndisleg borg sem við njótum og hrífumst af. Komið verður til gömlu ríkis- og virkisborgarinnar, Nürnberg, þar sem finna má elsta jólamarkað landsins og merkar byggingar vitna um sögu liðins tíma. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í borginni Würzburg í vínhéraðinu Franken. Ljósadýrð Würzburg er töfrandi á aðventunni, en þar má finna einn skemmtilegasta jólamarkað landsins. Áð verður í Bayreuth, tónlistarborg Richards Wagners, sem hefur að geyma eitt af merkustu óperuhúsum sinnar tegundar í heiminum. Við borðum kvöldverð hjá vínbónda í Frankenvínhéraði, skoðum miðaldavirkisbæinn Rothenburg ob der Tauber og hrífumst af fallegu bindingsverkshúsum bæjarins og líflegum jólamarkaði. 

Verð á mann í tvíbýli 184.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Kvöldverður hjá vínbónda og vínsmökkun.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.


 

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

30. nóvember | Flug til München & Bamberg

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Frá flugvelli verður ekið beint til Bamberg þar sem gist verður í 3 nætur. Elsti hluti þessarar sögufrægu borgar býr yfir merkum byggingum frá miðöldum. Fáar borgir hafa náð að varðveita sögu sína svo vel. Þessar þröngu götur og fornu byggingar gefa Bamberg rómantískan blæ sem nýtur sín sérstaklega vel á aðventunni.

1. desember | Skemmtilegur dagur í Bamberg

Eftir notalegan morgunverð verður farið í skemmtigöngu um Bamberg. Borgin er lítil, en íbúar hennar eru um 71.000. Þrátt fyrir smæðina prýða hana margar merkar byggingar s.s. dómkirkjan, höll biskupsins, Karmelitaklaustrið og gamla ráðhúsið. Ekki má gleyma reykbjórnum sem “Schlenkerla” kráin er fræg fyrir. Aðventumarkaðir borgarinnar eru töfrandi og jólastemming hrífandi.

2. desember| Dagur í Nürnberg

Farið verður í dagsferð til Nürnberg, þessarar gömlu ríkis- og virkisborgar, sem er önnur  stærsta borg Bæjaralands. Það er ótrúlegt en satt að nærri 90% allra bygginga í borginni skemmdust í seinni heimsstyrjöldinni, en stór hluti þeirra hefur verið endurbyggður í upprunalegri mynd. Farið verður í skoðunarferð um borgina en svo verður frjáls tími til að kanna hana á eigin vegum, fá sér hressingu og upplifa aðventustemminguna á einum elsta og frægasta jólamarkaði Þýskalands. Þá er upplagt að við fáum okkur heitan jóladrykk saman. 

Opna allt

3. desember | Bayreuth & Würzburg

Þá höfum við vistaskipti og ökum til Würzburg, sem á sér langa sögu og er þar margt að skoða. Á leiðinni verður ekið um Oberfranken-hérað, sem er þekkt fyrir sérstakt og fallegt landslag. Stoppað verður í Bayreuth, tónlistarborg Richards Wagners, sem hefur að geyma eitt af merkustu óperuhúsum sinnar tegundar í heiminum. Þar verður gefin frjáls tími til að kanna umhverfið, skoða í verslanir og fara á jólamarkaðinn, sem er mjög líflegur. Síðan verður ekið til Würzburg þar sem gist verður í 4 nætur.

4. desember | Dagur í Würzburg & kvöld hjá vínbónda

Þetta er mjög falleg og lífleg borg og mikið um dýrðir á aðventunni. Borgin varð fyrir miklum skemmdum í seinni heimsstyrjöldinni en hefur verið byggð upp í sinni upprunalegu mynd. Það eru 85 kirkjur í borginni, en íbúar eru um 130.000. Hér er einn áhugaverðasti jólamarkaður Þýskalands og gott verslunarhverfi, fyrir utan allt annað sem hægt er að skoða og upplifa. Um kvöldið snæðum við kvöldverð hjá vínbónda í Frankenhéraði og njótum kvöldsins í skemmtilegheitum og góðum félagsskap.

5. desember | Rothenburg ob der Tauber

Byrjum daginn í rólegheitum en eftir morgunverð liggur leið okkar til borgarinnar Rothenburg ob der Tauber sem er engri lík. Farið verður í stutta skoðunarferð um bæinn og sagan kynnt enda eru minjar miðalda áberandi. Þegar gengið er um er hægt að ímynda sér glæsta riddara miðalda þeysa um göturnar. Hér er að sjálfsögðu einnig hægt að heimsækja jólamarkaðinn sem er á torgi miðbæjarins, eða ganga á borgarmúrnum, fara í ferð um bæinn á hestvagni og fá sér drykk á gamaldags knæpu.

6. desember | Frjáls dagur í Würzburg

Frjáls dagur í Würzburg til að kanna borgina betur á eigin vegum. Margt er að skoða í borginni, mörg áhugaverð söfn, töfrandi aðventumarkaðir og glæsilegt verslunarhverfi. Einnig eru mjög hugguleg, gamaldags kaffi- og veitingahús í borginni.

7. desember | Heimferð frá Frankfurt

Nú er komið að heimferð eftir dýrðar daga. Eftir morgunverð verður ekið til Frankfurt. Brottför þaðan kl. 13:25 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki og Færeyjar. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir