Aðventugleði í Tríer & Köln

Aðventutöfrar og hrífandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari glæsilegu ferð um Mósel- og Rínar dalinn og Köln. Hin söguríka borg Rómverja, Tríer, elsta borg Þýskalands, lætur engan ósnortinn. Hún er rík af fornminjum og skartar jafnan sínu fegursta á aðventunni. Ljómi aðventunnar og ilmurinn af glöggi kemur okkur í jólastemningu í heillandi dagsferðum frá Tríer, m.a. í bænum Bernkastel-Kues sem hefur verið kallaður perla Móseldalsins og er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og miðaldablæ. Þaðan verður farið í töfrandi aðventusiglingu á Mósel. Því næst verður stefnan tekin á menningarborgina Köln við ána Rín. Á leiðinni þangað verður stoppað við einn fallegasta jólamarkað Móseldalsins, í borginni Koblenz en hún stendur við ármót Mósel og Rín. Eftir ljúfan tíma þar verður ekið norður eftir Rínardalnum til Kölnar þar sem er m.a. að finna dómkirkjuna frægu, Kölner Dom, sem er eitt af meistaraverkum hágotneska tímans. Auðvitað förum við í skemmtilega göngu með fararstjóranum okkar og skoðum það helsta í borginni. Á þessum tíma iðar borgin af lífi og sér í lagi í gamla miðbænum. Aðventumarkaðirnir í Köln eru taldir með þeim fallegustu í Evrópu og víða má upplifa sannkallaða aðventustemningu.

Verð á mann í tvíbýli 257.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelum.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Aðventusigling á Mósel u.þ.b. € 18.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. desember | Flug til Frankfurt & Tríer

Brottför frá Keflavík kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan er ekin fögur leið til Tríer, elstu borgar Þýskalands. Þar verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli. Hótelið býður upp á heilsurækt í rómverskum stíl með sánu, rómversku gufubaði og legubekkjum til að slaka á eftir eril dagsins. Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á hótelinu röltum við saman í miðbæinn þar sem gefinn verður frjáls tími til að kanna umhverfið og fá sér kvöldverð á eigin vegum.

3. desember | Skoðunarferð um Tríer & frjáls tími

Aðventutöfrar borgarinnar dyljast engum í dag en eftir góðan morgunverð skoðum við þessa elstu borg Þýskalands. Þar er að finna mjög merkilegar minjar frá tímum Rómverja en þeir stofnuðu borg sem þeir nefndu Augusta Trevrorum árið 18-17 f. Kr. Hér er margt að sjá, töfrandi kirkjur, glæstar barokkbyggingar og ekki má gleyma borgarhliðinu, Porta Nigra frá árinu 17 e. Kr. sem er tákn borgarinnar. Skoðunarferðinni lýkur á aðaljólamarkaði borgarinnar og er upplagt að fá sér þar jólaglögg og ristaðar möndlur en ilmur þeirra svífur um loftin. Nú gefst frjáls tími til að skoða borgina á eigin vegum, rölta um verslunargötur og líta inn til kaupmanna borgarinnar sem eru fjölmargir. Upplagt að enda daginn á heilsulind hótelsins fyrir kvöldverð. Sameiginlegur kvöldverður.

4. desember | Bernkastel-Kues & aðventusigling á Mósel

Aðventudýrðin, rómantíkin og náttúrufegurðin láta engan ósnortinn í Móseldalnum á leið okkar til bæjarins Bernkastel-Kues. Hann er perla Móseldalsins, rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og töfrandi blæ miðalda. Hér gefum við okkur góðan tíma og njótum aðventunnar í þessum einstaka jólabæ. Enginn sem á ferð um dalinn á aðventunni skal láta jólamarkaðinn í Cochem fram hjá sér fara. Bærinn er með þeim fallegri við ána með glæsilegan kastala sem gnæfir yfir bæinn og setur mikinn svip á staðinn. Héðan verður farið í töfrandi siglingu þar sem boðið er upp á jólaglögg og jólastollen sem er ávaxtabrauð og tilheyrir aðventunni í Þýskalandi. Sameiginlegur kvöldverður.

Opna allt

5. desember | Dásemdardagur í Tríer

Rólegur dagur er á dagskrá okkar og því er upplagt að njóta þess að vera í Tríer og skoða borgina betur á eigin vegum. Hægt er að rölta um verslunargötur og fara í skemmtilega vínsmökkun sem er víða í boði og hér má einnig heimsækja jólamarkaði borgarinnar. Einnig er upplagt að nota glæsilega heilsulind hótelsins.

6. desember | Koblenz & Köln

Eftir góðan morgunverð verður stefnan tekin á menningarborgina Köln. Á leiðinni þangað verður einn fallegasti jólamarkaður Móseldalsins skoðaður en hann er í borginni Koblenz og einkennist af yfir hundrað skreyttum smáhýsum. Borgin Koblenz stendur við ármót Mósel og Rín og þar sem árnar renna saman heitir Deutsches Eck eða þýska hornið og er oft nefnt fallegasta horn Þýskalands. Við förum í stutta skoðunarferð um þessa sögufrægu, rúmlega 2000 ára gömlu borg, Koblenz. Gaman er að skoða gamla miðaldabæinn sem prýddur er glæstum byggingum, fallegum kirkjum, þröngum litlum götum og gömlum bindingsverkshúsum. Eftir skoðunarferð gefst frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum, rölta um gömul stræti og torg og ekki má láta dýrð jólamarkaðsins fram hjá sér fara. Komum seinni hluta dags til Köln þar sem gist verður í þrjár nætur.

7. desember | Skoðunarferð í Köln & frjáls tími

Farið verður í ljúfa gönguferð um borgina en Köln er yndisleg borg sem var nánast jöfnuð við jörðu í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Eftir mikla endurbyggingu, þar sem gamli miðborgarhlutinn var látinn halda sér, iðar nú hjarta miðborgarinnar af lífi og skemmtilegri menningu. Ekki síst á þessum árstíma þar sem einn af fallegustu aðventumörkuðum Evrópu er hér í borg en nokkuð margir aðventumarkaðir eru dreifðir um borgina. Í Köln er m.a. að finna sögulega ráðhúsið, mörg áhugaverð söfn og eitt af meistaraverkum hágotneska tímans, dómkirkjuna sjálfa, kirkju Péturs postula með þekktu gotnesku turnspírunum. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að fá sér hádegishressingu og skoða sig um í borginni á eigin vegum. Sameiginlegur kvöldverður.

8. desember | Frjáls dagur í Köln

Í dag gefst tími til að kanna borgina enn betur á eigin vegum, líta t.d. í verslanir en borgin er einnig þekkt fyrir skemmtileg kaffi- og veitingahús. Auðvitað er líka hægt að fá sér jólaglögg og hressingu á jólamörkuðum borgarinnar. Þeir sem vilja draga sig frá ys og þys miðbæjarins og komast í notalega stemningu geta farið í skemmtilega aðventusiglingu á ánni Rín þar sem boðið er upp á lifandi tónlist og heitan drykk að eigin vali. Báturinn fer frá Konrad Adenauer bakkanum og hér er hægt að njóta þess að horfa á dýrð borgarinnar á siglingu.

9. desember | Kveðjustund & heimferð

Það er komið að heimferð eftir ljúfa daga. Við ökum til Frankfurt en brottför þaðan er kl. 13:05. Lent í Keflavík kl. 15:45 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir




Póstlisti