Fararstjórar Bændaferða

Fararstjórar Bændaferða

Aðalheiður Jónsdóttir

Aðalheiður, eða Alla eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið fararstjóri á Costa del Sol, Mallorca, Kanaríeyjum, í Portúgal og Brussel, auk þess sem hún hefur verið leiðsögumaður innanlands fyrir smærri hópa. Á ferðalögum leggur hún áherslu á að njóta þess sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða og njóta ólíkrar menningar.

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem ljósmóðir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Arinbjörn Vilhjálmsson

Arinbjörn hefur lengi starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri í frístundum. Hann hefur verið leiðsögumaður þýskumælandi ferðamanna á Íslandi frá árinu 1991 og fór sem fararstjóri í sína fyrstu bændaferð árið 1997. Hann hefur veitt farastjórn í bændaferðum til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Sviss, Frakklands, Spánar og á Íslendingaslóðir í Manitoba og Norður-Dakóta.

Auðunn Páll Sigurðsson

Auðunn Páll, oftast kallaður Palli, er tæknifræðingur og starfar sem verkefnisstjóri hjá Marel. Palli hefur mikinn áhuga á alls konar útivist, s.s. utanvegahlaupum, fjallgöngum, jeppaferðum, mótorhjólum, fjallahjólreiðum, fjallaskíðum og auðvitað skíðagöngu. Hann var á árum áður virkur félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi.

Árni Ingólfsson

Árni Ingólfsson er fæddur 1961 í Kópavogi. Hann er vélvirki, vinnur í vélsmiðjunni Héðni hf og sér um gæða- og öryggismál fyrirtækisins. Hann hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi um 30 ára skeið og starfar þar með rústaflokki sem er hluti af íslensku alþjóðasveitinni. Útivist hefur hann stundað alla tíð og farið í jeppaferðir, gönguferðir, skíðaferðir og kayakferðir.

Ásta Sól Kristjánsdóttir

Ásta Sól er fædd á Akureyri en hefur alla tíð búið í 101 Reykjavík. Í kringum tvítugt fékk hún mikinn áhuga á málefnum Vestur-Íslendinga og vann að því að skapa ógleymanlegar upplifanir og tengja fólk við uppruna sinn á Íslandi í hátt í tvo áratugi, m.a. með því að skipuleggja ferðir um Ísland og sjá um leiðsögn. Sjálf fann hún svo rætur sínar á Vestfjörðunum. Auk M.A. prófs frá HÍ hefur hún stundað skiptinám í Kanada, lært tungumál og menningu á Spáni og kvikmyndagerð í Prag. Hún hefur ferðast víða um heim, m.a. til Kúbu, Brasilíu, Suður-Afríku og Víetnam en einnig starfað í Danmörku og í Bretlandi. Mesti frítíminn fer í uppeldi tveggja upprennandi fótboltastjarna, byggingaframkvæmdir og útihlaup.

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Björk Håkansson

Björk Håkansson er fædd á Íslandi um hásumar árið 1967 og hefur alla sína ævi verið á faraldsfæti, fyrst með foreldrum sínum og síðar á eigin vegum, svo ekki sér fyrir endann á.

Fyrir rúmum þrjátíu árum fór Björk fyrst til Mið-Austurlanda og settist á skólabekk í Amman í Jórdaníu. Þar með voru línurnar lagðar hvað varðar reglulega búsetu, samskipti og samstarf við arabaheiminn.

Diljá Helgadóttir

Diljá Helgadóttir er líftæknifræðingur og framhaldsskólakennari að mennt og búsett á Ólafsfirði, Mekka skíðagöngunnar, ásamt manni og þremur börnum. Undanfarin ár hefur útivistin átt hug hennar allan og fékk hún sannkallaða skíðagöngusótt. Diljá hefur tekið þátt í mörgum almenningsgöngum hér heima og í Evrópu, með mikilli gleði. Síðustu tvö ár hefur hún verið að kenna fólki listir skíðagöngunnar í samstarfi við hótelin í Fjallabyggð.  

