Aðventusveifla í Suður-Tíról

Bjarmi aðventunnar og heillandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari frábæru ferð til Suður-Tíról á Ítalíu.

Ljósadýrðin og aðventustemningin er hvarvetna mikil á þessum yndislega tíma. Ferðin hefst með akstri yfir Alpafjöllin, suður til Partschins, þar sem gist verður á huggulegu alpahóteli. Farið verður í skemmtilegar skoðunarferðir m.a. til huggulega heilsubæjarins Merano, sem er einstaklega fallegur á aðventunni. Við heimsækjum Trento, yndislega miðaldaborg sem er umvafin fjallafegurð, ökum til Arco, við norðurenda Gardavatnsins, þar sem töfrandi kastali gnæfir yfir bæinn. Í Trento er einn fallegasti jólamarkaður Trentino héraðsins að finna. Að sjálfsögðu heimsækjum við yndislegu borgina Riva del Garda sem er einn vinsælasti ferðamannabærinn við vatnið. Aðventublær Bolzano streymir móti okkur í undurfögrum miðbæ og stærsta jólamarkaði héraðsins. Við endum þessa dásamlegu ferð í Innsbruck í Tíról sem er hrífandi borg í skjóli fjallanna, en á leið okkar þangað verður áð í Brixen, sem er sannarlega heimsóknarinnar virði.

Verð á mann í tvíbýli 178.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 20.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði
 • Allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Íslenskur fararstjóri.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverður.

Valfrjálst

 • Höllina Buonconsiglio ca. € 10.
 • Ötzi safnið ca. 9 €.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

1. desember | München & Partschins

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin hrífandi leið um stórbrotin Alpafjöllin, yfir Brennerskarð og niður til Partschins í Suður-Tíról á Ítalíu. 

2. desember | Aðventutöfrar í Merano

Aðventan er yndislegur tími í Tíról. Í 40.000 manna borginni Merano mætast ólíkir menningarheimar Ítalíu og Austurríkis og segja má að hér finnist það besta frá báðum löndum. Borgin var áður fyrr höfuðborg Tírólahéraðs í Austurríki, en blómatími hennar var síðan á 19. öld. Þá varð bærinn þekktur sem heilsubær, en heitar lindir eru á svæðinu. Hér er lofstlagið sérlega milt og því eru frjósöm ávaxtahéruð allt í kringum borgina. Miðbærinn er yndislegur, sér í lagi á aðventunni, með skemmtilegum þröngum götum, yfirbyggðum súlnagöngum og iðandi mannlífi. Hér förum við í töfrandi göngu um elsta hluta bæjarins og lítum á jólamarkaðinn en eftir það verður tími til að njóta aðventustemmningarinnar á eigin vegum, fá sér hressingu og jólaglögg sem tilheyrir þessum tíma.

3. desember | Dagur í borginni Trentino

Aðventan í hinni heillandi Trentino borg er töfrandi. Borgin er umvafin mikilli fjallafegurð og einkum er heimafjallið Monte Bonado tilkomumikið. Hér ætlum við að njóta dagsins. Undurfagur miðaldabærinn líkist helst litlu jólaþorpi með fjölmörgum jólahúsum við gömlu virkisveggina. Þetta er einstaklega hrífandi sjón og angan aðventunnar sem fyllir vit svíkur engan. Við förum í stutta göngu um borgina sem á sér langa sögu. Hér er t.d. höllin Buonconsiglio, stærsta höll Alpafjalla. Einstakar freskur skreyta höllina og eru eitt merkasta sýnishorn gotneskrar listar í Evrópu. En margt fleira er hægt að upplifa í borginni. Krókóttar, þröngar götur, myndskreyttar litlar hallir í göngugötunni Giro al Sas og ekki má gleyma dómkirkjunni og Neptunnbrunni sem eru tákn borgarinnar. Hér gefst líka nægur tími til að njóta gleði aðventunnar á aðventumarkaðnum og upplifa líf bæjarbúa á eigin vegum.

Opna allt

4. desember | Aðventa í Arco & Riva del Garda

Við hefjum þennan spennandi dag í Arco þar sem töfrandi kastali gnæfir yfir bænum við norðurenda Gardavatnsins. Þar er einn fallegasti jólamarkaður Trentino héraðsins.Við njótum þess að vera á þessum yndislega stað, rölta um hrífandi götur bæjarins og skoða okkur um á aðventumarkaði hans. Síðan verður ekið til Riva del Garda, sem er einn vinsælasti ferðamannabærinn við vatnið og sérlega heillandi á aðventunni. Þar er upplagt að fá sér hressingu og njóta umhverfisins við vatnið. Á leiðinni þaðan verður komið við á skómarkaði í bænum Dro. 

5. desember | Aðventublær í Bolzano & Merano

Í dag er förinni heitið til Bolzano. Aðventublærinn í undurfallegum miðbænum hrífur alla sem þangað koma. Aðaltorgið, Walthertorg, er nefnt eftir Walther von der Vogelweide sem var þýskur farandsöngvari og þekktur um alla Evrópu. Hér á torginu er töfrandi aðventumarkaður, sá stærsti í Suður-Tíról. Við skoðum okkur um í borginni og fáum góðan tíma til að líta inn til kaupmannanna og upplifa aðventuna í Bolzano. Hér er líka að finna mjög áhugavert safn þar sem líkamsleifar frummannsins Ötzi er varðveitt. Líkið fannst í Ölpunum þar sem það hafði legið undir ís í 5000 ár. Á bakaleiðinni er upplagt að stoppa aftur í Merano sem er stutt frá hóteli okkar og njóta aðventudýrðar þar og líta í verslanir áður en ekið verður á hótel.

6. desember | Brixen & Innsbruck

Nú kveðjum við Partschins eftir yndislega daga og er stefnan sett á Innsbruck í Austurríki. Áður en við yfirgefum Ítalíu verður áð í fallega bænum Brixen. Í þessum hlýlega 20.000 manna bæ finnast gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætst árnar tvær Eisack og Rienz sem, ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum, gera Brixen að einstaklega heillandi og fallegum stað. Á dómkirkjutorginu er hrífandi jólamarkaður og verður gefinn tími til að njóta bæjarins og fá sér hressingu. Ferðin heldur svo áfram til Innsbruck þar sem gist verður í 2 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Upplagt að líta á aðventumarkað borgarinnar áður en við snæðum kvöldverð.

7. desember | Aðventuævintýri í Innsbruck

Eftir góðan morgunverð förum við gangandi inn á ráðhústorgið í Innsbruck. Miðaldahluti borgarinnar er mjög heillandi og ekki hægt annað en að dást að ævintýralegum skreytingum borgarinnar, enda Grimmsævintýrin frægu gjarnan notuð sem þema. Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu konungsættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg, en hann lét byggja helstu kennileyti borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról og Hofburg höllina. Við göngum um miðaldahlutann en eftir gönguna verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum, fá sér í svanginn og kannski örlitla lögg af jólaglöggi á einhverjum aðventumarkaði borgarinnar. Að sjálfsögðu tilheyrir að líta inn til kaupmanna á göngugötunni Maria Theresien Straße. 

8. desember | Heimferð

Eftir þessa hrífandi ferð verður ekið af stað kl. 8:00 á flugvöllinn í München. Brottför þaðan er kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki og Færeyjar. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir