Aðventusveifla í Salzburg & Tíról

Wolfgang Amadeus Mozart, 600 ára arfleifð erkibiskupa, Söngvaseiður með Julie Andrews í fararbroddi og land eplabökunnar, dansandi strengjabrúðna og kastala. Við bjóðum upp á glæsilega aðventuferð til Austurríkis og hefjum ferðina í borg barokksins, hinni stórkostlegu Salzburg. Borgin er einstök á aðventunni og jólamarkaður hennar einn sá elsti í Evrópu og einn sá fallegasti í heimi. Rétt fyrir utan borgina gefa djúp gil, glitrandi íshellar og goðsagnakennd fjöll tóninn. Heimsækjum St. Gilgen og siglum út til St. Wolfgang á vatninu Wolfgangsee. Eftir yndislega daga í Salzburg förum við til virkisbæjarins Kufstein. Kufstein liggur við fætur hins mikla fjallgarðs Kaisergebirge og í miðjum bænum trónir Kufstein kastalinn en að dvelja þar er líkast því að vera staddur í myndskreyttu ævintýri. Einnig verður farið í dagsferð á einstakan aðventumarkað á eyjunni Fraueninsel á vatninu Chiemsee. Í þessari draumaferð gefst kjörið tækifæri til að koma sér í jólastemningu og upplifa allt það sem aðventan í Austurríki hefur upp á að bjóða. 

Verð á mann 199.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.800 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling á Wolfgangsee ca € 8.
 • Sigling á Chiemsee ca € 10

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. desember | Flug til München & Salzburg

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Ekið til Salzburg í Austurríki, borgar barokksins og fæðingarborgar Mozarts. Hér verður gist í 4 nætur á hóteli í borginni þar sem töfrar aðventunnar mæta okkur en jólamarkaðurinn í Salzburg er talinn einn sá fallegasti í heimi. 

2. desember | Stutt skoðunarferð um Salzburg & frjáls tími

Við hefjum daginn á skoðunarferð um þessa yndislegu borg. Byrjum í Mirabell garðinum og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er m.a. að finna mjög áhugavert Mozart-safn. Farið verður um Gullgötuna á leiðinni að dómkirkjunni og á Mozart-torgið svo fátt eitt sé nefnt. Einnig gefst tími til að kanna iðandi mannlíf borgarinnar og jólamarkaði sem eru um alla borg. Tilvalið er að líta á Hohensalzburg kastalann en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður eða The Sound of Music tekinn upp. Kastalinn setur heillandi svip á borgina og við hann er einnig jólamarkaður sem er vel þess virði að skoða. 

3. desember | Wolfgangsee

Vatnið Wolfgangsee, sem nefnt er eftir dýrlingnum heilögum Wolfgang af Regensburg, liggur við rætur hins 1783 m háa Schafbergfjalls. Við hefjum daginn á því að aka til hins ægifagra bæjar St. Gilgen, fæðingarbæjar móður Mozarts. Þar gefum við okkur tíma fram að hádegi en höldum þá í siglingu yfir til St. Wolfgang. Bærinn er m.a. þekktur fyrir hótelið Weißes Rössl, sögusvið heimsfrægrar óperettu, Im Weißen Rössl am Wolfgangsee, en einnig fyrir altaristöflu gotnesku kirkjunnar eftir Michael Pacher. Við gefum okkur góðan tíma til að kanna bæinn en upplagt væri að fá sér hádegishressingu á einu af veitinga- eða kaffihúsi bæjarins og njóta náttúrufegurðarinnar við vatnið. Skemmtilegur dagur framundan við þetta þekktasta vatn Salzkammergut héraðs.

Opna allt

4. desember | Frjáls dagur í Salzburg

Borgin snýst svo sannarlega ekki eingöngu um Mozart og Söngvaseið, en hún býður upp á ríka listasenu, frábæra veitingastaði, rólegar hliðargötur og hljómar klassísk tónlist víðsvegar um borgina. Gamli bærinn í Salzburg lítur að mörgu leyti út líkt og fyrir 250 árum þegar Mozart lifði og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1996. Í dag er frjáls dagur svo nú er um að gera að skoða sig betur um í borginni á eigin vegum og njóta aðventudýrðarinnar. Upplagt er að skella sér á söfn, kíkja í búðir eða setjast á kaffi- eða veitingahús og virða fyrir sér mannlífið.

5. desember | Kufstein - perla Tíról

Í dag kveðjum við Salzburg og ökum til bæjarins Kufstein í Tíról. Kufstein er oft kallaður perla Tíróls, eftir samnefndum jóðlslagara, Die Perle Tirols, sem Karl Ganzer gerði frægan árið 1970. Bærinn er sérlega fallegur og er jólamarkaðinn að finna í almenningsgarði bæjarins. Miðaldakastalinn Kufstein trónir yfir bænum en kastalinn er frægur fyrir tilkomumikið útiorgel, svokallað Hetjuorgel, en í hádeginu dag hvern er leikið á orgelið til minningar um þá sem féllu í heimstyrjöldunum tveimur. Orgelhljómarnir óma frá turni kastalans og endurkastast í þverhníptum fjöllunum í kring. Mögulegt er að fara í skoðunarferð um kastalann og hverfa um hríð aftur í aldir. Í kastalagarðinum má sjá skapandi handverk sem verið er að vinna þar á aðventunni en við kastalann er einnig einstakur jólamarkaður. Farið verður í stutta skoðunarferð um Kufstein. 

6. desember | Aðventumarkaðurinn á Fraueninsel

Í dag ökum til Prien, þaðan sem við siglum yfir til Fraueninsel. Chiemsee er stærsta stöðuvatn Bæjaralands og einstaklega vinsæll áfangastaður vegna náttúrufegurðar og vatnaíþrótta á sumrin. Á móti okkur tekur hins vegar rómantískt vetrarævintýri sem hrífur til sín gesti nær og fjær ár hvert, jólamarkaðurinn á eyjunni Fraueninsel. Hátíðleg lýsing, gæða listmunir, óvenjulegar gjafahugmyndir og ilmandi lostæti umlykja þennan einstaka aðventumarkað í bæverska hafinu, eins og Bæjarar kalla Chiemsee iðulega. Á eyjunni er einnig 8. aldar klaustrið Frauenwörth en það er eitt elsta klaustur Bæjaralands. 

7. desember | Frjáls dagur í Kufstein

Yfirráð Kufstein gengu á milli Bæjaralands og Tíról í gegnum aldirnar en árið 1814 heyrði Kufstein endanlega undir Austurríki. Þeir sem hafa áhuga geta farið í hálftíma lestarferð til bæjarins Oberndorf en þar er m.a. hægt að skoða kapelluna þar sem hið þekkta jólalag Heims um ból var frumflutt fyrir 200 árum síðan.

8. desember | Heimferð & kveðjustund

Eftir þessa töfrandi aðventuferð verður ekið rakleiðis á flugvöllinn í München. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma

Fararstjóri getur fært milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00