Einar Ólafsson

Einar Ólafsson er tvöfaldur Ólympíufari í skíðagöngu, margfaldur Íslandsmeistari og heldur utan um alla kennslu hjá skíðagöngufélaginu Ulli. Einar hefur einnig tekið þátt í fjölda almenningsganga bæði í Evrópu og Norður-Ameríku og býr yfir mikilli reynslu í fræðunum.

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Elsa Guðrún Jónsdóttir

Elsa Guðrún Jónsdóttir hefur verið í skíðagöngu frá barnsaldri enda komin frá mikilli skíðafjölskyldu og veit hún fátt betra en að fara í skíðin, þjóta af stað og njóta.

Elsa hefur verið sigursæl alla tíð og er hún er margfaldur Íslandsmeistari. Elsa er fyrsta og eina konan sem hefur farið fyrir Íslands hönd á Ólympíuleika í skíðagöngu en það var árið 2018 í Suður-Kóreu en hún hefur tekið þátt í fjölda annarra móta erlendis.

Elsa hefur verið virk í starfi Skíðagöngufélags Ólafsfjarðar, áður starfaði hún sem skíðakennari barna, en hefur síðustu ár kennt á skíðanámskeiðum á vegum félagsins.

Eyrún Gyða

Eyrún Gyða er fædd og uppalin á sveitabæ á Snæfellsnesinu, sem og í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún er náttúrufræðingur og leiðsögukona að mennt og hefur starfað sem leiðsögukona á Íslandi og Grænlandi síðan 2013, einnig sem landvörður í Snæfellsjökulsþjóðgarði og skálavörður á hálendinu. Árið 2021 fluttist hún búferlum til Finnlands þar sem hún átti einungis að vera í eitt ár í námi, en hún féll fyrir landi og þjóð er þar enn.

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Guðný Margrét Emilsdóttir

Guðný Margrét Emilsdóttir heiti ég, búsett í dag á Íslandi en bjó um 20 ár á Ítalíu. Á Ítalíu fór ég ítölskunám í háskólabænum Perugia (Umbria) og það var ekki aftur snúið! Lengst af bjó ég í Mílanó en vann sem leiðsögumaður með Íslendinga meira og minna um alla Ítalía. Ég lít á Ítalíu sem mitt annað heimili, elska landið, fólkið, söguna, menninguna, tungumálið, matinn og vínið. Reyndar var uppáhalds tungumálið mitt í menntó latína sem hjálpaði mér heilmikið að ná fljótt tökum á ítölskunni.

Guðrún Helga Jónasdóttir

Guðrún er mikið náttúrubarn og reynir að nýta frítímann sinn sem mest upp á fjöllum gangandi eða skíðandi. Hún hefur stundað svigskíði frá barnsaldri en tók ástfóstri við gönguskíðin á sama tíma og leiðir hennar og mannsins hennar, Einars, lágu saman. Hún hefur verið í skíðaferðum á vegum Bændaferða síðastliðin sjö ár og þekkir mjög vel til þeirra. Guðrún bjó á Ítalíu í sjö ár og talar tungumálið reiprennandi auk fjölda annarra tungumála þar sem tungumál liggja vel fyrir henni. Henni finnst gaman að umgangast fólk og finnst mannleg samskipti vera ein af hennar sterku hliðum. Hún er lærður leiðsegjandi frá leiðsöguskólanum á Íslandi og starfaði töluvert við ferðamennsku á yngri árum. 

Guðrún Sigurðardóttir

Guðrún Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Hlíðunum, Reykjavík. Hún kom fyrst til Ítalíu árið 1980 í framhaldsnám og hefur verið þar að mestu leyti síðan, bjó í næstum þrjá áratugi við Como vatn og býr nú til skiptis á Ítalíu og á Íslandi. Hún hefur verið fararstjóri með Íslendinga víðs vegar um Ítalíu og víðar í fjölda ára. Einnig hefur hún unnið sem leiðsögumaður með Ítali á Íslandi.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er viðskiptafræðingur og starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún hefur verið þjálfari hjá Náttúruhlaupum frá 2014 og var þjálfari hjá Hlaupahópi Stjörnunnar frá 2018-2022. Hún hefur mikinn áhuga á hreyfingu og útivist og elskar að leiðbeina fólki að stíga sín fyrstu skref í hreyfingu. Halldóra hefur lokið fimm Ironman keppnum, átta götumaraþonum, 18 ultra utanvegahlaupum og er Landvættur númer 8 og 663 og Sænskur Klassiker númer 10834. Halldóra hefur klárað Vasaloppet 90 km keppnina í Svíþjóð þrisvar sinnum, auk þess að klára Nattvasan 90 km, Öppet spår 90 km og Birkebeinerennet 54 km skíðagöngurnar.

Helga Medek

Helga fæddist og ólst upp í Vínarborg í Austurríki. Hún bjó og starfaði í Tíról þangað til hennar íslensku rætur drógu hana til Íslands. Árið 2011 flutti hún til Reykjavíkur og vann í mörg ár sem kvensjúkdómalæknir á Landspítalanum. Helga er mikil útivistar- og skíðakona, hún er menntaður gönguleiðsögumaður og fer reglulega með hópa frá Þýskalandi, Austurríki og Sviss yfir íslenska hálendið. Helgu líður best að vera úti í náttúrunni með skemmtilegu fólki og hvíla augu og heila frá amstri dagsins.

Helgi Reynir Árnason

Helgi Reynir Árnason er fæddur og uppalinn á Ólafsfirði. Alla tíð hefur hann haft áhuga á íþróttum og útivist í snjó, en hann er margfaldur Íslandsmeistari í snjókrossi og byrjaði fyrir nokkrum árum að stunda bæði fjallaskíðun og skíðagöngu af kappi. Þá hefur hann kennt skíðagöngu á vegum Skíðafélags Ólafsfjarðar í 4 ár, á Siglufirði, Egilsstöðum og í Ólafsfirði. Helgi hefur einnig stundað almenningsgöngur og gengið vel bæði hér heima og erlendis. Hann er kvæntur Diljá Helgadóttur og saman eiga þau þrjú börn.

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Inga S. Ragnarsdóttir

Leiðsögu- og myndlistamaðurinn Inga Sigríður Ragnarsdóttir hefur starfað fyrir Bændaferðir frá árinu 2004. Hún hefur farið í fjölda ferða um mið-Evrópu þar sem hún er á heimavelli en Asía hefur verið hennar kærasta sérsvið frá upphafi. Ferðir Ingu um lönd eins og Indland, Nepal, Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Búrma, Laos og Japan hafa notið mikilla vinsælda en Kína hefur hún sótt heim á hverju ári, oft tvisvar, síðustu 15 árin. Inga segir töfra Kína vaxa eftir því sem maður kynnist landinu nánar en það hefur heillað hana allt frá því á unglingsárunum.

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Jakob E. Jakobsson

Jakob var í landsliði Íslands í skíðagöngu á árunum 2000-2006. Þá bjó hann og æfði í Lillehammer og Geilo í Noregi og keppti mikið í Noregi og Skandinavíu. Á þessum sama tíma stúderaði hann almenna íþróttafræði og sálfræði við Háskólann í Lillehammer. Jakob keppti þrisvar sinnum á HM unglinga og árið 2005 keppti hann einnig á HM fullorðinna í Oberstdorf í Þýskalandi.

Eftir að skíðin fóru á hilluna lauk Jakob BS prófi í Sport Management frá Íþróttaháskólanum í Osló og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Jakob starfar í dag sem eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar veitingahúss í Reykjavík.

Jón Guðmundsson

Ég heiti Jón Guðmundsson og kem upphaflega að vestan úr dölum, en ólst að mestu leyti upp á höfuðborgarsvæðinu. Ég er grafískur hönnuður og starfa í dag sem tæknimaður.

Ég hef starfað sem leiðsögumaður í sérferðum hérlendis með erlenda ferðamenn og fyrir nokkrum árum stofnaði ég fyrirtækið Geysirtravel í því sambandi. Hér á árum áður var ég búsettur bæði í Svíþjóð og í Þýskalandi.

Katrín Árnadóttir

Katrín Árnadóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði árið 2011 og hefur starfað við hjúkrun að mestu síðan. Hún er gift Jens Þór og saman eiga þau tvo syni og fjárhundinn Nap. Katrín átti sínar helstu fyrirmyndir í skíðagöngu á uppvaxtarárunum á Ísafirði og fór svo sjálf að æfa íþróttina um 10 ára aldur. Hún keppti á unglingsárum og fram á fullorðinsár með góðum árangri og fékk inngöngu í fjölþrautarfélagið Landvættir árið 2013. Í dag nýtur hún hverskyns hreyfingar og útivistar með fjölskyldunni, á skíðum, hlaupum, fjallahjólreiðum eða göngum.

Kjartan Long

Kjartan hefur síðastliðin 6 ár þjálfað hópa sem hafa klárað Landvættaþrautirnar fjórar, þ.e. gönguskíði, fjallahjól, fjallahlaup og villisund. Auk þess hefur hann verið með Fjallahlaupahóp sem hefur tekið þátt í hinum ýmsu fjallahlaupum, þar á meðal Laugavegshlaupinu 2020 og 2021. Hann hefur sjálfur lokið 6 landvættahringjum, 5 Laugavegshlaupum, 5 maraþonum, 1/2 járnkarli og helstu fjallahlaupum. Til viðbótar hefur Kjartan starfað í björgunarsveit, leitt hópa á helstu fjöll hér innanlands og verið fararstjóri fyrir erlenda hópa á fjallahjólum, götuhjólum og vetrarævintýraferðum. Kjartan elskar kaffi, vanilluís og rósakál.

Kristján Hauksson

Kristján Hauksson er fæddur árið 1974, uppalinn á Ólafsfirði og hefur verið á gönguskíðum frá 4 ára aldri. Kristján er reynslumikill þjálfari og hefur lokið námskeiðum frá Skíðasambandi Íslands auk þess að þjálfa bæði börn, unglinga og fullorðna til fjölda ára. Hann er formaður Skíðafélags Ólafsfjarðar, einn af lykilmönnum í uppbyggingu Fjarðargöngunnar á Ólafsfirði og hefur nú undanfarin 3 ár verið í þjálfarateymi Skíðafélags Ólafsfjarðar sem hefur tekið á móti fjölda gesta á skíðagöngunámskeið.

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir er fædd og uppalin á Íslandi og skilgreinir sig sem Breiðhylting. Eftir stúdentspróf lét hún æskudrauminn rætast og flutti til Parísar. Þar hefur Kristín búið nánast alla tíð síðan, er gift frönskum manni og á tvö uppkomin börn. Hún er með meistarapróf í þýðingafræðum og menningarmiðlun og er með leiðsögumannaréttindi í Frakklandi.

Hún hefur tekið á móti Íslendingum sem Parísardaman um árabil, bæði í París og í ferðum víðsvegar um Frakkland. Meðfram leiðsögninni þýðir hún franskar bókmenntir á íslensku, sem hafa komið út hjá Bjarti og Forlaginu.

Laufey Helgadóttir

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður býr og starfar í París og Reykjavík. Hún er íslenskum ferðamönnum að góðu kunn, en hún hefur starfað sem fararstjóri í París árum saman og leiðsagt Íslendingum um sjónvíddir og kima borgarinnar. Hún er öllum hnútum kunnug i borginni og þekkir hana betur en margur annar. Laufey vinnur einnig við leiðsögn á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn á sumrin, en ásamt því hefur hún skrifað greinar um myndlist og unnið við að skipuleggja sýningar, en hún var m.a. sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árin 2003 og 2005.

