Aðventugleði í Tríer & Köln
2. – 9. desember 2023 (8 dagar)
Aðventutöfrar og hrífandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari glæsilegu ferð um Mósel- og Rínar dalinn og Köln. Hin söguríka borg Rómverja, Tríer, elsta borg Þýskalands, lætur engan ósnortinn. Hún er rík af fornminjum og skartar jafnan sínu fegursta á aðventunni. Ljómi aðventunnar og ilmurinn af glöggi kemur okkur í jólastemningu í heillandi dagsferðum frá Tríer, m.a. í bænum Bernkastel-Kues sem hefur verið kallaður perla Móseldalsins og er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og miðaldablæ. Þaðan verður farið í töfrandi aðventusiglingu á Mósel. Því næst verður stefnan tekin á menningarborgina Köln við ána Rín. Á leiðinni þangað verður stoppað við einn fallegasta jólamarkað Móseldalsins, í borginni Koblenz en hún stendur við ármót Mósel og Rín. Eftir ljúfan tíma þar verður ekið norður eftir Rínardalnum til Kölnar þar sem er m.a. að finna dómkirkjuna frægu, Kölner Dom, sem er eitt af meistaraverkum hágotneska tímans. Auðvitað förum við í skemmtilega göngu með fararstjóranum okkar og skoðum það helsta í borginni. Á þessum tíma iðar borgin af lífi og sér í lagi í gamla miðbænum. Aðventumarkaðirnir í Köln eru taldir með þeim fallegustu í Evrópu og víða má upplifa sannkallaða aðventustemningu.