Jólaferð til Regensburg

Skemmtileg jólaferð til borgarinnar Regensburg í Bæjaralandi. Þessi dulræna miðaldaborg á sér meira en 2.000 ára sögu allt frá tímum Rómverja og hefur hún um árabil verið á heimsminjaskrá UNESCO. Aðventan er alveg einstakur tími í Þýskalandi, þegar ljúfan ilminn af jólaglöggi og ristuðum möndlum leggur yfir borg og bæi og tendrar sanna jólastemningu í hjörtum fólks. Regensburg er þar engin undantekning og skartar sínu allra fegursta á aðventunni. Farið verður í áhugaverða skoðunarferð um borgina, gengið að gamla ráðhúsinu og Haidplatz torginu með gistihúsinu Goldenes Kreuz frá 13. öld en þar dvöldu konungar og keisarar á ferðum sínum. Við lítum á gamlar miðaldabyggingar, turnhús aðalsmannanna, sjáum Golíat húsið og steinbrúna frægu. Í Regensburg er að finna eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar í Bæjaralandi, dómkirkjuna, en þar er starfandi einn frægasti drengjakór landsins, Regensburger Domspatzen. Einnig verður farið í dagsferð til Nürnberg sem býður okkur velkomin á elsta jólamarkað Þýskalands.

Verð á mann í tvíbýli 122.200 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 16.400 kr.


Innifalið

 • 4 daga ferð.
 • Flug með Icelandair til München og flugvallaskattar.
 • Ferðir milli München flugvallar og hótels.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður.
 • Skoðunarferð um Regensburg.
 • Skoðunarferð til Nürnberg.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegis- og kvöldverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. nóvember │ Flug til München & Regensburg

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Stefnan er tekin á Regensburg, en borgin á sér stórmerkilega sögu allt frá tímum Rómverja fyrir um 2000 árum og er á heimsminjaskrá UNESCO. Gist verður þrjár nætur á hóteli í miðbæ borgarinnar. Upplagt að skoða sig um í bænum og líta á töfrandi jólamarkaðinn sem er staðsettur rétt við hótelið.

29. nóvember │ Skoðunarferð um Regensburg & frjáls tími

Í dag byrjum við á spennandi skoðunarferð um borgina. Við göngum að gamla ráðhúsinu og Haidplatz torginu með gistiheimilinu Goldenes Kreuz frá 13. öld. Þar dvöldu konungar og keisarar á ferðum sínum fyrr á tímum. Við lítum á gamlar miðaldabyggingar, gömlu turnhús aðalsmannanna, sjáum Golíat húsið frá 13. öld og ekki má gleyma steinbrúnni frægu. Regensburg státar af einu meistaraverki gotneskrar byggingarlistar í Bæjaralandi, dómkirkjunni, en þar er starfandi einn frægasti drengjakór landsins Regensburger Domspatzen. Eftir skoðunarferðina er hverjum frjálst að skipuleggja það sem eftir lifir dags eftir eigin hentisemi. 

30. nóvember │ Dagsferð til Nürnberg

Í dag förum við í glæsilega ferð til Nürnberg, gömlu ríkis- og virkisborgarinnar, en hún er önnur stærsta borg Bæjaralands. Það er ótrúlegt að hugsa sér að 90% allra bygginga í borginni hafi skemmst í seinni heimsstyrjöldinni, en stór hluti þeirra var endurbyggður í upprunalegri mynd. Við förum í áhugaverða skoðunarferð um borgina, en svo gefst frjáls tími til að líta inn í einhverjar af fjölmörgum verslunum borgarinnar eða fara á elsta og frægasta jólamarkað Þýskalands. Upplagt er að hópurinn endi skoðunarferðina þar saman og sötri einn bolla af sætu og sjóðandi heitu Glühwein. 

Opna allt

1. desember │ Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 13:05 og er lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Hótel

Hótel Münchner Hof

Hótel Münchner Hof hótelið er staðsett í gamla bænum í Regensburg. Fjöldi veitingastaða og verslana er í næsta nágrenni og einungis tekur um 2 mínútur að ganga að dómkirkjunni. Líka er stutt á jólamarkaðinn. Á hótelinu, sem er fjögurra stjörnu og fjölskyldurekið, er hvert herbergi mismunandi, eða eins og eigendur hótelsins lýsa því, þá segir hvert herbergi sína sögu. Herbergin 52 eru með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi, síma og skrifborði. Þráðlaust internet er á herbergjum og í móttökunni.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir