Aðventuprýði í Prag

Í þessari skemmtilegu aðventuferð gistum við í þremur heillandi borgum. Í hverri þeirra kynnumst við fagurlega skreyttum jólamörkuðum með fjölbreyttum varningi og sýnishorni af því dæmigerða í mat og drykk heimamanna.

Við hefjum ferðina í Pilsen í Tékklandi sem var menningarborg Evrópu árið 2015 og höldum í skemmtilega skoðunarferð um þessa fögru borg. Farið verður í Pilsner Urquelle bjórverksmiðjuna þar sem við skoðum verksmiðjuna, fræðumst um framleiðsluna og gæðum okkur á gullinni afurðinni. Í heimsborginni Prag setja menning, listir og dulúð miðaldasvip sinn á þessa dýrðlegu borg og eru mikilfengleg mannvirki hvarvetna, þ.á.m. Karlsbrúin, Hradčany kastalinn og ráðhúsið með stjörnuklukkunni. Á aðventunni er borgin einstaklega heillandi og er lífleg jólastemning um alla borg. Við endum þessa notalegu aðventuferð í Passau í Þýskalandi sem stendur við ármót Dónár, Inn og Ilz. Þar er að finna einstaklega fallegan jólamarkað í hjarta borgarinnar, á sjálfu dómkirkjutorginu.

Verð á mann 209.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 41.700 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • 6 kvöldverðir á hótelum.
 • 1 kvöldverður, 8. desember, á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Pilsen hjá Pilsen Urquelle bjórbrugghúsið og safn ca € 14.
 • Aðgangur í gullgötuna og Hradčany kastalann ca € 13.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5. desember │ Flug til München & Pilsen (Plzeň)

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Héðan verður ekin um þriggja tíma leið til Pilsen í Tékklandi, þar sem gist verður í eina nótt. Á tékknesku gengur borgin undir nafninu Plzeň, en þar sem Tékkland tilheyrði Austurríki lengi vel ganga flestar borgir í landinu einnig undir þýskum heitum. Borgin er ein mikilvægasta viðskipta- og verslunarborg landsins og var menningarborg Evrópu árið 2015. Borgin er heimsfræg fyrir bjórinn Pilsner Urquelle og Skoda verksmiðjurnar. Tilvalið væri að rölta um huggulegan miðbæinn, líta á jólaskreytingarnar og jafnvel fá sér jólabjór á aðventumarkaðinum. Gistum fyrstu nóttina á 4* hóteli í miðbænum. 

6. desember │ Pilsen & Prag

Við höfum frítíma í borginni fram að hádegi, síðan verður farið í skoðunarferð um verksmiðju Pilsner Urquelle bjórbrugghússins sem býður upp á einn frægasta bjór landsins. Skoðunarferðinni lýkur með léttu hádegissnarli og ljúffengum svaladrykk að hætti hússins. Að því loknu höldum við áfram til hinnar yndislegu borgar Prag, þar sem við gistum fjórar nætur á hóteli í hjarta borgarinnar.

7. desember │ Skoðunarferð í Prag

Fyrri part dags verður farið í skoðunarferð um þessa heillandi höfuðborg Tékklands. Íbúar borgarinnar eru 1,2 milljón en Prag hefur verið ein helsta menningarmiðstöð Evrópu um aldir. Farið verður að Karlsbrúnni, ráðhúsinu með stjörnuklukkunni, í gyðingahverfið og Wenceslastorgið svo eitthvað sé nefnt. Upplagt að enda ferðina á aðventumarkaðinum við ráðhúsið. Hér er úrval ýmis konar varnings sem hentar vel í jólapakkana, en einnig má fá innsýn í matarmenninguna á staðnum. Það fer enginn svangur eða þyrstur heim af jólamarkaðinum.

Opna allt

8. desember │ Frjáls dagur

Við njótum dagsins í þessari fögru borg sem heillar alla. Upplagt að skoða sig betur um í borginni og kanna líf bæjarbúa á aðventunni. Um kvöldið er sameiginlegur kvöldverður á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn, en hann prýðir eina af frægustu stjörnuklukkum veraldar.

9. desember │ Hradčany kastalinn

Fyrri part dags verður farið í skoðunarferð um Hradčany kastala, sem hefur verið bústaður forseta lýðveldisins síðan árið 1918. Á 9. öld hófst þar uppbygging fursta- og biskupsdæmisins í Prag. Hallarsvæðið er einn merkilegasti og áhugaverðasti hluti Prag og þar má njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Hér væri mjög gaman að borða saman í hádeginu en eftir það er frjáls tími.

10. desember │ Prag & Passau

Í dag kveðjum við Prag og höldum til háskólaborgarinnar Passau sem liggur við landamæri Austurríkis og Þýskalands. Borgin er oft kölluð borg hinna þriggja fljóta en hún stendur við ármót Dónár, Inn og Ilz í Bæjaralandi og setja árnar þrjár svo fallegan svip á borgina að hún er talin með sjö fallegustu borgarstæðum í heimi. Aðventumarkaðurinn í Passau er sérlega fallegur og liggur angan jólakrydda og ristaðra mandla í loftinu og er gaman að skoða ýmsan varning og fallegt handverk og fá sér eitthvað góðgæti og jafnvel ylja sér á jólaglögginu Glühwein. Hér verður gist í 2 nætur í hjarta gamla bæjarins.

11. desember │ Dagur í Passau

Við byrjum daginn á að fara í skemmtilega göngu með farastjóranum og kanna borgina nánar. Þessi barokkborg var sköpuð af ítölskum meisturum 17. aldarinnar og má þar m.a. finna stærsta dómkirkjuorgel í heimi, í dómkirkjunni St. Stephan. Í Passau er mikið um ársiglingar og væri möguleiki að fara í bátsferð á hinni fögru Dóná eftir hádegið og njóta þess að sjá borgina líða hjá. Passau er svo sannarlega heimsóknarinnar virði en hér mætast fegurð, saga, menning og listir og því margt að upplifa! 

12. desember │ Heimferð

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið á flugvöllinn í München. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir