2. – 9. desember 2022 (8 dagar)
Aðventutöfrar og hrífandi áfangastaðir er það sem við upplifum í þessari glæsilegu ferð um Móseldalinn. Hin söguríka borg Rómverja, Tríer, elsta borg Þýskalands, lætur engan ósnortinn. Hún er rík af fornminjum og skartar jafnan sínu fegursta á aðventunni. Ljómi aðventunnar og ilmurinn af glöggi kemur okkur í jólastemningu í heillandi dagsferðum frá Tríer, m.a. til bæjarins Bernkastel-Kues sem hefur verið kallaður andlit Móseldalsins og er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og miðaldablæ. Cochem er með fallegri bæjum við ána en hann státar af fögrum kastala sem gnæfir sem kóróna yfir bænum og dásamlegum jólamarkaði. Mikið er um dýrðir í Rüdesheim, yndislegum bæ við ána Rín sem er á heimsminjaskrá UNESCO, og þar skoðum við hinn svonefnda jólamarkað þjóðanna. Aðventublærinn umvefur okkur í vínbænum Traben-Trarbach við ána Mósel en þar upplifum við sérstakan jólamarkað í fyrrum vínkjallara frá 16. öld sem er einsdæmi. Einnig verður farið í töfrandi aðventusiglingu á Mósel og hin glæsilega borg Koblenz sótt heim en hún stendur við ármót Mósel og Rín. Koblenz státar af einum fallegasta jólamarkaði Móseldalsins.