Aðventuveisla í Vín & Salzburg
28. nóvember - 5. desember 2022 (8 dagar)
Glæsileg og spennandi aðventuferð til Vínar og Salzburg í Austurríki en ljósadýrðin birtir upp skammdegið og ilmurinn af jólaglöggi og ristuðum möndlum skapar einstaka jólastemningu. Flogið er til München og þaðan haldið til Vínarborgar sem er með glæsilegri borgum Evrópu. Fagrar byggingar prýða hana og aðventudýrðin lætur ekki á sér standa við St. Stephens dómkirkjuna og ráðhúsið en einnig er hér að finna eina fegurstu höll landsins, Schönbrunn. Dásamleg aðventugleði er ríkjandi um alla borg og einnig í vínræktarbænum Grinzing þar sem við njótum þess að eiga ljúfa jólakvöldstund saman. Eftir notalega daga í Vín verður ekið til Salzburg í Austurríki sem er fæðingarborg Mozarts og þykir vera einn af gimsteinum Evrópu. Salzburg er ein af ævintýraborgum aðventunnar og trúlega er borgin sjaldan eins heillandi eins og á þessum tíma með fagurlega skreyttum, upplýstum götum og ilm af jólagóðgæti og glöggi sem leggur yfir stræti og torg. Hohensalzburg kastalinn er sem kóróna borgarinnar en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður tekinn upp. Hér ættu allir að komast í jólaskap, umkringdir hrífandi jóladýrð Austurríkis.