Magnús R. Einarsson

Magnús R. Einarsson er Reykvíkingur sem ólst upp á Seyðisfirði. Hann stundaði nám í tónlist hér heima og svo seinna á Englandi og Ítalíu. Eftir tónlistarnámið lagðist hann í ferðalög um Asíu og Eyjaálfu í hartnær tvö ár. Eftir heimkomuna 1984 gerðist hann dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu á Rás 1. Hann hefur jafnframt ætíð starfað sem tónlistarmaður og leikið með ýmsum hljómsveitum og söngvurum. Hann hefur undanfarin ár búið bæði í París og Alicante og sent þaðan reglulega pistla í Mannlega þáttinn á Rás 1. Magnús er núna búsettur í Vestmannaeyjum.

Marianne Eiríksson

Marianne fæddist 1964 í Schaffhausen í Sviss, við landamæri Þýskalands. Hún er menntaður ferðamálafræðingur en kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1985 og dvaldist þá á sveitabæjum í nokkra mánuði. Síðan 1992 hefur Marianne búið á Íslandi með íslenskum eiginmanni sínum. Hún er útskrifuð frá leiðsöguskólanum og starfar m.a. sem leiðsögumaður.
Marianne segist sjálf vera orðin meiri Íslendingur en Svisslendingur en hún talar þýsku, ensku, frönsku, ítölsku og að sjálfsögðu reiprennandi íslensku.
Áhugamál Marianne eru ferðalög, tungumál og hestamennska.

Ólafur Thorlacius Árnason

Ólafur Thorlacius Árnason er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Frá 9 ára aldri hefur skíðaganga verið partur af lífi Ólafs á einn eða annan hátt. Skíðagönguáhugi Ólafs jókst með árunum og árangurinn í keppnum líka. Á framhaldskólaaldri sannfærði Ólafur foreldra sína um að það væri komið nóg af skóla í bili og flutti til Noregs. Í Noregi naut Ólafur aðstoðar sumra af færustu þjálfurum Noregs og keppti í fjölda keppna þar í landi, víða í Evrópu og auðvitað heima á Íslandi. Í dag er Ólafur virkur meðlimur í Skíðagöngufélaginu Ulli þar sem áhuginn liggur aðallega í uppbyggingu skíðagöngustarfs fyrir börn og unglinga á höfuðborgarsvæðinu. Ólafur hefur lengi starfað sem leiðbeinandi bæði fyrir fullorðna og börn.

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1975 og ólst upp á sveitabæ norðan Vatnajökuls innan um kindur og hreindýr. Hún er menntuð í fjölmiðlafræði og ljósmyndun og starfaði lengi fyrir útgáfufélagið Birtíng sem blaðamaður og ljósmyndari. Hún útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum vorið 2022 úr göngu- og almennri leiðsögn og tekur bæði að sér almenna rútuleiðsögn og fjallgöngur. Ragnhildur hefur mikinn áhuga á útivist, stundar fjallgöngur, utanvegahlaup og gönguskíði. Þá hefur áhugi hennar á jarðfræði aukist mikið á undanförnum árum og hún hefur gengið fjölda ferða að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli með erlenda ferðamenn. Að auki hefur Ragnhildur verið fararstjóri í gönguferðum bæði á Ítalíu og Tenerife. Ragnhildur býr nú í Hafnarfirði, er gift og á tvo syni, og starfar við leiðsögn, fararstjórn og ljósmyndun. 

Sigrún Sól Ólafsdóttir

Sigrún Sól Ólafsdóttir er fædd árið 1968 á Selfossi þar sem hún ólst upp, en lagðist snemma í ferðalög víða um heim og býr nú ýmist í Berlín eða á Íslandi ásamt þremur sonum sínum. Sigrún er leikkona, leikstjóri og leiðsögumaður að mennt og starfaði við leiklist í mörg ár. Hún lauk mastersnámi í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2012 og fór í framhaldsnám í menningarsamskiptum til Berlínar í Þýskalandi árið 2012 - 2013. Hún rekur nú eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í námskeiðahaldi og leikaravali fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Sigrún starfar einnig sem leiðsögumaður á Íslandi og á Grænlandi, bæði með ensku- og þýskumælandi ferðamenn.

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar. 

Snorri Einarsson

Snorri hefur keppt á heimsbikarmóti á gönguskíðum síðustu 13 ár og var í 15. sæti á síðasta HM í Planica í Slóveníu í 50 km hefðbundinni skíðagöngu. Hann hefur mikla reynslu af því að þjálfa bæði börn og fullorðna síðustu 20 árin og er í dag að þjálfa 10 ára og eldri hjá Skíðafélagi Ísfirðinga.

Sonja Sif Jóhannsdóttir

Sonja Sif Jóhannsdóttir er fædd 1975, er gift og á fjögur börn. Hún ólst upp á sveitabæ í Skagafirði og hefur náttúran alltaf átt stóran sess í hennar lífi. Sonja er íþróttafræðingur að mennt og starfar sem framhaldsskólakennari í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem hún er búsett. Sonja æfði hinar ýmsu greinar íþrótta á sínum yngri árum þó að frjálsar íþróttir hafi vegið þyngst. Undanfarin ár hefur útivistin verið fyrirferðamikil í hennar lífi þar sem hún stundar fjallgöngur, hlaup og hjólreiðar. Hún leggur rækt við að blanda hreyfingu og náttúruupplifun saman, sér til gleði og yndisauka bæði heima og erlendis.

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands. Eftir nokkur ár við skólakennslu og fleira tóku við almenningsíþróttir á líkamsræktarstöðvum og þjálfun hlaupahóps á Seltjarnarnesi í mörg ár. Hún hefur starfað við heilsuþjálfun á Reykjalundi síðan 2010. Áherslan og áhuginn er á gönguferðum og útivist, gönguskíðum og almennri hreyfingu. Steinunn hefur verið fararstjóri í skíðagönguferðum Bændaferða síðan 2006 og í útivistarferðum síðan 2012.

Sveinbjörn Sigurðsson

Sveinbjörn Sigurðsson starfar sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari við Sjúkraþjálfarann í Hafnarfirði. Hann hefur mikla reynslu af þjálfun enda þjálfaði hann í 30 ár bæði handbolta- og fótboltalið og síðustu 5 árin hefur hann komið að þjálfun skíðagöngufólks á höfuðborgarsvæðinu. Sveinbjörn hefur margþætta reynslu af hinum ýmsu keppnum bæði hér heima og erlendis og á síðustu árum hefur hann lagt meiri áherslu á skíðagöngu og skíðakennslu og sótt nær öll mót á Íslandi og helstu mót erlendis í þeirri grein.

Sævar Skaptason

Sævar Skaptason hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hann byrjaði að starfa við ferðaþjónustu árið 1981 og var þá skálavörður í skála Ferðafélagsins í Langadal, Þórsmörk, til ársins 1986. Yfir sumartímann árin 1989 og 1990 starfaði hann einnig sem skálavörður í Landmannalaugum. Frá árinu 1998 hefur Sævar verið framkvæmdastjóri Hey Iceland - Bændaferða (áður Ferðaþjónusta bænda).

Unnur Jensdóttir

Unnur Jensdóttir hefur undanfarin 30 ár starfað sem tónlistarkennari á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Hún er fædd og uppalin á Íslandi en er færeysk í móðurætt, talar færeysku og lítur á Færeyjar sem sitt annað heimaland. Unnur er einnig frönskumælandi og hefur dvalið langdvölum bæði í Frakklandi og Sviss.

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Þórður Höskuldsson

Þórður Höskuldsson er fæddur árið 1966, er viðskiptafræðingur en ferðalög hafa lengi verið áhugamál hans. Eitt af þeim farartækjum sem nýst hafa á þessum ferðalögum er reiðhjólið, en þar fara saman hæfilegur hraði, snerting við umhverfið og þægilegur ferðamáti. Þórður á að baki fjölda ferða sem hjólandi fararstjóri í ferðum með erlenda gesti á Íslandi og með Íslendinga á framandi slóðum.

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 




Póstlisti