Aðventuveisla í Vín & Salzburg

Glæsileg og spennandi aðventuferð til Vínar og Salzburg í Austurríki en ljósadýrðin birtir upp skammdegið og ilmurinn af jólaglöggi og ristuðum möndlum skapar einstaka jólastemningu. Flogið er til München og þaðan haldið til Vínarborgar sem er með glæsilegri borgum Evrópu. Fagrar byggingar prýða hana og aðventudýrðin lætur ekki á sér standa við St. Stephens dómkirkjuna og ráðhúsið en einnig er hér að finna eina fegurstu höll landsins, Schönbrunn. Dásamleg aðventugleði er ríkjandi um alla borg og einnig í vínræktarbænum Grinzing þar sem við njótum þess að eiga ljúfa jólakvöldstund saman. Eftir notalega daga í Vín verður ekið til Salzburg í Austurríki sem er fæðingarborg Mozarts og þykir vera einn af gimsteinum Evrópu. Salzburg er ein af ævintýraborgum aðventunnar og trúlega er borgin sjaldan eins heillandi eins og á þessum tíma með fagurlega skreyttum, upplýstum götum og ilm af jólagóðgæti og glöggi sem leggur yfir stræti og torg. Hohensalzburg kastalinn er sem kóróna borgarinnar en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður tekinn upp. Hér ættu allir að komast í jólaskap, umkringdir hrífandi jóladýrð Austurríkis.

Verð á mann í tvíbýli 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 77.900 kr.

 
Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Fjórir kvöldverðir.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Tveir kvöldverðir í Vínarborg.
 • Einn kvöldverður í Grinzing.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðgangseyrir að Schönbrunn höllinni ca € 17.
 • Skoðunarferð um óperuhúsið í Vín ca  € 8. 
 • Ferð í hestakerru um Vínarborg ca € 14. 
 • Kláfur upp í kastalann Hohensalzburg ca € 16.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. nóvember │ Flug til München & Vínarborg

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lent í München kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan er haldið til Vínarborgar sem er með glæsilegri borgum Evrópu, fagrar byggingar prýða hana og aðventudýrðin lætur ekki á sér standa. Hér verður gist í fjórar nætur á frábærum stað í miðborginni. Sameiginlegur kvöldverður.

29. nóvember │ Skoðunarferð um Vínarborg

Vín er mikil lista- og menningarborg með um 1,7 milljónir íbúa. Í dag verður farið í skoðunarferð um þessa höfuðborg Austurríkis og helstu byggingar, hallir og garðar skoðaðir. Lítum inn í St. Stephens dómkirkjuna og förum að hinu þekkta Hundertwasser húsi sem er einstakt fjölbýlishús byggt upp úr 1980 hannað af samnefndum listamanni. Einnig gefst frjáls tími til að kanna líf borgarbúa og aðventublæ borgarinnar.

30. nóvember │ Aðventustemning í Vínarborg

Götulandslag í barokkstíl og keisaralegar hallir, samofið kaffihúsamenningu og mikilli sælkera- og hönnunarsenu skapar einstakt leiksvið í Vín. Í dag gefst tækifæri til að skoða sig um á eigin vegum, t.d. er hægt að fara í ferð með hestakerru um borgina, fara á söfn, í skoðunarferð um óperuhúsið og fá sér kaffi og hina frægu austurrísku Sachertertu. Mikil stemning er við ráðhúsið sem er með fallegustu ráðhúsbyggingum í Evrópu.

Opna allt

1. desember │ Schönbrunn höllin, frjáls tími & Grinzing

Eftir morgunverð verður farið að hinni mikilfenglegu höll Schönbrunn sem var byggð á árunum 1692–1780 sem sumarhöll Mariu Theresiu keisaraynju og fjölskyldu hennar. Höllin, sem er með fallegustu síðbarokkhöllum Evrópu, var einnig notuð af öðrum Habsborgurum. Hægt verður að fara inn í höllina eða skoða aðventumarkaðinn sem er við höllina. Þar eru gosbrunnar í barokkstíl, Gloriette heiðursminnisvarði herliðs keisarans, kaffihús og minjagripaverslanir. Eftir það verður frjáls tími inni í borginni. Um kvöldið verður boðið upp á ferð til vinsæla vínræktarbæjarins Grinzing þar sem við ætlum að fá okkur að borða og eiga skemmtilega jólastund saman.

2. desember │ Vínarborg & Salzburg

Nú er dvöl okkar í Vínarborg á enda og ekin verður fögur leið til Salzburg í Austurríki sem er fæðingarborg Mozarts og þykir vera einn af gimsteinum Evrópu. Borgin er þekkt fyrir byggingar í barokkstíl og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Gist verður í þrjár nætur á hóteli í miðbænum þar sem töfrar aðventunnar mæta okkur. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli okkar.

3. desember │ Skoðunarferð um Salzburg & frjáls tími

Við hefjum daginn á stuttri skoðunarferð um þessa yndislegu borg. Byrjum í Mirabell garðinum og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er að finna mjög áhugavert Mozart safn. Farið verður um Gullgötuna á leið að dómkirkjunni og á Mozart torgið svo fátt eitt sé nefnt. Einnig verður tími til að kanna iðandi mannlíf borgarinnar. Tilvalið er að líta á Hohensalzburg kastalann en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður tekinn upp. Kastalinn setur heillandi svip á borgina. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli okkar.

4. desember │ Frjáls dagur í Salzburg

Í dag er frjáls dagur svo nú er um að gera að skoða sig betur um í borginni á eigin vegum og njóta alls þess sem aðventan hefur upp á að bjóða. Upplagt er að skella sér á söfn, kíkja í búðir eða setjast á kaffi- eða veitingahús og virða fyrir sér mannlífið. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli okkar.

5. desember │ Heimferð frá München

Eftir yndislega aðventuferð og góðan morgunverð verður ekið til flugvallar í München. Brottför kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir