Aðventuhljómur í Heidelberg
27. nóvember – 2. desember 2022 (6 dagar)
Aðventan í Heidelberg er einstök. Það vantar svo sannarlega ekki jólastemninguna og ilmurinn af jólaglöggi og smákökum liggur í loftinu. Við fljúgum til Frankfurt og höldum þaðan til Heidelberg sem er ein af fallegustu borgum landsins. Borgin, sem stendur á bökkum árinnar Neckar, er ein elsta háskólaborg Þýskalands og ber miðbærinn þess merki með einstaklega áhugaverðum gömlum byggingum, sérlega fallegri dómkirkju og glæsilegu höllinni Heidelberg sem gnæfir tignarlega yfir borgina og er komin er á skrá UNESCO. Við förum í dagsferð til Strassborgar, höfuðborgar Alsace héraðsins í Frakklandi, sem er sérstaklega glæsileg á þessum tíma en þar verður farið í töfrandi siglingu á ánni Ill. Einnig verður dagsferð til Rüdesheim, yndislegs bæjar við ána Rín sem er á heimsminjaskrá UNESCO og þar upplifum við hinn svonefnda jólamarkað þjóðanna. Hér er mjög gaman að fara úr miðbænum með kláfi yfir vínhæðirnar að minnisvarða sem byggður var seint á 19. öld til minningar um fyrri sameiningu Þýskalands. Við munum líka eiga rólegan tíma í Heidelberg en ljósadýrðin þar er heillandi á þessum árstíma og finna má mjög skemmtilega aðventumarkaði á víð og dreif um alla borgina.