Jólaferð til Brussel & Brugge

30. nóvember - 3. desember 2017 (4 dagar)

Í Brussel og Brugge ríkir hátíðleg jólastemning á aðventunni. Báðar borgirnar eru með einstaklega huggulega jólamarkaði innan um virðulegar gamlar byggingar og hefur jólamarkaður Brussel verið tilnefndur sem sá frumlegasti í Evrópu. Þar sem landið er þekkt fyrir dásemdar súkkulaði, mikla matarmenningu og góðan bjór er ljóst að það er margs að njóta. Merkileg menningarsaga Brussel hefur varðveist í glæsilegum byggingum frá endurreisnar- og barokkskeiði og hvort sem rölt er um þröngar götur gamla miðbæjarins eða ekið eftir breiðstrætunum má sjá einar fegurstu art deco byggingar Evrópu. Farið verður í skoðunarferð um Brussel, en einnig í dagsferð til Brugge sem er eins og klippt úr úr ævintýri með fjöldann allan af miðaldabyggingum og vatnavegum. Í skammdeginu eru þessar fallegu byggingar flóðlýstar sem ásamt skrautlegum ljósum jólamarkaðarins gerir ævintýrablæinn ennþá ríkulegri.

Verð á mann í tvíbýli 109.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 19.900 kr.


Innifalið

  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður alla daga.
  • Skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir og kvöldverðir.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

30. nóvember | Flug til Brussel

Brottför frá Keflavík kl. 7:40, en mæting er í Leifsstöð síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Brussel kl. 11:45 að staðartíma. Áður en farið er á hótel förum við í skoðunarferð um borgina og kíkjum á jólastemmninguna og ljósin. Við hefjum ferðina þar sem höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru staðsettar og ferðumst aftur í tíma þegar við ökum fram hjá glæsilegum byggingum í gotneskum endurreisnar- og barokkstíl, sem víða skreyta borgina. Á vegi okkar verður Grand Place torgið sem er að mati sumra eitt fallegasta torg í heimi, Manneken Pis styttan sem er nefnd tákn borgarinnar og loks hin mikilfenglega ráðhúsbygging. Síðdegið verður frjálst og gefst þá tími til að skoða sig um á eigin vegum. 

1. desember | Frjáls dagur í Brussel

Í dag er frjáls dagur og um að gera að njóta stemningarinnar á jólamarkaðinum innan um virðulegar miðaldabyggingar. Sjálfsagt er að líta inn til kaupmanna borgarinnar, sem hafa margt spennandi upp á að bjóða. Belgar eru þekktir fyrir dekur í matargerð og því upplagt að setjast inn á eitt af fjölmörgum kaffi- og veitingahúsum borgarinnar. 

2. desember | Dagur í Brugge

Heillandi ferð til perlunnar Brugge sem er með fegurstu borgum landsins. Innan um glæst hús frá miðöldum er jólamarkaður og skautasvell. Auk jólaljósanna eru fjöldinn allur af gömlu byggingunum flóðlýstar sem gefur allri borginni dásamlegan ævintýrablæ. Farin verður skoðunarferð um borgina sem heillar alla, en að henni lokinni gefst hverjum og einum tími til að njóta þess að upplifa þessa fögru borg á eigin vegum og bragða á belgískum vöfflum, súkkulaði eða öðru góðgæti á markaðinum. 

Opna allt

3. desember | Heimferð

Eftir yndislega ferð verður ekið út á flugvöll í Brussel. Brottför þaðan er kl. 12:50 og lending í Keflavík kl. 15:15 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalheiður Jónsdóttir

Aðalheiður, eða Alla eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið fararstjóri á Costa del Sol, Mallorca, Kanaríeyjum, í Portúgal og Brussel, auk þess sem hún hefur verið leiðsögumaður innanlands fyrir smærri hópa. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík lá leið hennar til Spánar þar sem hún nam spænska sögu og menningu við Háskólann í Granada.

Hótel

IBIS Brussels Centre Ste Catherine

Þetta nútímalega hótel er vel staðsett í miðbæ Brussel, aðeins 550m frá Grand Place torginu. Móttakan er mönnuð 24 tíma á dag og á hótelinu er notalegur bar og seturstofa. Herbergin eru björt og stílhrein en af hóflegri stærð. Öll hafa þau flatskjá, baðherbegi og hárþurrku.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir