Aðventuævintýri í Colmar

Við hefjum ævintýralega aðventuferð í borginni Colmar í Alsace héraði þar sem fallegustu aðventumarkaðir Frakklands finnast. Borgir og bæir skarta sínu fegursta hvert sem farið er og ilmur frá jólaglöggi og piparkökum svífur um hvarvetna.

Colmar er ævintýri líkust um þessar mundir, einstaklega falleg borg og þekkt fyrir listileg bindingsverkshús. Krókóttar, þröngar götur eru einstaklega hrífandi, ekki síst listamannahverfið, sem er kallað litlu Feneyjar. Við förum í nokkrar dagsferðir m.a til Strassburg, höfuðborgar Alsace héraðsins, sem er sérstaklega glæsileg og í siglingu á ánni Ill. Aðventublærinn fylgir okkur um vínslóðina í Alsace, en þar verður áð í yndislega bænum Obernai og í Riquewihr upplifum við einstakt jólaævintýri inn á milli gömlu bindingsverkshúsanna. Freiburg, sem státar af óviðjafnanlegu meistaraverki gotneska tímans og hrífandi handverksmarkaði, verður á leið okkar einn daginn. Þetta aðventuævintýri endar í Friedrichshafen við Bodensee vatnið. Á leið okkar þangað verður áð í Konstanz, sem er sérstaklega heillandi á þessum tíma árs.

Verð á mann í tvíbýli 189.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 48.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.


 

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling í Strassburg ca. € 13.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

3. desember | Flug til Frankfurt & Colmar

Brottför verður frá Keflavík kl. 7:30, en mæting í Leifsstöð er um 2 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Ekin verður fögur leið inn í Frakkland til undurfögru borgarinnar Colmar í Alsace héraðinu, þar sem gist verður í 5 nætur í hjarta bæjarins. Þegar allir hafa komið sér fyrir á hótelinu, röltum við saman á einhvern hinna fimm aðventumarkaða bæjarins. Hér er upplagt að fá sér jólaglögg og brenndar möndlur fyrir kvöldverð, það tilheyrir á þessum tíma.

4. desember | Ljúfur dagur í Colmar & frjáls tími

Colmar er dásamleg borg á aðventunni og ótrúlega margt að sjá. Hér fara saman listileg bindingsverkshús og þröngar, dulúðlegar götur. Listamannahverfið, sem er eitt fallegasta hverfi bæjarins, er upplýst á aðventunni og engu líkt. Eftir góðan morgunverð byrjum við daginn á að fara í fróðlega skoðunarferð um borgina en eftir það verður dagurinn í ykkar höndum. Nú er að njóta aðventutöfra bæjarins, líta inn í skemmtilegar litlar verslanir og setjast inn á notaleg kaffi- eða veitingahús í gamla bænum.

5. desember | Aðventan í Strassborg & sigling á Ill

Strassborg, höfuðborg Alsace héraðsins verður heimsótt í dag. Við byrjum á að fara í ljúfa siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina. Það er spennandi að skoða glæsibyggingar hennar af ánni en einnig er siglt að byggingum Evrópuþingsins. Borgin býr yfir miklum sjarma sem við munum kynnast á göngu okkar um fallegar götur hennar.Við skoðum þá bindingsverkshúsin, kíkjum á dásamlegan jólamarkaðinn og skoðum stolt þeirra, Müsterkirkjuna. Þar er varðveitt mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Einnig gefst hverjum og einum tækifæri á að upplifa borgina á eigin vegum og njóta aðventustemningar borgarinnar. Þá er gaman að rölta um listamannahverfið, Petite France eða litla Frakkland.

Opna allt

6. desember | Vínslóðin til Obernai & Riquewihr

Vínslóðin svonefnda í Alsace verður ekin í dag. Við þræðum ótal snotur smáþorp og byrjum á því að stoppa í Obernai. Það er yndislegur bær, sérlega jólalegur með haganlega gerðum bindingsverkshúsum og töfrandi aðventumarkaði. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Riquewihr. Hér upplifum við einstakt jólaævintýri, en bærinn er vissulega ein af perlum Alsace héraðsins. Hér er þekkt jólabúð sem vert er heimsækja. Í öðru hverju húsi bæjarins má finna vínkjallara með afurðum af svæðinu og allstaðar hægt að líta inn og smakka á framleiðslunni.

7. desember | Aðventutöfrar í Freiburg

Eftir ljúfan morgunverð verður ekið til Freiburg en þar komum við inn í suðurhluta Svartaskógar. Freiburg er borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Við skoðum okkur um á skemmtilegum jólamarkaði sem stendur við gotnesku kirkjuna. Þar má finna afar fallegt handverk. Kirkjan er eitt að meistaraverkum gotneskrar byggingalistar og auðvitað lítum við þar inn. Hér verður gefinn frjáls tími til að upplifa þessa líflegu borg. Hún er alltaf heimsóknar virði, sér í lagi á aðventunni. Tækifæri gefst til að líta inn til kaupmanna borgarinnar og njóta sín á einhverjum hinna fimm aðventumarkaða sem eru dreifðir um borgina. 

8. desember | Konstanz, Meersburg & Friedrichshafen

Nú kveðjum við Colmar eftir yndislega daga. Stefnan verður tekin á Friedrichshafen en á leiðinni þangað verður áð í bænum Konstanz við Bodensee vatnið sem er heillandi á aðventunni. Þar gefum við okkur tíma til að upplifa aðventutöfra borgarinnar og fá okkur hressingu. Seinna verður tekin ferja yfir Bodensee vatn til Meersburg og ekið þaðan til Friedrichshafen. Þar verður gist í 2 nætur á góðu hóteli alveg við Bodensee vatn. Aðventumarkaður borgarinar er í göngufæri frá hóteli okkar við vatnið.

9. desember | Hrífandi aðventa í Friedrichshafen

Nú verður frjáls dagur í Friedrichshafen. Unaðslegt er að rölta um og njóta sín á fagra stað við Bodensee vatnið. Aðventumarkaður borgarinar með 65 jólahúsum er stutt frá hótelinu við vatnsbakkann og þar er einnig stórt skautasvæði. Svo er hægt að fara í rómantíska aðventusiglingu á vatninu, skreppa á kaffihús og skella í sig hnallþórusneið í leiðinni. Margir notalegan veitingastaðir eru við vatnið. Verslunarhverfi borgarinnar er sömuleiðis stutt frá hótelinu.

10. desember | Heimferð & kveðjustund

Eftir þessa ljúfu daga í Colmar og við Bodensee vatnið verður ekið á flugvöllinn í München. Brottför þaðan er kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir